HVAÐ ER FYRIRGEFNING?

Hún er mögnuð sagan um týnda soninn í Lúk 15.11-32.  Sagan um synina tvo og föðurinn þar sem yngri sonurinn fór fram á að fá fyrirframgreiddan arf, sólundaði honum í vitleysu, kom svo til sjálfs sín og fékk fyrirgefningu föður síns.

Fjallað var um þessa sögu í síðustu sunnudagshugvekju og langar mig að halda aðeins áfram með þessa sögu. Það eru margar og sterkar tilfinningar sem koma fram í þessari sögu. Kærleikur, öfund, reiði, áhyggjur og gleði. Þegar sagan er lesin þá skilur maður alla hlutaðeigandi nokkuð vel.

Það er eðlilegt að elskandi faðir ali þá von í brjósti að týndur sonur skili sér aftur heim, snúi við blaðinu, gangist við sjálfum sér. Það er eðlilegt að trúfastur og tryggur eldri sonurinn eigi erfitt með að skilja þá athygli og þann fögnuð sem ríkir þegar yngri bróðirinn kemur heim. Þessi sem hafði klúðrað öllu. En faðirinn róaði son sinn með því að yngri bróðirinn væri ekki að taka neitt frá honum, ekkert sem tilheyrði þeim eldri þegar þar að kæmi en fagnaði því að hann væri á lífi.

Sá yngri sá að sér, kom iðrandi til föðurins, hann kom ekki með hroka og yfirlæti eða tilætlunarsemi um að endurheimta fyrri stöðu sína. Það skipti máli. Hrokinn passar ekki með iðruninni. Tilætlunarsemi passar ekki með iðruninni. En auðmýktin og einlægnin eiga samleið með iðruninni. Að hafa rýnt í sjálfan sig, gengist við sér, leitað einlæglega leiða til að rétta kúrsinn ef svo má að orði komast.

Faðirinn í sögunni táknar gjarnan Guð og bræðurnir erum við mennirnir, breiskir og ólíkir. Faðirinn fyrirgaf syni sínum. Sagan kennir okkur um fyrirgefninguna.  En hvernig? Var eitthvað skilyrði fyrir fyrirgefningunni? Það var í raun iðrunin.  Það að líta í eigin barm og gangast við sér. Stundum álítur fólk að það að fyrirgefa sé það sama og að segja að eitthvað hafi verið allt í lagi, að eitthvað hafi ekki skipt neinu máli. Svona svipað og að ef einhver ræðst á mig og segir svo fyrirgefðu við mig á eftir, og ég vel að fyrirgefa honum að þá sé ég í raun að segja að þessi árás hafi ekki skipt neinu máli, hafi verið allt í lagi. En þannig er það auðvitað ekki.

Það verður aldrei í lagi að einn ráðist á annan, það mun auðvitað skipta máli. En það að fyrirgefa snýst um að taka afsökunarbeiðnina trúanlega og velja að láta ekki þessi mistök samferðamanns spilla fyrir framtíðinni. Fyrirgefningin hjálpar okkur til að halda áfram.

Á öldum áður ríkti hefndarskylda á Íslandi. Hugsið ykkur bölið. Ef einn vóg annan þá varð hans fólk að hefna með öðru vígi og svo koll af kolli. Slíkt tekur engan endi. En fyrirgefningin rýfur vítahring hefndarinnar og reiðinnar. Við getum auðvitað ekki misnotað fyrirgefninguna. Slíkt kemur okkur í koll og okkur verður ekki trúað. Það að fá fyrirgefningu gefur okkur nýtt tækifæri, nýja von.

Fyrirgefninguna má heldur ekki nota til að kúga fólk. Því miður gerist það allt of oft að þolendur ofbeldis eru krafðir um fyrirgefningu eins og slíkt sé eitthvað léttvægt, einskonar krafa um að sleppa taki á misgjörðamanni sínum. Það er krafa sem ekki er hægt að setja fram. Allt of oft lenda þolendur í því að misgjörðarmaður þeirra biðst aldrei fyrirgefningar, kannast ekkert við gjörðir sínar og lætur eins og ekkert hafi í skorist. Er þetta gjarnan sárast í ofbeldisbrotum. Getur þolandi fyrirgefið ofbeldisbrot án þess að fá beiðni um slíkt? Jú, ef viðkomandi velur það. Engan er hægt né á að þvinga til þess.

Þá er gott að hafa í huga að það að fyrirgefa er ekki að samþykkja brot eins og ég kom inná að ofan. Þetta myndi þá frekar snúast um að sleppa, stíga út úr reiðinni og sársaukanum eins og það er hægt til að fá rými til að halda áfram, fá rými til að vaxa og dafna. Við getum ekki breytt því sem búið er en við höfum mikið um framtíðina að segja. Fyrirgefningin er máttug sé rétt með hana farið.  Fyrirgefningin er gjöf og með Guðs hjálp geta undur oft á tíðum gerst. Guð blessi þig lesandi góður.

Sigurður Grétar Sigurðsson, sóknarprestur Útskálaprestakalli

Eftir andlát föður síns hugsuðu bræður Jósefs: „Vera má að Jósef beri illan hug til okkar og endurgjaldi okkur allt hið illa sem við höfum gert honum.“ Þess vegna sendu þeir Jósef eftirfarandi skilaboð: „Áður en faðir þinn dó bað hann okkur að segja við þig: Fyrirgefðu bræðrum þínum misgjörð þeirra og synd, það illa sem þeir gerðu þér. Þess vegna biðjum við þig að fyrirgefa þjónum þess Guðs, sem faðir þinn dýrkaði, þá synd sem við höfum drýgt.“ Við þessi orð þeirra brast Jósef í grát.
Þá komu bræður hans sjálfir og féllu fram fyrir honum og sögðu: „Við erum þrælar þínir.“ En Jósef sagði við þá: „Óttist ekki því að ekki kem ég í Guðs stað. Þið ætluðuð að gera mér illt en Guð sneri því til góðs. Hann vildi gera það sem nú er orðið og þannig varðveita líf margra manna. Verið því óhræddir, ég skal annast ykkur og börn ykkar.“ Síðan hughreysti hann þá og talaði vingjarnlega til þeirra.

Því hefur þú, maður, sem dæmir, enga afsökun hver sem þú ert. Um leið og þú dæmir annan dæmir þú sjálfan þig því að þú, sem dæmir, fremur hið sama. Við vitum að Guð dæmir þá með réttu sem slíkt fremja. Hyggur þú, maður, sem dæmir þá er þvílíkt fremja og gerir sjálfur hið sama, að þú munir umflýja dóm Guðs? Eða forsmáir þú hans miklu gæsku, þolinmæði hans og biðlund og lætur þér ekki skiljast að gæska Guðs vill leiða þig til afturhvarfs?

Snemma morguns kom hann aftur í helgidóminn og allt fólkið kom til hans en hann settist og tók að kenna því. Farísear og fræðimenn koma með konu, staðna að hórdómi, létu hana standa mitt á meðal þeirra og sögðu við Jesú: „Meistari, kona þessi var staðin að verki þar sem hún var að drýgja hór. Móse bauð okkur í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú?“ Þetta sögðu þeir til að reyna hann svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina.
Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann rétti hann sig upp og sagði við þá: „Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana.“ Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina. Þegar þeir heyrðu þetta fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir og konan stóð í sömu sporum.
Hann rétti sig upp og sagði við hana: „Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?“
En hún sagði: „Enginn, Drottinn.“
Jesús mælti: „Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar.“