Ég á ekki minningu um að finnast þessi föstudagur eitthvað lengri en aðrir föstudagar. Hér í „den“ tíð þegar ég var barn þá fannst mér gott að vera heima og lesa. Það hefur mér reyndar fundist alla mína tíð. Að leita inn í hlýjuna, koma sér vel fyrir og detta inn í góða sögu. Ég sem unglingur komst ekki alltaf heim eða inn í notalegheitin og langaði mest að nýta föstudaginn langa í að sofa sem mest. Það var leiðinlegt, já, en mörgum leiddist einmitt á þessum degi því að í þá daga var allt og þá meina ég allt, lokað. En það var kannski bara gott. Það ríkti einskonar kyrrð yfir öllu.

Kirkjan og samfélagið minnist Jesú á Golgata, göngu hans með krossinn upp á hæðina þar sem hann var krossfestur. Á leiðinni þangað var hann hæddur og smáður. Útskúfaður. Hann gekk með krossinn, þjakaður undan þunga hans, þyrnikórónunni, hitanum og þorstanum. Að því er virtist gekk hann einn til móts við dauðann.

Þessi hluti sögunnar vekur með okkur sorg, þetta eru hræðileg örlög. Ekkert okkar vill upplifa slíka þjáningu, niðurlægingu og ekkert okkar vill mæta dauðanum með þessum hætti. Við finnum til þegar við hugsum um aðra manneskju í þessum sporum. Við verðum líka reið, réttlætiskenndin rís upp og við skiljum ekki hvernig fólk gat tekið þátt í þessu. Líklega gat enginn gert neitt til að aðstoða hann eða stoppa ferlið en það var óþarfi að hrækja á hann, úthrópa hann eða hlægja að óförum hans. Mér finnst sárt að hugsa til þess að manneskjur geti komið svona fram við hvor aðra og við lesturinn fer ég að þrá það að einhver sýni hetjudáð og geri eitthvað.

Svo lesum við um viðbrögð Jesú, hann hugar að móður sinni og lærisveininum sem hann elskaði. Mitt í eigin kvölum og pínu þá tekur hann eftir þeim og sér eymd þeirra. Hann tengir þau saman með orðum sínum, býr til einingu og gefur þeim von. Þau hafa hvort annað. Jesús biður líka fyrir þeim sem brugðust honum, þeim sem ásökuðu hann og beittu hann þessu harðræði. Hann hrópar til Guðs, Faðir fyrirgef þeim því þeir vita ekki hvað þeir gera. Líkamleg og tilfinningaleg áþján hans bugar ekki gæsku hans til annarra. Lesandinn kemst við, samkennd og elska Jesú hreyfir við okkur. Hann er hetja sögunnar.

Það er fullkomnað! Þegar hermennirnir gáfu Jesú edik að drekka þá sagði hann þessi orð því hann vissi hvert hans hlutverk var. Hann vissi þetta fyrirfram, þekkti áætlun Guðs. Hann vissi að hann var að uppfylla það sem af honum var ætlast til þess að það sem þurfti að gerast gæti orðið. Sigurinn yfir dauðanum var í nánd, frelsi og eilíft líf fyrir mannkynið allt.

Við verðum óþreyjufull og viljum lesa áfram. Við viljum lesa um sigurinn og finna gleðina og fögnuðinn sem fylgir. Því fylgir spenna, eftirvænting og tíminn virðist standa í stað. Allt hefur sinn tíma. Fyrst kemur föstudagurinn langi svo kemur Páskadagur. Nú erum við stödd hér. Lítum inn á við, komum okkur vel fyrir og dettum inn í söguna. Leyfum okkur að meðtaka allt það sem gerðist.

Séra Díana Ósk Óskarsdóttir, sjúkrahúsprestur.

Komið, hverfum aftur til Drottins
því að hann reif sundur en mun lækna oss,
hann særði en mun gera að sárunum.
Hann lífgar oss eftir tvo daga,
á þriðja degi reisir hann oss upp,
til þess að vér lifum fyrir augliti hans.
Vér skulum leita þekkingar,
sækjast eftir að þekkja Drottin.
Hann kemur jafn áreiðanlega og morgunroði,
eins og vorskúr sem vökvar jarðveginn.
Hvað á ég að gera við þig, Efraím,
hvernig að fara með þig, Júda?
Tryggð þeirra er eins og morgunþoka,
eins og dögg sem hverfur skjótt.
Þess vegna hegg ég þá með spámönnum,
veg þá með orðum munns míns
og réttur minn mun ljóma sem birta.
Miskunnsemi þóknast mér en ekki sláturfórn
og guðsþekking fremur en brennifórn.

Er við þá höfum mikinn æðsta prest, sem farið hefur í gegnum himnana, Jesú Guðs son, skulum við halda fast við játninguna. Ekki höfum við þann æðsta prest er eigi geti séð aumur á veikleika okkar heldur þann sem freistað var á allan hátt eins og okkar en án syndar. Göngum því með djörfung að hásæti Guðs náðar. Þar finnum við miskunn og náð þegar við erum hjálparþurfi.

Þá seldi hann þeim hann í hendur og bauð að láta krossfesta hann.
Hermennirnir tóku þá við Jesú. Og hann bar kross sinn og fór út til staðar sem nefnist Hauskúpa, á hebresku Golgata. Þar krossfestu þeir hann og með honum tvo aðra hvorn til sinnar handar, Jesú í miðið. Pílatus hafði látið gera yfirskrift og setja á krossinn. Þar stóð skrifað: JESÚS FRÁ NASARET, KONUNGUR GYÐINGA. Margir Gyðingar lásu þessa áletrun því staðurinn, þar sem Jesús var krossfestur, var nærri borginni og þetta var ritað á hebresku, latínu og grísku. Þá sögðu æðstu prestar Gyðinga við Pílatus: „Skrifaðu ekki konungur Gyðinga, heldur að hann hafi sagt: Ég er konungur Gyðinga.“
Pílatus svaraði: „Það sem ég hef skrifað það hef ég skrifað.“
Þegar hermennirnir höfðu krossfest Jesú tóku þeir klæði hans og skiptu í fjóra hluti og fékk hver sinn hlut. Þeir tóku og kyrtilinn en hann var saumlaus, ofinn í eitt ofan frá og niður úr. Þeir sögðu því hver við annan: „Rífum hann ekki sundur, köstum heldur hlut um hver skuli fá hann.“ Svo rættist ritningin:
Þeir skiptu með sér klæðum mínum
og köstuðu hlut um kyrtil minn.
Þetta gerðu hermennirnir.
En hjá krossi Jesú stóðu móðir hans og móðursystir, María, kona Klópa, og María Magdalena. Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn, sem hann elskaði, segir hann við móður sína: „Kona, nú er hann sonur þinn.“ Síðan sagði hann við lærisveininn: „Nú er hún móðir þín.“ Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín.
Jesús vissi að allt var þegar fullkomnað. Þá sagði hann til þess að ritningin rættist: „Mig þyrstir.“
Þar stóð ker fullt af ediki. Hermennirnir vættu njarðarvött í ediki, settu hann á ísópslegg og báru að munni honum. Þegar Jesús hafði fengið edikið sagði hann: „Það er fullkomnað.“ Þá hneigði hann höfuðið og gaf upp andann.