Sorg og söknuður var í huga kvennanna sem gengu út úr borginni. Það var einnig myrkur í sál þeirra þegar þær lögðu af stað og umræðuefni þeirra á leiðinni virðist hafa verið steinninn þungi. Hann hvíldi á þeim eins og mara enda er Golgata ennþá í hugum þeirra. Þær bjuggust ekki við neinu óvenjulegu. Í þeirra huga hafði eyðileggingin og dauðinn sigrað. Páskarnir hefjast í myrkri við gröf dauðans. En brátt rís sólinn og birtan fær að flæða um landið. Páskar fjalla um átök ljóss og myrkurs, lífsins og dauðans. Konurnar eru annars hugar og eru að hugsa um vorið og öllu sem fylgir því, lífinu sem senn rís úr dvala. En samt eru þær kvíðnar og þær huga að steininum. : “Hver mun velta fyrir oss steininum frá grafarmunnanum?” Þannig ritar Markús en í guðspjallinu sem kennt er við hann og er elsta páskafrásögn guðspjallanna.

Steinninn vísar til hinna þungu tilvistarspurninga sem vakna með konunum. Hann er táknmynd fyrir fargið sem hvílir á þeirra eigin hjarta: hvað verður nú eftir að meistari þeirra er látinn? Hvað verður um þær og um málstaðinn sem olli svo miklu uppnámi og gaf svo mörgum nýja von?

Svipaða merkingu steinsins, sem tákns, þekktu Grikkir til forna. Sísifosi konungi í Korintuborg var refsað fyrir að leika á dauðann. Á hann var lagt að velta þungum steini upp fjallshlíð, en steinninn valt jafnharðan niður aftur þegar hann nálgaðist brúnina og þannig án afláts í það óendanlega. Steinninn er ímynd hins þunga oks forgengileika og dauða sem manneskjan ber frá vöggu til grafar. En í frásögn guðspjallanna er steinninn orðinn partur af nýju fagnaðarerindi fyrir þennan heim. Þetta stóra þunga ok, sem þær gátu ekki velt frá grafarmunnanum, var farið. Þær ganga inn. Hann var farinn.

Í huga kvennanna birti. Vonin, sem hafði myrkvast, varð aftur vakin á ný. Þær fóru og sögðu litla hópnum í Jerúsalem frá, en hann hafði falið sig bak við luktar dyr af ótta við ofsóknir og fordæmingu. Að fá að heyra það að Jesú væri lifandi gaf þeim öllum hvatningu og ofurkraft til nýrra verka. Jörðin og allt sem á henni lifir var þrátt fyrir allt ekki ofurselt myrkri og dauða, heldur birtu og lífi. Fyrir hópinn allan voru páskarnir hvatning til nýrra verka og meira en það, jú, að leggja allan dugnað sinn og orku fyrir þann dýrmæta málstað sem páskarnir snúast um. Fyrir vikið varð til hugrakkt samfélag sem lét ekkert stöðva sig. Það hafði blásið á móti, en eftir að steininnum hafði verið velt frá grafarmunnanum, okið farið, hélt af stað hópur sem var brennandi í andanum. Það sýnir sagan. Þetta skapandi og gefandi samfélag, þeirra sem trúa á Jesú Krist og upprisu hans, var, er og á alltaf að vera vettvangur hinna hugrökku sem láta ekki bugast þótt á móti blási, heldur halda áfram fram veginn. Skjól þeirra sem ryðja brautir fram til betra lífs fyrir alla sköpun Guðs. Allt lífið. Athvarf dyggðugra einstaklinga og hópa sem hafa réttlæti og jöfnuð að leiðarljósi. Vígi róttækra manna og kvenna sem feta óttalaust í fótspor hópsins sem í upphafi flutti boðskapinn um upprisu Jesú Krists.

Sá sem tekur á móti páskunum og upprisunni í trú finnur kraft til að halda út í óvissuna og leggur nýja slóða sem liggja allir að lífgefandi uppsprettu. Séu þeir ekki lagðir, er aðeins dauði. Boðskapur páskanna á þessum óvissu tímum er eins og alltaf, að halda áfram að lifa í gleði, þrátt fyrir að á móti blási.Vera minnug þess að þegar birta tekur á ný, verður sá sem trúir á upprisuna, að standa með réttlæti og jöfnuð fyrir alla, menn, konur og börn. Standa með gjörvallri sköpun Guðs.

Páskarnir eru boðskapur um nýja gleði sem nær dýpst inn í huga manneskjunnar og hvetur hana til allra góðra verka. Leiðavísir á mannúð og mennsku sem Jesú grundvallaði með eigin lífi og eftirdæmi sem byggir á umhyggju, miskunnsemi, fyrirgefningu og sáttfýsi.

Guð gefi ykkur öllum góðar stundir. Kristur er upprisinn.

Séra Baldur Rafn Sigurðsson.

Drottinn er styrkur minn og lofsöngur,
hann varð mér til hjálpræðis.
Fagnaðar- og siguróp kveða við í tjöldum réttlátra:
„Hægri hönd Drottins vinnur máttarverk,
hægri hönd Drottins er upphafin,
hægri hönd Drottins vinnur stórvirki.“
Ég mun eigi deyja heldur lifa
og kunngjöra dáðir Drottins.
Drottinn hefur hirt mig harðlega
en eigi ofurselt mig dauðanum.
Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins
að ég megi ganga inn um þau og lofa Drottin.
Þetta er hlið Drottins,
réttlátir ganga þar inn.
Ég þakka þér að þú bænheyrðir mig
og komst mér til hjálpar.
Steinninn, sem smiðirnir höfnuðu,
er orðinn að hyrningarsteini.
Að tilhlutan Drottins er þetta orðið,
það er dásamlegt í augum vorum.
Þetta er dagurinn sem Drottinn gerði,
fögnum og verum glaðir á honum.

Hreinsið burt gamla súrdeigið til þess að þið séuð nýtt deig enda eruð þið ósýrð brauð. Því að páskalambi okkar er slátrað sem er Kristur. Höldum því hátíð, ekki með gömlu súrdeigi eða súrdeigi illsku og vonsku heldur með ósýrðum brauðum hreinleikans og sannleikans.

Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust.
En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“