Það er svo sannarlega hátíð í bæ.
Í upphafi aðventunnar skreytum við flest híbýli okkar og umhverfi með með jólaljósum. Þannig lýsum við upp skammdegið sem hefur ráðið ríkjum að undanförnu en er nú á undanhaldi. jólaljósin lýsa allsstaðar og sólin hefur hafið sigurför sína yfir myrkrinu hér á norðurhjara veraldarinnar. Myrkrið er mörgum þungbært þegar það leitar uppi hvert skúmaskot og þrengir sér í krók og kima, sumsstaðar á landinu sést ekki til sólar langtímum saman og því er það svo mikið fagnaðarefni þegar dag tekur að lengja á ný.

Eftir nokkra daga förum við flest og tökum jólaljósin niður. Kannski skiljum við eftir jólaljós á svölunum eða á trénu í garðinum til að vinna áfram á móti myrkrinu. Væri það ekki góð hugmynd að skilja jafnframt eftir jólaljós í hjörtum okkar og leyfa þannig fallega jólaandanum að lifa áfram með okkur næsta ár.

Í Guðspjalli dagsins sem við getum lesið hér fyrir neðan er okkur sögð saga jólanna eins og hún hljómar án jólaskrautsins eða kannski eftir að því hefur öllu hefur verið pakkað saman. Við heyrðum söguna af frelsaranum án englanna og fjárhirðanna, án vitringanna og fjárhússins. Við skiljum samt væntanlega flest það sem við heyrðum þegar guðspjallið var lesið, við skiljum líkingarnar á milli ljóss og myrkurs. Það fylgir því myrkur þegar við heyrum af týndum eða vanræktum börnum eða þegar við heyrum af lögregluútköllum vegna áfengis –og fíkniefnianeyslu á heimilum okkar nú á hátíð ljóssins. Það fylgir því gleði og birta að heyra fallegar sögur af matargjöfum og björgunarafrekum. Við heyrðum um myrkrið í veröldinni í guðspjallinu en við heyrðum líka af honum sem er líf og ljós til mannanna. Um hann sem frelsar okkur til lífsins. Um hann sem skín í myrkrinu alla tíð.

Ljósið sem lýsir um alla heimsbyggðina í dag er af öðrum toga en þau sem sem við notum á svölunum okkar eða í garðinum og það er gleðifrétt dagsins.

Og orðið varð hold, hann bjó með okkur fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans. Orðið sem grípur mig strax í þessu versi er orðið sannleikur. Umbúðalaus sannleikur gæti án nokkurs vafa leyst flest vandamál sem við stöndum frammi fyrir, en því miður reynist það okkur stundum erfitt að segja satt. Það hefur stundum verið sagt að andstæðurnar í lífinu séu það sem gefi því lit og það er einmitt það sem guðspjall dagsins minnir á, andstæðurnar og hvað það er mikilvægt að velja rétta leið, velja leiðina frá myrkrinu til ljóssins en ekki öfugt. Velja leiðina frá dauða til lífs en ekki öfugt.

Sem betur fer veljum við oft sannleikann, hefjum okkur yfir vafann. Ræktum okkur sjálf og gefum þannig vonina er yfirvinnur allt. Guð hefur alltaf leitast við að gefa okkur mannfólkinu ný tækifæri, hann hefur gefið okkur tækifæri til að byrja upp á nýtt. Við fengum nýtt tækifæri með barninu sem fæddist í Betlehem.

Ljós varð til, orð sem breyttist í hold. Lítið barn af fátæku foreldri sem átti fyrstu stundir lífs síns í stalli fjárhúss. Lítið barn sem varð strax ljós foreldra sinna og ljós heimsins sem fagnar fæðingu frelsarans enn og aftur á heilagri jólahátíð. Frelsarinn fæddist okkur og kenndi okkur hvað sannleikur er og hvernig hann virkar, frelsari sem stendur upp fyrir börnum og fátækum. Frelsari sem læknar þá er hvergi fá lækningu nema fyrir hans atbeina. Frelsari sem undir öllum kringumstæðum velur leiðina þeirra er ekkert hafa, ekkert eiga og enginn annar vill hafa með að gera. Það er fyrir hann sem við kristnir höldum Jól.

