Skín á himni skír og fagur, hinn skæri hvítasunnudagur. Þannig eru upphafsorð hvítasunnusálms Valdimars Briem og er víða sunginn í kirkjum þessa Drottins dags. Þessi boðskapur á vel við, jafnvel þó þungbúið sé yfir víða um land, vegna þess að sá boðskapur sem hátíðin minnir á er bjartur, skír, fagur og máttugur.

Á hvítasunnu rifjum við upp þá atburði þegar andinn kom yfir lærisveina Jesú – sem voru hræddir og enn í sorg eftir að vinur þeirra hafði verið krossfestur. En fyrir mátt hins heilaga anda risu þeir upp, stigu fram sem hreyfing sem ber með gleði og krafti vitni um leiðtogann sem er enn lifandi afl í heiminum. Hvernig gat þetta gerst, og hvernig stendur á því að þessi hreyfing er enn að verki um víða veröld og boðar enn þennan sama meistara og Drottinn?

Þegar Jesús gekk um á jörðu, gat hann ekki alls staðar verið. Þá gat hann heldur ekki náð hugum, hjörtum og samvisku fólks hvar sem það gekk um. Honum voru nefnilega settar takmarkanir af tíma og rúmi. En andanum eru engar takmarkanir settar. Hvar sem við erum og hvert sem við förum er andinn helgi nálægur. Koma andans var uppfylling fyrirheitsins mikla sem við þekkjum svo vel og er lesið í hvert sinn þegar barn er borið til skírnar þar sem frelsarinn segir: Ég er með þér, alla daga, allt til enda veraldar (Mt. 28.20). Þetta er stóra loforðið. Jesús leit svo á að heilagur andi sé andi sannleikans og að verkefni hans sé að færa mönnum sannleika Guðs. Jesús er ekki aðeins persóna sem tilheyrir fortíðinni, nei, hann er lifandi persóna í dag og í honum heldur opinberun Guðs áfram er hann starfar í heiminum. Guð er enn að leiða okkur í allan sannleikann um Jesú og það sem hann segir. Það getur stundum verið erfitt að koma orðum að því þegar útskýra á guðdóminn. Það er ekki hægt nema að litlu leyti. En reynsla kynslóðanna sem hafa leyft góðum Guði að leiða sig áfram í lífi og starfi segja meira en mörg orð í þeim efnum. Já reynslusögurnar eru margar og milljarðar manna um gjörvallan heim hafa fengið að njóta þess að fela Drottni vegu sína og treyst honum og fundið það á eigin skinni að hann muni alltaf vel fyrir sjá.

Ein slík reynslusaga segir af manni sem hafði verið mikill drykkjumaður sem með Guðs hjálp hafði snúið við blaðinu, lét af drykkjuskapnum og fór að rækta sína kristna trú. Nokkrum mánuðum síðar hitti hann gamlan félaga sem var ákafur andstöðumaður kristninnar. Jæja, þér hafið tekið sinnaskiptum, sagði félaginn. Þá trúið þér líklega á kraftaverk, sagði hann í hæðnistón. Jú, sagði maðurinn, ég trúi sannarlega á kraftaverk.

Jahá, þér getið þá væntanlega útskýrt fyrir mér hvernig Jesús gat breytt vatni í vín eins og Biblían segir frá sagði félaginn að bragði.

Nei, það get ég ekki útskýrt svaraði hann. En komið endilega með mér heim og þá skal ég sýna yður annað kraftaverk sem Jesús hefur gert þar. Hann hefur breytt öli og brennivíni í húsgögn, góð föt og hamingjusama fjölskyldu.

Staðreyndin er nefnilega sú að Jesús vinnur daglega miklu meiri kraftaverk á meðal okkar en við getum nokkurn tímann gert okkur í hugarlund. Hann reis upp frá dauðum fyrir kraft Guðs. Þess vegna er Drottinn alltaf nærri. Hann er með hvern dag, hvort sem það er bjart yfir og lífið leikur við sem og á þeim stundum þegar á móti blæs og dimmir dalirnir blasa við, þar leiðir hann og styður hvert barn. Það er fyrir verk hins heilaga anda.

 

Þess vegna höldum við hátíð heilags handa og þökkum fyrir að hinn lifandi Drottin er enn að starfi og sleppir aldrei hendi sinni af börnum sínum. Þess vegna skín á himni, skír og fagur, hinn skæri hvítasunnudagur – alveg óháð vindi og veðráttu!

Síðar mun ég úthella anda mínum yfir alla menn.
Synir yðar og dætur munu spá,
gamalmenni yðar mun dreyma drauma
og ungmenni yðar munu fá vitranir,
jafnvel yfir þræla og ambáttir
mun ég úthella anda mínum á þeim dögum.
Og tákn mun ég láta verða á himni og jörð:
blóð, eld og reykjarstróka.
Sólin verður myrk
og tunglið sem blóð
áður en dagur Drottins kemur, hinn mikli og ógurlegi.
En hver sem ákallar nafn Drottins
verður hólpinn.
Á Síonarfjalli og í Jerúsalem
munu nokkrir lifa af
eins og Drottinn hefur heitið.
Hver sem ákallar nafn Drottins
mun frelsast.

Þá er upp var runninn hvítasunnudagur voru allir saman komnir á einum stað. Varð þá skyndilega gnýr af himni, eins og óveður væri að skella á, og fyllti allt húsið þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvert og eitt þeirra. Allir fylltust heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.

(Í Jerúsalem dvöldust Gyðingar, guðræknir menn, frá öllum löndum undir himninum. Er þetta hljóð heyrðist kom allur hópurinn saman. Þeim brá mjög við því að hver og einn heyrði þá mæla á sína tungu. Menn voru frá sér af undrun og sögðu: „Eru þetta ekki allt Galíleumenn sem hér eru að tala? Hvernig má það vera að við, hvert og eitt, heyrum þá tala okkar eigið móðurmál? Við erum Partar, Medar og Elamítar, við erum frá Mesópótamíu, Júdeu, Kappadókíu, Pontus og Asíu, frá Frýgíu og Pamfýlíu, Egyptalandi og Líbýubyggðum við Kýrene og við sem hingað erum flutt frá Róm. Hér eru bæði Gyðingar og þeir sem tekið hafa trú Gyðinga, Kríteyingar og Arabar. Við heyrum þá tala á tungum okkar um stórmerki Guðs.“)

Jesús svaraði: „Sá sem elskar mig varðveitir mitt orð og faðir minn mun elska hann. Til hans munum við koma og gera okkur bústað hjá honum. Sá sem elskar mig ekki varðveitir ekki mín orð. Orðið, sem þér heyrið, er ekki mitt heldur föðurins sem sendi mig.
Þetta hef ég talað til yðar meðan ég var hjá yður. En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni mun kenna yður allt og minna yður á allt það sem ég hef sagt yður. Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist. Þér heyrðuð að ég sagði við yður: Ég fer burt og kem til yðar. Ef þér elskuðuð mig yrðuð þér glöð af því að ég fer til föðurins því faðirinn er mér meiri. Nú hef ég sagt yður það áður en það verður svo að þér trúið þegar það gerist. Ég mun ekki framar tala margt við yður því höfðingi heimsins kemur. Í mér á hann ekkert. En heimurinn á að sjá að ég elska föðurinn og geri eins og faðirinn hefur boðið mér.