Það má sjá bros og gleði í augum alls starfsfólksins sem ég mæti á ganginum inni á Barnaspítala Hringsins, ósjálfrátt er ég farin að brosa og finna léttleika innra með mér. Umhverfið, gleðin sem ríkir, smitast yfir til mín án þess að ég viti nokkuð yfir hverju starfsfólkið gleðst.
Innan spítalans eru gleðifréttirnar flestar fólgnar í því að einhver sem þjáðist vegna verkja og sjúkdóms hefur náð bata og fengið lausn. Um leið og fréttirnar berast mér finn ég hvernig fögnuðurinn innra með mér verður dýpri og það hríslast um mig löngun til þess að bera fréttirnar áfram. Gefa sem flestum hlutdeild í því að gleðjast. Mig langar að hrópa upp: Hún er orðin góð og má fara heim! Um leið er ég orðin ein af þeim sem geng um spítalagangana umvafin gleðiorku með þetta fagnaðarbros á vörunum.

Í dag er Kristniboðsdagurinn, dagur til að boða Krist. Að bera út fagnaðarerindið um það að Jesús gaf líf sitt á krossinum til syndaaflausnar mannkynsins, í því birtist kærleikur Guðs til heimsins. Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki. Jesús sigraði dauðann með upprisunni og með því getur manneskjan eignast eilíft líf. Það eru gleðifréttir kristninnar að Jesús lifir, að manneskjan hefur fengið lausn, hún getur orðið frjáls og fær að fara heim.

Jesús sagði: „Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.“

Þau sem þekkja fagnaðarerindið bera það með sér. Það sést í elsku þeirra, í viðmóti gagnvart öðru fólki og í því hvernig þau lifa lífi sínu sem er endurspeglun viðhorfa þeirra til lífsins og dauðans. Þau þekkja elsku Guðs, til sín og til annarra. Það er dýrmætt að taka á móti kærleika Guðs. Að meðtaka það að vera elskuð/elskaður skilyrðislaust og að iðrun er undanfari fyrirgefningar, það er lærdómstríkt að horfa með þeim augum á aðra, að þessi einstaklingur sé elskaður af Guði. Full af gleðinni yfir fagnaðarerindinu geta þau haft áhrif á umhverfi sitt og annað fólk sem smitast líkt og ég smitaðist af gleði starfsfólksins á spítalanum.

Kristniboðsskipunin felst í því að bera út góðu fréttirnar, og gefa þar með öðrum hlutdeild í gleðinni og möguleikann á að þekkja Jesú, eiga samfélag við hann og byrja að vaxa upp í kristilegu hugarfari. Að gera Jesú að leiðtoga lífsins og lifa í sannleika og kærleika. Þau sem taka á móti fagnaðarerindinu finna fögnuðinn djúpt innra með sér og öðlast löngunina til þess að hrópa upp: Ég er frjáls! Um leið verða þau hluti af þeim sem ganga um fullviss um elsku Guðs og hið eilífa líf. Vonandi umvafin sigurorku og með fagnaðarbros á vörunum.

Þú lesandi góður hefur vonandi heyrt og meðtekið góðu fréttirnar því þær eru ætlaðar þér!

Díana Ósk Óskarsdóttir, sjúkrahúsprestur.

Á þeim degi skaltu segja:
Ég vegsama þig, Drottinn. Þú varst mér reiður
en þér hvarf reiðin og þú huggaðir mig.
Sjá, Guð er hjálp mín,
ég er öruggur og óttast ekki.
Því að Drottinn er vörn mín og lofsöngur,
hann kom mér til hjálpar.
Þér munuð með fögnuði vatni ausa
úr lindum hjálpræðisins.
Á þeim degi munuð þér segja:
Lofið Drottin, ákallið nafn hans.
Gerið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna.
Hafið í minnum að háleitt er nafn hans.
Lofsyngið Drottni því að dásemdarverk hefur hann gert,
þau verða þekkt um alla jörð.
Fagnið og gleðjist, þér sem búið á Síon,
því að Hinn heilagi Ísraels er mikill á meðal yðar.

Hvað segir það þá? „Nálægt þér er orðið, í munni þínum, í hjarta þínu.“ Það er: Orð trúarinnar sem við prédikum. Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn, og trúir í hjarta þínu að Guð hafi upp vakið hann frá dauðum verður þú hólpinn. Með hjartanu er trúað til réttlætis, með munninum játað til hjálpræðis. Ritningin segir: Hver sem á hann trúir verður aldrei til vansæmdar. Í þessu er enginn munur á Gyðingum og Grikkjum. Hinn sami er Drottinn allra, fullríkur fyrir alla sem ákalla hann því að „hver sem ákallar nafn Drottins verður hólpinn“.
En hvernig eiga menn að geta ákallað þann sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra án þess að einhver prédiki? Og hver getur prédikað nema hann sé sendur? Svo er og ritað: „Hversu fagurt er fótatak þeirra sem boða fagnaðarerindið um hið góða.“
En ekki tóku allir við fagnaðarerindinu. Jesaja segir: „Drottinn, hver trúði því sem við boðuðum?“ Trúin kemur þannig af því að heyra. Og það sem heyrt er byggist á orðum Krists.

En lærisveinarnir ellefu fóru til Galíleu, til fjallsins sem Jesús hafði stefnt þeim til. Þar sáu þeir hann og veittu honum lotningu. En sumir voru í vafa. Og Jesús kom til þeirra, talaði við þá og sagði: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. 19Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“