Ár hvert er talað um ólíkindi þess að kristur hafi fæðst á þessum degi og það má vel vera að slíkar vangaveltur eigi eitthvað fyrir sér. En í dag höldum við Kristnir upp á fæðingarhátíð hans engu að síður og það gerir daginn ekki síðri að neinu leiti. Það er eðlilegt að halda hátíð þess sem færir ljós í allar kringumstæður samhliða þeirra hátíð er haldin hefur verið frá upphafi vega til fagnaðar yfir sigri sólarinnar sem færir birtu, yl og lífsafkomu á sama hátt og Jesús Kristur, jólabarnið okkar kristinna færir okkur fyrirheit um eilíft líf.

Í dag tökum við á móti ljósinu sem Jesús Kristur færir í hjörtu okkar og líf. Við tökum á móti því í gegnum orð HANS sem berst til okkar á hverjum degi. Og með því að halda jólunum lifandi í hjörtum okkar þó svo að skrautinu öllu og jólaljósunum hafi verið pakkað niður til næsu jóla.

Í upphafi skal endinn skoða. Og það er einmitt það sem ég vill hvetja alla sem hér eru til að gera. Skoðum hvað það er sem við þurfum að gera til að eiga saman nýtt upphaf. Hvað er það sem við þurfum að gera til að vernda landið okkar, jörðina okkar, meðbræður okkar. Hvað þurfum við að gera til að tryggja okkur og afkomendum okkar gott og gleðiríkt líf. Svarið felst í ljósinu, sannleikanum. Berum fagnaðarerindið áfram með því að lifa jólaboðskap ljóssins sem skín í myrkrinu og sigrar myrkrið. Opnum hjörtu okkar fyrir ljósinu sem fæddist í Betlehem, Jesú frá Nasareth.

Dýrð sé föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.

Amen.

Við óskum ykkur öllum gleðilegra jóla.

Díana Ósk og Fritz Már

Sú þjóð, sem í myrkri gengur,
sér mikið ljós.
Yfir þá sem búa í landi náttmyrkranna
skín ljós.
Þú eykur stórum fögnuðinn,
gerir gleðina mikla.
Menn gleðjast fyrir augliti þínu
eins og þegar uppskeru er fagnað,
eins og menn fagna þegar herfangi er skipt.
Því að ok þeirra,
klafann á herðum þeirra,
barefli þess sem kúgar þá
hefur þú brotið í sundur eins og á degi Midíans.
Öll harkmikil hermannastígvél
og allar blóðstokknar skikkjur
skulu brenndar
og verða eldsmatur.
Því að barn er oss fætt,
sonur er oss gefinn.
Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla,
hann skal nefndur:
Undraráðgjafi, Guðhetja,
Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.
Mikill skal höfðingjadómurinn verða
og friðurinn engan enda taka
á hásæti Davíðs
og í ríki hans.
Hann mun reisa það og efla með réttvísi og réttlæti,
héðan í frá og að eilífu.
Vandlæting Drottins allsherjar
mun þessu til vegar koma.

Því að náð Guðs hefur opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum. Hún kennir okkur að afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum, í eftirvæntingu okkar sælu vonar, að hinn mikli Guð og frelsari vor Jesús Kristur opinberist í dýrð sinni. Hann gaf sjálfan sig fyrir okkur til þess að hann leysti okkur frá öllu ranglæti og hreinsaði sjálfum sér til handa eignarlýð, kostgæfinn til góðra verka

Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því.
Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes. Hann kom til vitnisburðar, að vitna um ljósið og vekja alla til trúar á það. Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið.
Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum. En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Þau urðu ekki til á náttúrulegan hátt né af vilja manns heldur eru þau af Guði fædd.
Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.