Stundum biður fólk mig um að biðja um gott veður fyrir sig, ég geri það alltaf þegar ég er beðinn og stundum virkar það stundum ekki, rétt eins og með aðrar bænir við fáum það sem við eigum að fá en alls ekki alltaf þegar við viljum fá hlutina.

Ég bjó erlendis í nokkur misseri og þar lærði ég að meta sumar veður og ég verð að játa að ég sakna þess alltaf aðeins, sakna hlýja vorsins sumarsins sem var sumar eins og í draumum okkar íslendinga, eins og sumarið sem aldrei kemur. En við erum svo heppin að Guð hefur gefið okkur fleira en veður, við eigum ótrúlega fallega náttúru, falleg vötn og ár, falleg fjöll og jökla, fallegar hæðir og dali og öræfi sem eru engu öðru lík… Og svo erum við svo heppin að hann gaf okkur mikla birtu á sumrin og föt til að við getum klætt okkur í samræmi við veður á hverjum tíma fyrir sig. Íslensk náttúra er nefnilega ekki bara falleg heldur getur hún verið óblíð hvort sem er að sumri eða vetri og þá er betra að þekkja vel aðstæður og að hafa allan búnað í lagi.

Allt sem við höfum eru gjafir Guðs til okkar, lífið sjálft, hjartslátturinn okkar og andardrátturinn sem halda okkur á lífi, náttúran okkar og árstíðirnar, sumar vetur vor og haust. Það er ekki erfitt að vera þakklátur fyrir þessar fögru gjafir Guðs. Og við sem erum hér saman, leggjum áherslu á kærleiksboðskapinn, bróðurkærleikinn og leggjum okkur fram um að koma fram við náungann eins og við viljum að náunginn komi fram við okkur, vera auðmjúk, gestrisin og kærleiksrík við annað fólk, vera góðar manneskjur sem velja veginn sem Jesús beinir okkur á.

Það er gott að muna að það sem skiptir máli eru gjafirnar sem Guð gefur okkur, sumarið fallega og bjarta boðskapur Jesú Krists og koma fram við annað fólk eins og við viljum að það komi fram við okkur. En umfram allt þá munum orð Drottins sem sagðist hvorki mundu sleppa af okkur hendinni né yfirgefa okkur.

Sr. Fritz Már Jörgensson

Lofgjörðarlag dagsins er: Hljóður, flutt af Hrönn Svansdóttur. Faðir flóðin hörfa fyrir þér, þú ert minn Guð, hljóður ég er.. https://www.youtube.com/watch?v=WZXpiZnQx88

Sjá, þeir dagar koma, segir Drottinn Guð,
að ég sendi hungur til landsins,
hvorki hungur eftir brauði né þorsta eftir vatni,
heldur eftir orði Drottins.
Þá munu menn reika frá einu hafi til annars,
flakka frá norðri til austurs
og leita að orði Drottins
en þeir munu ekki finna það.

Þegar lærisveinarnir fóru yfir um vatnið höfðu þeir gleymt að taka með sér brauð. Jesús sagði við þá: „Gætið ykkar, varist súrdeig farísea og saddúkea.“ En lærisveinarnir ræddu sín á milli að þeir hefðu ekki tekið brauð. Jesús varð þess vís og sagði: „Hvað eruð þið að tala um það, trúlitlir menn, að þið hafið ekki brauð? Skynjið þið ekki enn? Minnist þið ekki brauðanna fimm handa fimm þúsundum og hve margar körfur þið tókuð saman? Eða brauðanna sjö handa fjórum þúsundum og hve margar körfur þið tókuð saman? Hvernig má það vera að þið skynjið ekki að ég var ekki að tala um brauð við ykkur? Varist súrdeig farísea og saddúkea.“ Þá skildu þeir að hann hafði ekki talað um að varast súrdeig í brauði heldur kenningu farísea og saddúkea.

Bróðurkærleikurinn haldist. Gleymið ekki gestrisninni því að vegna hennar hafa sumir hýst engla án þess að vita. Minnist bandingjanna sem væruð þið sambandingjar þeirra. Minnist þeirra er illt líða þar eð þið finnið til eins og þeir.
Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum og hjónasængin sé óflekkuð því að hórkarla og frillulífismenn mun Guð dæma.
Verið ekki fégráðug en látið ykkur nægja það sem þið hafið. Guð hefur sjálfur sagt: „Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“ 6 Því getum við örugg sagt:
Drottinn er minn hjálpari,
eigi mun ég óttast.
Hvað geta mennirnir gert mér?