Hugleiðing út frá freistingarsögunni Genesis 3: 1-24 í tilefni af alþjóða baráttudegi kvenna
Þetta var allt hennar sök.
Það var hún sem valdi að hlusta á snákinn og láta freistast í stað þess að vera sterk. Í stað þess að vera hlýðin og góð. Hún óhlýðnaðist og þannig var það hennar verk að hið illa kom inn í heiminn sem fram að því hafði verið sannkölluð paradís.
Hann hafði ekkert með þetta að gera. Hún tældi hann.
Hún fékk hann til þess að fá sér bita af hinum forboðna ávexti. Ef ekki hefði verið fyrir hana hefði hann sjálfsagt látið þetta vera og lifað glaður og góður í paradís. Hún fékk hann til þess að kaupa vændi. Hann hefði aldrei gert það nema vegna þess að konan tældi hann.
Þetta var allt henni að kenna, ekki honum.
Hún fékk hann til að lemja sig því hún ögraði honum. Hún fékk hann til að áreita sig því hún var í svo stuttu pilsi. Hún er konan sem allir karlar þrá en enginn vill giftast því hún er hættuleg. Hún hlustaði á snákinn, varð forvitin og lét til leiðast að bragða á hinum forboðna ávexti og því heita strippklúbbar eftir henni, Eva.
Þess vegna heita verslanir með kynlífsleikföng eftir henni, Eva. Þess vegna er henni refsað af fólki með því að vera ávalt sú seka. Og henni er refsað af Guði með því að þjást þegar hún fæðir börn. Illskan kom inn í heiminn vegna Evu sem hlustaði á snákinn og fékk sér bita af ávextinum og bauð Adam með sér.
Adam fékk sér vissulega bita líka en hann hefði aldrei gert það ef Eva hefði ekki átt frumkvæðið. Eva er upphaf illskunar í heiminum. Hún stendur fyrir allt sem er hættulegt en um leið er hún svo áhugaverð… Eða hvað!

Getur verið að erkitýpan Eva sé eitthvað allt annað og meira en þetta? Er hún kannski konan sem þorði að verða fullorðin og horfast í augu við dauðann og endanleika lífsins. Konan sem þorði að fá sér bita á ávextinum og þroskast og sjá lífið eins og það er.
Var Eva kannski konan sem þráði þekkingu og visku og tók því ákveðna áhættu sem varð til þess að hún varð að horfast í augu við raunveruleikann? Var Eva kannski konan sem vildi ekki lifa í blekkingu, þekkingarleysi og barnaskap?
Snákurinn sagði henni satt. Hann laug engu. Hann sagði að hún myndi læra að þekkja hið góða frá hinu illa. Er það ekki einmitt það sem við þurfum til þess að komast af í heiminum? Að losa okkur við barnaskapinn og útópíuna og eilífa paradís og öðlast kjark til þess að horfast í augu við heiminn eins og hann er?
Hlutverk Evu í hinni ljóðrænu frásögn í fyrstu Mósebók var ekki að kollvarpa heiminum og gera hann að verri stað. Hið illa er ekki hennar sök. En Eva hafði kjarkinn til þess að takast á við heiminn og hætta að lifa í daumi. Hún vildi öðlast þekkingu. Hún vildi þroskast. Hún vildi verða fullorðin.

Eva er ekki ein erkitýpa. Eva er margar týpur. Hún er týpan sem þráir þekkingu og fróðleik. Sú sem sér heiminn eins og hann er og tekst á við hann eftir því.
Kannski er hún vændiskonan sem tælir aumingja karlinn Kannski er hún háskólaprófessorinn eða hótelþernan sem fór í verkfall á föstudaginn var. Eva er þú og Eva er ég. Við erum Eva.
Freistingarsagan er sagan um okkur mannfólkið. Hún fjallar um sársaukann sem fylgir því að verða fullorðin. Kannski er paradís ekki góður staður fyrir okkur þegar upp er staðið því við þurfum að læra að þekkja munin á góðu og illu. Konan sem öðlast þekkingu á auðveldara með að bjarga sér og lifa af í þessum heimi. Kona sem þekkir réttindi sín getur nýtt sér þau fremur en kona sem veit ekki hvaða möguleika hún hefur. Kona sem veit að það er ekki í lagi að brjóta á henni er líklegri til þess að koma sér út úr vondum aðstæðum en sú sem er alin upp við það að þetta séu hennar einu örlög.
Þekkingin bjargar ekki öllum konum. Hún bjargar ekki öllu. En hún getur breytt miklu. Þökk sé Evu sem hafði kjarkinn til þess að sækja hana.

Sr. Guðrún Karls Helgudóttir

Einhverju sinni færði Kain Drottni fórn af ávexti jarðarinnar. Abel færði einnig fórn af frumburðum hjarðar sinnar og feiti þeirra. Drottinn gaf gaum að Abel og fórn hans en leit ekki við Kain og fórn hans. Þá reiddist Kain mjög og varð þungur á brún. Drottinn sagði við Kain: „Hví reiðist þú og ert þungur á brún? Er ekki svo að þú getur verið upplitsdjarfur ef þú gerir rétt, en gerir þú rangt þá liggur syndin við dyrnar? Hún girnist þig en þú getur sigrast á henni.“

Sæll er sá maður sem stenst freistingu og reynist hæfur. Guð mun veita honum kórónu lífsins sem hann hefur heitið þeim er elska hann. Enginn má segja er hann verður fyrir freistingu: „Guð freistar mín.“ Hið illa getur eigi freistað Guðs og sjálfur freistar hann einskis manns. Það er eigin girnd sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir. Þegar girndin síðan er orðin þunguð elur hún synd og þegar syndin er orðin fullþroskuð leiðir hún til dauða. Villist ekki, elskuð systkin.

“Símon, Símon, Satan krafðist að fá að sælda yður eins og hveiti svo að hismið kæmi í ljós. En ég hef beðið fyrir þér að trú þín þrjóti ekki. Og styrk þú trúsystkin þín þegar þú ert snúinn við.“ En Símon sagði við hann: „Drottinn, ég er reiðubúinn að fylgja þér bæði í fangelsi og dauða.“ Jesús mælti: „Ég segi þér, Pétur: Áður en hani galar í dag munt þú þrisvar hafa neitað því að þú þekkir mig.“