Gleðileg jól, frelsarinn fæðist innan tíðar, ljósið sem sigrar myrkrið. Í dag, aðfangadag opnum við pakka, setjumst við matarborð allsnægtana og njótum þess að snæða uppáhaldsmatinn okkar, eldaðan af kærleika og umhyggju með það að markmiði að allir geti notið þess besta. Góður matur er dásamlegur og oft er mikil spenna yfir því hvaða leynist í pökkunum eða hvernig viðbrögðin verða við pökkum sem við höfum lagt okkur fram um að velja handa þeim sem við elskum. Vissulega er það svo að pakkar eru mismunandi og við erum misánægð með það sem við fáum og það er ekkert víst að allir fái nákvæmlega uppáhaldsmatinn sinn á jólunum.

Oft skiptir annað meira máli í lífinu en góður matur og pakkar. Fólkið okkar sem vissulega tengist bæði gjöfum og mat er það dýrmætasta sem við eigum, maki okkar, börn, fjölskyldan, vinir, er nokkuð sem við myndum líklega öll taka fram yfir gjafir eða mat og þegar á bjátar í lífinu er oft mesta eftirsjáin fólgin í því að hafa ekki verið nægjanlega mikið með ástvinum sínum.

Það er yndislegt að heyra fallegar jólasögur eða horfa á fallegar jólabíómyndir, sögur með fallegan endi, sögur með góðan boðskap og ekki skemmir fyrir ef örlítill kökkur myndast í hálsinum af og til, meðan á ævintýrinu stendur. Aðventa og jól eru sem betur fer yndisleg fyrir flesta en alls ekki alla og það er mikilvægt að muna eftir því að það eru ekki allir sem hafa það gott um jólin. Flest leitumst við eftir því að vera góð við hvert annað, kærleiksrík og gefa af okkur á aðventunni og í jólatíðinni og það er gott. Það væri enn betra ef allir gætu viðhaldið aðventutilfinningunni allt næsta ár og munað eftir minnstu systkinum okkar allt árið.

Gleði jólanna, hughrif þeirra og tilfinningar eru vissulega mikil en jólaguðspjallið færir okkur svo margt meira, sumir upplifa sorg tengda jólum enda verður þá söknuðurinn eftir þeim sem eru farnir meiri en oft áður. Aðrir finna fyrir kvíða og einsemd, enn aðrir upplifa jólin sem vonarhátíð og fagna fæðingu frelsarans enda sigrar þá ljósið myrkrið. Rétt eins og hefur gerst núna í kjölfar vetrarsólstaðna þegar sólin hækkar á lofti og yfirvinnur að lokum skammdegið. Jesúbarnið sem fæðist um jólin gefur okkur gleði og sorg en umfram allt vonina sem getur yfirunnið allar aðrar tilfinningar.

Stundum hef ég upplifað það að vera ekki alveg viss um hvort ég sé að taka þátt í markaðshátíð eða hátíð vegna fæðingar frelsara míns. Ég þarf á stundum virkilega að leggja mig fram um að greina hismið frá kjarnanum, skilja umbúðirnar eftir og minna mig á innihaldið. Þegar við erum búin að fjarlægja umbúðirnar og skoðum hvað fagnaðarboðskapur jólanna innifelur, kemur í ljós hversu stórkostleg þessi gjöf til okkar er. Við vitum að ljósið, lífið okkar og tilvera er ekki tilviljun heldur gjöf frá Guði til okkar, gjöf sem er umlukin kærleika.

Hvílík gjöf það er að fá að upplifa kærleika Guðs í lífinu, og að fá að upplifa að hann er með okkur í öllu smáu sem stóru. Fyrir mig er það stærsta gjöfin að vita að ég er óhultur og að fyrir mér er séð í endalausum kærleika og bænheyrslu. Jesús Kristur frelsari minn sem fæðist núna um þessar mundir, hann sem seinna sagðist vera uppfylling lögmálsins og spádómanna, hann sem kenndi okkur kærleiksboðskapinn. Hann sem er ljós heimsins. Ljósið sem alltaf sigrar myrkrið og minnir okkur á það hver við erum, hvaðan við komum og hvert við munum fara að lokum.

Gjöfin stórkostlega sem allir geta fengið að njóta, vonarboðskapurinn, friðarboðskapurinn og fyrirheit um eilíft líf. Þetta er gjöf sem við getum þegið frá honum sem læknar og líknar, frá honum sem getur vakið sátt, frið, von og kærleik.

Það er tiltölulega létt að finna jólaguðspjallinu stað í samtímanum. Við sem heyrum daglegar fréttir af ósætti og ófriði þráum fátt heitar en frelsi og frið. Veröld þar sem við mannfólkið erum jöfn, þar sem ofbeldi og yfirgangur líðst ekki, veröld réttlætis og sátta. Barnið sem fæddist í Betlehem á jólanótt er friðarhöfðinginn. Hann lýsir upp myrkrið, læknar og líknar og leysir fjötra, ótta, kvíða og fordóma en umfram allt gefur hann okkur fyrirgefningu og kennir okkur hvernig við eigum að koma fram við hvert annað. Hann sem er Friðarhöfðinginn. Frelsarinn, Kristur Drottinn, hann sem spámennirnir sögðu að myndi koma og englarnir sungu um og hirðarnir lutu, hann sem er með okkur hér og nú, hann sem mun alltaf sigra myrkrið að lokum.

Guð blessi þig og gefi gleðileg jól.

Sr. Fritz Már Jörgensson

Hversu yndislegir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans
sem friðinn kunngjörir,
gleðitíðindin flytur,
hjálpræðið boðar og segir við Síon:
„Guð þinn er sestur að völdum.“
Heyr, varðmenn þínir hefja upp raustina,
hrópa fagnaðaróp allir í einu
því að með eigin augum
sjá þeir Drottin hverfa aftur til Síonar.
Hefjið upp fagnaðarsöng allar í einu,
rústir Jerúsalem,
því að Drottinn hefur huggað þjóð sína,
endurleyst Jerúsalem.
Drottinn hefur afhjúpað heilagan armlegg sinn
í augsýn allra þjóða
og allt til endimarka jarðar
munu menn sjá hjálpræði Guðs vors.

Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.

Þessi er vitnisburður Jóhannesar þegar ráðamenn í Jerúsalem sendu til hans presta og Levíta til að spyrja hann: „Hver ert þú?“
Hann svaraði ótvírætt og játaði: „Ekki er ég Kristur.“
Þeir spurðu hann: „Hvað þá? Ertu Elía?“
Hann svarar: „Ekki er ég hann.“
„Ertu spámaðurinn?“
Hann kvað nei við.
Þá sögðu þeir við hann: „Hver ert þú? Við verðum að svara þeim er sendu okkur. Hvað segir þú um sjálfan þig?“
Hann sagði: „Ég er sá sem Jesaja spámaður talar um. Ég er rödd hrópanda í eyðimörk er segir: Gerið beinan veg Drottins.“
Sendir voru menn af flokki farísea. Þeir spurðu hann: „Hvers vegna skírir þú, fyrst þú ert hvorki Kristur, Elía né spámaðurinn?“
Jóhannes svaraði: „Ég skíri með vatni. Mitt á meðal ykkar stendur sá sem þið þekkið ekki, hann sem kemur eftir mig og skóþveng hans er ég ekki verður að leysa.“
Þetta bar við í Betaníu, handan Jórdanar, þar sem Jóhannes var að skíra.