Í dag er Pálmasunnudagur og með honum hefst Dymbilvika oft kölluð bænavika. Á komandi viku göngum við til kirkju með dramatískar frásagnir af Jesú í bakgrunningum, frásagnir af svikum, pínu og dauða og svo kemur gleðiboðskapurinn í kjölfarið þegar við fögnum páskadagsmorgni sem færir okkur upprisuna, ljósið og vonina. Við sjáum fólk hvarvetna við götuna inn í borgina, fólk með pálmagreinar sem hrópar Hósíanna ( „viltu frelsa okkur“).  Maðurinn sem er hylltur sem konungur kemur ríðandi á asna – og er á leið til vígslu með þyrnikórónu, á leið til þjáningar og dauða.

Við lesum um það að María smurði fætur Jesú með dýrum smyrslum og þurrkar þá síðan með hári sínu. Í Gamla testamentinu voru konungar smurðir og var það tákn þess að þeir væru útvaldir af Guði. Titillinn Messías sem fyrst var notaður um konunga Gamla testamentisins kemur úr hebresku en þar þýðir orðið Messiach, smyrsli.

Allt er á annan veg með Jesú, hann er öðruvísi konungur. Hann var ekki smurður með viðhöfn, hann kom ekki ríðandi á hvítum hesti umkringdur lífvörðum og kórónan sem sett var á höfuð honum var ekki úr gulli heldur af greinum með stingandi þyrnum.

Í guðspjallinu segir Jesús við Júdas Ískaríot: Láttu hana vera, hún hefur geymt þessi til greftrunardags míns.. Þannig gerir hann það kunnugt að þessi smyrsli hafi dýpri meiningu sem tengjast aftur dauða hans og upprisu eða jafnvel einlægri ósk hans um jafnrétti fyrir alla.

Kærleikur sem metinn er til fjár er ekki kærleikur þegar upp er staðið. Kærleikurinn er afurð hjartans, heilög gjöf sem okkur hefur verið gefin. Frásögnin er einmitt lýsandi fyrir Guð sem tekur þátt í lífinu, kærleikur sem birtist í sköpuninni. Guð er lind kærleikans sem við berum í hjörtum okkar, kærleikur sem gerir okkur kleyft að lifa í gegnum ólgusjó lífsins.

Guð óttast ekki að kærleikur hans fari til spillis, hann lætur honum rigna yfir réttláta rétt sem óréttláta, já kærleikur hans er ekki frátekinn fyrir þá sem ganga þrönga veginn, eða þá sem eru í innsta hring kirkjunnar, nei, Guð vill að við séum öll í yfirflæði lífs og kærleika alla okkar daga og rétt eins og María gefur hann okkur líf og kærleika. Líf Jesús vitnar einmitt um þetta, hann er ekki útspekúleraður prédikari sem leitar eftir valdi og virðingu… nei þvert á móti, hann einmitt gefur kærleika og umgengst alla jafnt líka þá sem eru til hliðar settir í samfélaginu, hann er tilbúinn til að láta konu smyrja sig sem líklega er talin óhrein í augum samfélagsins (sjá Matthíasarguðspjall).

Jesús leitaði ekki eftir valdi eða stöðu, páskarnir fjalla um það hvernig hann afsalaði sér öllu í stað þess að koma fram sem mikilvægur pólitískur og trúarlegur leiðtogi sem hann hefði auðveldlega getað gert. Hann var hylltur af börnum, konum og fátækum, þeim sem voru lægst í svo kölluðum virðingarstiga samfélagsins, og að lokum valdi hann að láta taka sig höndum, hvar hann var kvalinn, píndur og síðan líflátinn á krossi á föstudeginum langa.

Krossinn er ekki afleiðing hefndargjarns Guðs sem refsar sínum eigin syni með því að þvinga hann til að taka á sig syndir okkar mannfólksins, heldur einmitt þvert á móti við fáum nefnilega að upplifa og heyra frásögn af manni sem gaf frá sér sitt eigið líf til að vera trúr þeim kærleika sem hann boðar.

