Hugleiðing út frá Mark 16.1-7

Náð sé með yður og friður frá Guði vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Það er góður dagur í dag. Sólin hefur skinið meira undanfarið en í langan tíma, vetur undirbýr sig að kveðja og allt í kringum okkur má sjá ummerki þess að lífið fari að kvikna að nýju. Nú er sigurhátíð – stærsta hátíð okkar sem erum kristin. Við fögnum lífinu. Föstudagurinn langi, dánarstund Jesú er liðin, sem sé hann er búinn að sigra dauðann –  Jesús er upprisinn.

Þegar konurnar mættu á hvíldardegi í morgunsárið, hinn fyrsta páskadag, tilbúnar að smyrja Jesú með smyrslum, þjóna honum og tilbiðja, þá var búið að velta steininum frá gröfinni og Jesús var ekki þar. Engillinn sem sat við opið sagði þeim að orð Jesú myndu standa, að þær myndu hitta Krist í Galíleu eins og hann hafði sagt. Fyrst þegar þær sáu tómu gröfina urðu þær hissa, og þeim brá þegar þær sáu engilinn. Þetta kom þeim á óvart, þetta voru ófyrirséðar aðstæður. Þær mættu með ákveðna áætlun í huga, þær ætluðu að sinna eigin sorg með því að hlúa að honum sem þær töldu sig hafa misst. Við getum öll sett okkur í þau spor, að vilja sýna látnum fjölskyldumeðlim virðingu og flest þekkjum við sorgina sem slíkur missir hefur í för með sér.

Fyrstu viðbrögð þeirra hljóta að hafa verið sterk, þær hafa að öllum líkindum óttast um afdrif líkama Jesú, og líklegast hafa þær reiðst yfir því að hann hafi verið fjarlægður og það má gefa sér að þær hafi viljað svör.

Áður en þær komu að gröfinni höfðu þær áhyggjur af því hver myndi færa fyrir þær steininn en þær áhyggjur hurfu þegar þær komu nær, þessum þunga stein hafði verið velt frá. Því hefur fylgt léttir. Þegar engillinn sagði þeim að Kristur færi á undan þeim til Galílegu hljóta þær að hafa upplifað annan létti, það var ekki búið að taka líkama hans eða fjarlægja, heldur var hann sjálfur farinn. Þungu fargi var af þeim létt. Ímynda ég mér.

Ég sé fyrir mér að það hafi tekið þær góða stund að meðtaka skilaboðin og átta sig á þessum mikla sigri – fréttunum um hið eilífa líf.

Það má heimfæra þessa mögnuðu sögu upp á líf fólks í samtímanum en flestar manneskjur eru að fást við sínar andlegu og tilfinningalegu hliðar, hvort sem um er að ræða sorg, gleði, það að tapa trúnni eða að efast um trúnna. Við heyrum og lesum mikið um kvíða og þunglyndi, sjálfskaðandi hegðun og einangrun en einnig um sigursögurnar þegar fólk finnur lausn, þegar það upplifir frelsið sem fylgir því að létta á sér og leyfa öðrum að bera með sér þungann. Það má sjá upprisusögur víða, til dæmis þegar alkóhólistar láta af sér renna, þegar fíklar verða upplitsdjarfir og flottir samfélagsþegnar og þegar heilu fjölskyldurnar losna undan okinu sem veikindunum fylgja. Allt ertu þetta sigursögur. Upprisusögur.
Það er ég viss um að fólkið sem hefur lifað svona sögur þekkir örvæntinguna, óttann og reiðina sem þær stöllur upplifðu þegar þær komu að tómri gröfinni, af því þessar tilfinningar gera sannarlega vart við sig þegar einstaklingur hefur gert ákveðin plön sem standast ekki eða þegar manneskja í sorg mætir erfiðum, ófyrirséðum aðstæðum en þá geta fyrstu viðbrögð verið mjög sterk. Það getur tekið tíma að taka við og melta það góða og jákvæða sem aðstæðurnar hafa í för með sér, sérstaklega þegar við höfum mótað með okkur skýra afstöðu eða sterka skoðun.

Þá er gott að muna að Kristur fer á undan okkur, hann situr við hægri hönd Guðs, föðurs og biður fyrir okkur. Búinn að sigra – búinn að gefa stóru gjöfina. Gjöfina sem við getum meðtekið og glaðst yfir. Það að Jesús Kristur sigraði dauðann, Jesús lifir – er fagnaðarboðskapur kristninnar, hjálpræðið í Jesú Kristi.

Á meðan við njótum páskanna, gæðum okkur á lífsins gæðum eins og páskalambi eða páskaeggi og lítum í átt til sólar og sjáum hvernig lífið kviknar að nýju eftir vetrardrungann getum við varpað áhyggjum okkar á Drottinn og beðið hann um að gefa okkur styrk og nýjan kraft til að trúa – til að sigra efann og til þess að njóta hverrar stundar.

Sr. Díana Ósk Óskarsdóttir

Drottinn er styrkur minn og lofsöngur,
hann varð mér til hjálpræðis.
Fagnaðar- og siguróp kveða við í tjöldum réttlátra:
„Hægri hönd Drottins vinnur máttarverk,
hægri hönd Drottins er upphafin,
hægri hönd Drottins vinnur stórvirki.“
Ég mun eigi deyja heldur lifa
og kunngjöra dáðir Drottins.
Drottinn hefur hirt mig harðlega
en eigi ofurselt mig dauðanum.
Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins
að ég megi ganga inn um þau og lofa Drottin.
Þetta er hlið Drottins,
réttlátir ganga þar inn.
Ég þakka þér að þú bænheyrðir mig
og komst mér til hjálpar.
Steinninn, sem smiðirnir höfnuðu,
er orðinn að hyrningarsteini.
Að tilhlutan Drottins er þetta orðið,
það er dásamlegt í augum vorum.
Þetta er dagurinn sem Drottinn gerði,
fögnum og verum glaðir á honum.

Hreinsið burt gamla súrdeigið til þess að þið séuð nýtt deig enda eruð þið ósýrð brauð. Því að páskalambi okkar er slátrað sem er Kristur. Höldum því hátíð, ekki með gömlu súrdeigi eða súrdeigi illsku og vonsku heldur með ósýrðum brauðum hreinleikans og sannleikans.

Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust.
En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“