Fastan

Nú er önnur fastan ríflega hálfnuð frá því að líf okkar flestra, ef ekki allra,  snerist svolítið á hvolf eins og sagt er,  og allt breyttist hjá okkur.  Fyrir rúmi ári hefðu engu okkar dottið til hugar að framundan væri tími eins og við höfum upplifað sl. ár.  Já, skrýtnir tímar og öðruvísi en við væntum.

Kannski eru allir tímar þannig, öðruvísi en aðrir.  Við erum fólk á ferðalagi og dagar okkar eru misjafnir og fæstir eins og aðrir þegar að er gáð.  Alltaf er eitthvað sem er öðruvísi.  Því er þó auðvitað ekki að neita að þessir tímar sem við lifum núna eru sannarlega „fordæmalausir“ eins og svo mörg hafa sagt.  Við höfum þurft að taka á okkur ýmsar breytingar á daglegu lífi og háttum, og mörg hafa tapað lífsafkomu sinni og atvinnu.  Mörg hafa veikst og glíma við erfið eftirköst veirunnar, sum hafa látist.  Guð blessi þau öll og minningu þeirra.

Við höfum lært af þessu að ekkert er í heiminum öruggt, allt er í heiminum hverfult.  Jörðin sjálf hefur mas. bylt sér og skekið sig og minnt á sig. Mörg eru þau sem eru skelkuð yfir því öllu og kvíða framtíðinni.  Í hinni helgu bók og víða í boðskap Jesú er að finna huggunar – og orð til styrkingar, „ verið óhrædd ég hef sigrað heiminn “ segir hann t.d.,  og í raun má segja að boðskapur heilagrar trúar sé sá,  að okkur er borgið sama hvað á okkur kann að dynja.

Á föstunni er hefð fyrir því hjá mörgu kristnu fólki að horfa í spegilinn og virða fyrir sér eigin sjálfsmynd.  Hvað er það í mínu lífi sem ég get bætt og notað til að gera heiminn betri er spurning sem ýmsir velta fyrir sér.  Þeir ritningartextar sem við lesum í kirkjunni á föstutímanum eru m.a. til þess ætlaðir að minna okkur á þetta, að horfa svolítið á okkur sjálf með þetta í huga og etv. til þess að fá okkur til að muna aðstæður annara, okkar minnstu systkina og annarra.  Það er auðvitað hið sístæða verkefni hinnar kristnu manneskju en kannski sérstaklega á föstunni.   Guð gefi okkur að geta sett okkur sjálf í aðstæður annarra og reynt að vera náunganum Kristur og mæta honum eða henna þannig.  Guð gefi okkur öllum góðar stundi.

Séra Leifur Ragnar Jónsson

Lofgjörðarlag vikunnar er You say með Lauren Daigle. Guð þekkir það sem við erum að fást við og er alltaf til staðar fyrir okkur.

Einu sinni kom maður frá Baal Salísa og færði guðsmanninum tuttugu byggbrauð, frumgróðabrauð. Dálítið af nýju korni hafði hann einnig í poka sínum. Elísa sagði: „Gefðu fólkinu þetta.“ „Hvernig get ég gefið þetta hundrað mönnum?“ svaraði þjónn hans. En hann sagði: „Gefðu fólkinu þetta að eta því að svo segir Drottinn: Þeir munu eta og leifa.“ Síðan bar hann þetta fyrir þá og þeir átu og leifðu eins og Drottinn hafði sagt.

Undir dögun hvatti Páll alla til að neyta matar og sagði: „Þið hafið nú þraukað hálfan mánuð fastandi og matarlausir. Það er nú mitt ráð að þið matist. Þess þurfið þið ef þið ætlið að bjargast. En enginn ykkar mun einu hári týna af höfði sér.“ Að svo mæltu tók hann brauð gerði Guði þakkir í allra augsýn, braut það og tók að eta. Urðu nú allir hressari og fóru líka að matast.

Nú deildu Gyðingar hver við annan og sögðu: „Hvernig getur þessi maður gefið okkur líkama sinn að eta?“
Þá sagði Jesús við þá: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef þér etið ekki hold Mannssonarins og drekkið blóð hans þá er ekki líf í yður. Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt hefur eilíft líf og ég reisi hann upp á efsta degi. Hold mitt er sönn fæða og blóð mitt er sannur drykkur. Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt er í mér og ég í honum. Eins og hinn lifandi faðir sendi mig og veitir mér líf, svo mun ég láta þann lifa sem mig etur. Þetta er það brauð sem niður steig af himni. Það er ekki eins og brauðið sem feðurnir átu enda dóu þeir. Sá sem etur þetta brauð mun lifa að eilífu.“