Á páskunum opinberar Drottinn dýpt kærleika síns til okkar, kærleika sem óttast ekki dauðann og tekur ekki tillit til nokkurs annars en auðmýktarinnar og gjafmildinnar sem felst í því að Jesús gefur okkur sitt eigið líf. Það er létt að líta fram hjá því hversu róttækur boðskapur Jesú er en ef við fjarlægjum allar umbúðirnar og skoðum kjarna sögunnar um barn sem fæddist við erfiðar kringumstæður, barn sem óx upp og varð kennari og trúboði sem laðaði til sín þá sem lægstir voru og oft fyrirlitnir í samfélaginu en fengu að lokum uppreist æru vegna boðskapar Jesú Krists, sem var ógn gagnvart viðteknum venjum og viðmiðum samfélagsins. Fagnaðarerindið er að ákveðnu leyti uppgjör við illsku heimsins. Við erum skírð til dauða og upprisu Jesú Krists og það eru þessir þættir sem eru grunnur trúar okkar.

Það er auðvelt að taka þátt í húrrahrópunum.. Hósíanna.. að vera hluti hópsins sem tekur á móti Jesú sem konungi. Lítið á hann þegar hann ríður hjá, á asnanum, horfið í augu hans, sjáið sorgina, sjáið hendurnar sem brátt verða blóðugar og brotnar af völdum naglanna sem negldir voru í gegnum þær, hugsið ykkur sárin á bakinu og blóðtaumana undan þyrnikórónunni.. Getur þú horft í þessi augu, augu hans sem er sonur Guðs, hinn smurði, Messías.

Friður Guðs sem er æðri öllum skilningi, varðveiti hjörtu ykkar og hugsanir í Kristi Jesú. Amen.

Sr. Fritz Már Jörgensson

Fagna mjög, dóttirin Síon,
lát gleðilátum, dóttirin Jerúsalem.
Sjá, konungur þinn kemur til þín.
Réttlátur er hann og sigursæll,
lítillátur og ríður asna,
ungum ösnufola.
Hann útrýmir hervögnum úr Efraím
og víghestum úr Jerúsalem.
Öllum herbogum verður eytt.
Hann mun boða þjóðunum frið
og ríki hans mun ná frá hafi til hafs
og frá Fljótinu
til endimarka jarðar.

Fyrst Kristur veitir kjark, fyrst kærleikur hans uppörvar, fyrst andi hans skapar samfélag, fyrst þar ríkir hlýja og samúð gerið þá gleði mína fullkomna með því að vera einhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál. Gerið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf. Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra. Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var.
Hann var í Guðs mynd.
En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur.
Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd
og varð mönnum líkur.
Hann kom fram sem maður,
lægði sjálfan sig
og varð hlýðinn allt til dauða,
já, dauðans á krossi.
Fyrir því hefur og Guð
hátt upp hafið hann
og gefið honum nafnið,
sem hverju nafni er æðra,
til þess að fyrir nafni Jesú
skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu
og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar:
Jesús Kristur er Drottinn.

Sex dögum fyrir páska kom Jesús til Betaníu þar sem Lasarus var, sá er hann vakti frá dauðum. Þar var honum búinn kvöldverður og Marta gekk um beina en Lasarus var einn þeirra sem að borði sátu með honum. Þá tók María pund af ómenguðum, dýrum nardussmyrslum og smurði fætur Jesú og þerraði með hári sínu fætur hans. En húsið fylltist ilmi smyrslanna. Segir þá Júdas Ískaríot, einn lærisveina hans, sá er mundi svíkja hann: „Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjú hundruð denara
og gefin fátækum?“ Ekki sagði hann þetta af því að hann léti sér annt um fátæka heldur af því að hann var þjófur. Hann hafði pyngjuna og tók af því sem í hana var látið. Þá sagði Jesús: „Lát hana í friði. Hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns. Fátæka hafið þið ætíð hjá ykkur en mig hafið þið ekki ávallt.“
Nú frétti allur fjöldi Gyðinga af því að Jesús væri í Betaníu og þeir komu þangað, ekki aðeins hans vegna heldur og til að sjá Lasarus sem hann hafði vakið frá dauðum. Þá ákváðu æðstu prestarnir að taka einnig Lasarus af lífi því vegna hans sneru margir Gyðingar baki við þeim og fóru að trúa á Jesú.

Degi síðar frétti hinn mikli mannfjöldi, sem kominn var til hátíðarinnar, að Jesús væri að koma til Jerúsalem. Fólk tók þá pálmagreinar, fór út á móti honum og hrópaði:
„Hósanna!
Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins,
konungur Ísraels!“
Jesús fann ungan asna og settist á bak honum, eins og skrifað er:
Óttast ekki, dóttir Síon.
Konungur þinn kemur
og ríður ösnufola.
Lærisveinar hans skildu þetta ekki í fyrstu en þegar Jesús var dýrlegur orðinn minntust þeir þess að þetta var ritað um hann og að þeir höfðu gert þetta fyrir hann.