Heilagi himneski faðir, við viljum koma fram fyrir þig í Jesú nafni og leggja í þínar hendur öll þau sem þjást vegna Covid 19. Við biðjum þig að lækna þau sem eru veik, styðja og vernda þau sem eru í sóttkví og umfaðma þau sem hafa misst einhvern eða einhverja sér nákomin vegna þessa sjúkdóms. Drottinn, við leggjum í þínar hendur öll þau sem hafa áhyggjur og eru kvíðin. Þú þekkir aðstæðurnar og lausnina. Við biðjum þig um bata, sigur inn í kringumstæður. Megir þú mæta öllu þessu fólki og gefa bestu mögulegu útkomu í öllum aðstæðum. Við biðjum þig að leiða þau sem sinna almannavörnum, heilbrigðisstarfsfólk og annað fagfólk sem að þessum málum koma. Við biðjum þig einnig um lausn inn í mál þeirra sem hafa misst vinnuna, þau sem eru að fást við efnahagslegan skort og erfiðar fjárhagsaðstæður, við biðjum um þína blessun fyrir þau. Megir þú hugga börn sem búa við ótta og depurð og megir þú styrkja unglinga og ungmenni sem eiga erfitt núna. Við biðjum þig um tilgang og gleði þeim til handa. Við biðjum þig Drottinn vor að þú umfaðmir íslenskt samfélag og heiminn allan þar sem þessi vágestur hefur stungið sér niður. Við þökkum þér að þú ert hæli okkar og að allt samverkar til góðs þeim er Guð elska. Í Jesú heilaga nafni. Amen.

Innsent bænarefni.