Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Fátt veit ég fallegra en sú auðmjúka og dýrmæta bæn trúar og vonar, kærleika og friðar sem það er að færa nýlega fætt barn í hvítan allt of stóran þar til gerðan skírnarkjól og afhenda það á táknrænan hátt höfundi og fullkomnara lífsins í fang sem heitir því að taka það að sér skilyrðislaust. Leiða það og umvefja í öllum aðstæðum og bera þegar það getur ekki meir.
Hvað veist þú annars dýrmætara en að vera ávarpaður snemma að morgni lífsins af höfundi þess og fullkomnara með orðunum: “Sjá, ég verð með þér alla daga, allt til enda veraldar.”

Tákn hreinleika og vaxtar
Hvíti kjóllinn táknar meðal annars hreinleika Krists og heilagan anda Guðs. Jesú Krists sem fyrirgefur syndir okkar þegar við misstígum okkur í hugsunum, orðum og gjörðum og heilagan anda Guðs sem minnir okkur á hver við erum, hverjum og hverju við tilheyrum og minnir okkur á að við erum ekki ein.

Stærð og sídd kjólsins táknar að við fáum að vaxa og dafna í skjóli hans sem umvefur okkur og helgar á bak og brjóst og gefur okkur líf af kærleika sínum, náð og miskunn sem aldrei mun enda.

Sítenging
Þegar þú ómálga og ósjálfbjarga klæddur hvítum skrúða varst borinn af umhyggju og kærleika af þeim sem elska þig mest upp að brunni réttlætisins til að laugast í vatni og anda, þá varstu sítengdur við lífið. Sambandið er þráðlaust, uppsprettan eilíf, þú ert sítengd/ur.
Skapari þinn og frelsari hefur krýnt þig náð og miskunn og gert þig að erfingja eilífðarinnar.
Ekkert mun fá þig hrifið úr frelsarans fangi sem foreldrar þínir forðum af einskærri ást færðu þig í. Þú varst nefndur með nafni og nafnið þitt var skráð af frelsarans hendi með himnesku letri í lífsins bók. Letri sem fæst hvorki afmáð né eytt og ekkert strokleður megnar að þurrka út. Þér var heitin eilíf samfylgd í skjóli skaparans.
Þeir sem þannig eiga himininn í hjarta sér og nafn sitt letrað í lífsins bók þurfa því ekki að óttast tannaför tilverunnar og þá taumlausu ógn sem frá henni stafar.

Einhliða samningur
Höfundur lífsins hefur gert samning við þig. Einhliða samning sem er óuppsegjanlegur af hans hálfu. Hann er gjöf Guðs til þín.
Mótframlag þitt er ekkert. Þú þarft bara að lifa með samningnum í einlægni, af auðmýkt og í þakklæti. Höfundur og fullkomnari lífsins hefur fyrirgefið þér allar þínar syndir og öll þín mistök í eitt skipti fyrir öll. Hann þráir að fá að fylla hjarta þitt af heilögum friði.
Það er á þínu valdi að rifta umræddum samningi ef þú einhverra hluta vegna vilt ekki þiggja hann eða halda honum í gildi. Það er auðvelt fyrir okkur að segja okkur frá honum, afneita honum eða afþakka hann. Hann er ekki og honum verður aldrei troðið upp á einn eða neinn.

Handarfar skaparans

Í lófa Guðs er nafn þitt ritað. Þú ert handarfar skaparans í þessum heimi og líf þitt hið fegursta ljóð. Heilagur andi hefur blásið þér líf, anda og kraft í brjóst til að vera sá sem þú ert. Þú ert leikflétta í undri kærleikans.
Njóttu ávaxtanna og ávinningsins og láttu endilega muna um þig.
Stöndum saman í lífinu öllu, í leik og starfi. Í trú, von og kærleika, með fyrirgefandi hugarfari frelsarans, í auðmýkt, virðingu og þakklæti fyrir lífið og fyrir hvert annað. Því við þurfum sannarlega hvert á öðru að halda.

Með kærleiks- samstöðu- og friðarkveðju. Njótum lífsins.
Lifi lífið!

Sigurbjörn Þorkelsson er ljóðskáld, rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Einhverju sinni færði Kain Drottni fórn af ávexti jarðarinnar. Abel færði einnig fórn af frumburðum hjarðar sinnar og feiti þeirra. Drottinn gaf gaum að Abel og fórn hans en leit ekki við Kain og fórn hans. Þá reiddist Kain mjög og varð þungur á brún. Drottinn sagði við Kain: „Hví reiðist þú og ert þungur á brún? Er ekki svo að þú getur verið upplitsdjarfur ef þú gerir rétt, en gerir þú rangt þá liggur syndin við dyrnar? Hún girnist þig en þú getur sigrast á henni.“

Þá sagði Kain við Abel, bróður sinn: „Göngum út á akurinn.“
Og er þeir voru á akrinum réðst Kain á Abel, bróður sinn, og drap hann. Þá sagði Drottinn við Kain: „Hvar er Abel, bróðir þinn?“ Kain svaraði: „Það veit ég ekki. Á ég að gæta bróður míns?“ Drottinn sagði: „Hvað hefurðu gert? Blóð Abels, bróður þíns, hrópar til mín af jörðinni. Þess vegna skaltu vera bölvaður og burtrekinn af jörðinni sem opnað hefur munn sinn og tekið á móti blóði bróður þíns er þú úthelltir. Þegar þú yrkir jörðina skal hún ekki framar gefa þér uppskeru sína. Landflótta og flakkandi skaltu vera á jörðinni.“
Kain sagði við Drottin: „Sekt mín er meiri en svo að ég fái borið hana. Nú hefur þú rekið mig burt af landinu. Ég verð að fela mig fyrir augliti þínu, landflótta og flakkandi um jörðina. Þá getur hver sem finnur mig drepið mig.“ Drottinn sagði við Kain: „Svo skal ekki verða. Hver sem drepur Kain skal sæta sjöfaldri hefnd.“
Og Drottinn setti merki á Kain til þess að enginn sem rækist á hann dræpi hann. Og Kain gekk burt frá augliti Drottins.

Þið elskuðu, elskum hvert annað því að kærleikurinn er frá Guði kominn og hver sem elskar er barn Guðs og þekkir Guð. Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð því að Guð er kærleikur. Í því birtist kærleikur Guðs til okkar að Guð hefur sent einkason sinn í heiminn til þess að hann skyldi veita okkur nýtt líf. Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar.
Þið elskuðu, fyrst Guð hefur elskað okkur svo mikið þá ber okkur einnig að elska hvert annað.

Og Jesús sneri sér að lærisveinum sínum og sagði einslega við þá: „Sæl eru þau augu sem sjá það sem þér sjáið. Því að ég segi yður: Margir spámenn og konungar vildu sjá það sem þér sjáið en sáu það ekki og heyra það sem þér heyrið en heyrðu það ekki.“

Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista Jesú og mælti: „Meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“
Jesús sagði við hann: „Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?“
Hann svaraði: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.“
Jesús sagði við hann: „Þú svaraðir rétt. Ger þú þetta og þú munt lifa.“
En lögvitringurinn vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú: „Hver er þá náungi minn?“
Því svaraði Jesús svo: „Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona. Svo vildi til að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn en sveigði fram hjá. Eins kom og Levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá. En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum og er hann sá hann kenndi hann í brjósti um hann, gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann. Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meira til skal ég borga þér þegar ég kem aftur.
Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni sem féll í hendur ræningjum?“
Hann mælti: „Sá sem miskunnarverkið gerði á honum.“
Jesús sagði þá við hann: „Far þú og ger hið sama.“