Í Guðspjalli dagsins sést umhyggjan sem Jesús bar fyrir fólkinu sem kom til þess að hlusta á hann. Hann sýndi ákveðna fyrirhyggju þegar hann ákvað að gefa þeim að borða áður en þau héldu aftur af stað. Hann vildi ekki að þau myndu örmagnast á leiðinni. Hann leit til þeirra, mat þörfina og ákvað að mæta henni. Til þess að mæta þörfum fólksins fór hann með þakkarbæn og bað Guð að blessa það sem lagt var til. Sú bæn og þakkargjörð varð til þess að brauðin sjö og nokkrir smáfiskar dugðu fyrir fjögur þúsund manns og leifarnar fylltu sjö körfur.

Guð gefur okkur það sem við þurfum og við gefum það sem er umfram áfram. Guð fyllir bikarinn okkar svo yfir flæði til annarra. Við sem fáum allt sem við þörfnumst og meira til getum þannig blessað aðra. Það er mikilvægt í þessu samhengi að muna að við erum öll sköpuð í mynd Guðs, við erum öll börn Guðs og tilheyrum því sömu fjölskyldu.

Við þráum öll réttlæti og miskunn. Viljum að það sé tekið vel á móti okkur og að okkur séu gefin réttmætt tækifæri. Líklega getum við flest sammælst um það að öll börn eigi að fá gott atlæti, hlýju og umhyggju og sömu tækifæri til menntunar. Það ætti einnig að eiga við um fullorðna. Þegar við lítum til fólksins okkar, fjölskyldu og vinafólks þá viljum við að þau hafi góða heilsu, að þau hafi tækifæri til að búa sér stað og skapa sér gott líf. Í því samhengi er gott fyrir okkur að huga að því hvaða fólk það er sem tilheyrir hópnum sem við köllum fólkið okkar.

Líklega er það einmitt kristilegt hugarfar að taka eftir náunga okkar, líta til fólksins, meta þörf þeirra og mæta henni. Þakka Guði fyrir og biðja hann að blessa og bæta sálarnauð. Biðja Drottinn að taka frá okkur það sem er ekki hollt og gefa okkur það sem gerir okkur gott bæði líkamlega og andlega. Þannig að við getum gefið það sem er frá Guði en ekki frá okkur. Gefið af því sem okkur hefur verið gefið.

Þannig getum við verið dýrmætur hlekkur þegar Guð mætir fátækt eða öðrum skorti og með því að fagna þegar Drottni eru færðar þakkir fáum við að dvelja í sáttinni sem fylgir þakklætinu.

Himneski faðir, við horfum öll til þín, þú gefur okkur vonina, blessar okkur. Þú mætir okkur og sefar okkur, nærir okkur andlega, líkamlega og félagslega, tilfinningalega og vitsmunalega. Opnaðu hjörtu okkar og huga svo að við meðtökum hversu ríkulega gæsku þú sýnir öllu lífi.

Guð er með öllum sem það vilja af fullri einlægni. Guð heyrir kallið og kemur til hjálpar. Hann mætir öllum með mildi, með frið og ljúfum andvara, alltaf.

Díana Ósk Óskarsdóttir, sjúkrahúsprestur.

Allra augu vona á þig,
þú gefur þeim fæðu þeirra á réttum tíma,
lýkur upp hendi þinni
og seður allt sem lifir með blessun.
Drottinn er réttlátur á öllum vegum sínum
og miskunnsamur í öllum verkum sínum.
Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann,
öllum sem ákalla hann í einlægni.
Hann uppfyllir óskir þeirra sem óttast hann
og hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim.

Guð er þess megnugur að veita ykkur ríkulega allar góðar gjafir til þess að þið í öllu og ávallt hafið allt sem þið þarfnist og getið sjálf veitt ríkulega til allra góðra verka. Eins og ritað er:

Hann miðlaði mildilega,

gaf hinum snauðu,

réttlæti hans varir að eilífu.

Guð sem gefur sáðmanninum sæði og brauð til fæðu mun og gefa ykkur sáð og margfalda það og auka ávöxt réttlætis ykkar. Guð mun auðga ykkur í öllu svo að þið getið jafnan sýnt örlæti. Þá munu margir þakka Guði fyrir gjafirnar sem við komum með frá ykkur. Því að þessi þjónusta, sem þið innið af hendi, bætir ekki aðeins úr skorti hinna heilögu heldur leiðir hún einnig til þess að margir menn þakka Guði.

Um þessar mundir bar enn svo við að mikill mannfjöldi var saman kominn og hafði ekkert til matar. Jesús kallar þá til sín lærisveinana og segir við þá: „Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Menn hafa nú verið hjá mér þrjá daga og hafa ekkert til matar. Láti ég þá fara fastandi heim til sín örmagnast þeir á leiðinni en sumir þeirra eru langt að.“
Þá svöruðu lærisveinarnir: „Hvar er hægt að fá brauð til að metta þetta fólk hér í óbyggðum?“
Hann spurði þá: „Hve mörg brauð hafið þið?“
Þeir sögðu: „Sjö.“
Þá bauð Jesús fólkinu að setjast á jörðina, tók brauðin sjö, gerði þakkir og braut þau og gaf lærisveinum sínum að þeir bæru þau fram. En þeir báru þau fram fyrir fólkið. Þeir höfðu og fáeina smáfiska. Hann bað Guð að blessa þá og bauð að einnig þeir skyldu bornir fram. Menn neyttu og urðu mettir. Síðan tóku lærisveinarnir saman leifarnar, sjö körfur. En þar voru um fjögur þúsund manns. Síðan lét hann fólkið fara.