Þakklæti er ofarlega í huga á þessum síðustu dögum ársins. Þakklæti fyrir allar gjafirnar sem Guð gefur. Margir lifa sannarlega á allsnægtartímum hér á norðurhjara veraldar, matarborð svigna undan kræsingum, og jólagjafir eru ekki af verri endanum. Flest getum við verið sammála um að við búum við frið og öryggi, gott heilbrigðiskerfi og þokkalega félagslega þjónustu.

Á sama tíma heyrum við fólk kvarta yfir ólíklegustu hlutum, það er stundum eins og nóg verði aldrei nóg. Auðvitað er gott að benda á það sem betur má fara og vinna að því. Ábending og kvörtun er ekki það sama, það er ekki oft sem kvörtunarraddir heyrast frá þeim sem minnst hafa, þvert á móti upplifum við svo oft þakklæti frá þeim fyrir það sem þau hafa, þau sjá oftar gleðina í því sem aðrir telja sjálfsagt.

Þegar árið sem nú er senn á enda er rifjað upp er ekki hægt að segja annað en þetta sé ár hagsældar á Íslandi. Þjóðin einfaldlega hefur grætt á tá og fingri og mörg okkar sem búum hér í landi sem telst til ríkustu samfélaga jarðarinnar höfum ekki yfir neinu að kvarta en margt að þakka fyrir. Það eru hins vegar þjóðfélagshópar hér sem raunverulega gætu kvartað en gera ekki mikið af því. Þrátt fyrir hagsæld er það svo að það eru ekki allir sem hafa það gott, margir þurfa að leita á náðir kirkjunnar og hjálparstofnana til þess einfaldlega að lifa af frá mánuði til mánaðar. Þetta er raunveruleiki sem er fjarri mörgum og sumum finnst einfaldlega óþægilegt að hugsa til. Fólk er á götunni og á ekki fyrir mat. Aldraðir, öryrkjar og láglaunafólk eiga í miklum vandræðum með að komast af og unga fólkið sem hefur ekki sterkan efnalegan bakhjarl berst við himinháa húsaleigu.

Það ætti að vera samfélagsleg ábyrgð okkar sem kristinnar þjóðar að sjá til þess að allir sem hér búa í þessu ríka landi hefðu þak yfir höfuðið og ættu til hnífs og skeiðar. Þannig myndum við mæta ákveðnum þörfum fólksins okkar.

En hvað með kvörtunartóninn? Þegar við rýnum í óhamingju fólks, horfum við þá á ytri aðstæður eða innra líf einstaklinganna? Getur það verið að fólk sem lifði hér á árum áður, áður en hitaveitan varð hluti af okkar veruleika, fólk sem bjó við mun verri húsbúnað, minna rými, útikamar, fólk sem þekkti ekki tölvur, snjallsíma, netið eða video, fólk sem fékk epli einungis á jólunum, getur verið að þetta fólk hafi allt verið óhamingjusamt? Nei, það hvorki var né er þannig. Fólk sem á lítið og fólk sem býr við skort getur vel verið hamingjusamt.
Hvað er það sem ýtir undir gleði, sátt og hamingju hjá fólki?

Í Biblíunni er mikil áhersla lögð á þakklæti. Þakkið alla hluti, þakkið Guði. Getur það verið að einn lykillinn af hamingjunni sé þakklæti?

Að við lítum í kringum okkur og leitum að því sem við getum þakkað fyrir. Það á aldeilis vel við að líta yfir farin vel á tímamótum, að líta á líf okkar og tilveru og rýna í það sem við höfum. Hver er staðan á mér í dag? Hvað get ég þakkað fyrir og hverju vil ég breyta?

Eitt af því sem við getum þakkað er skilyrðislaus kærleikur, elska Guðs, það að geta leitað hans og treyst því að hann muni vel fyrir sjá.

Það getur verið erfitt að treysta Guði í þrengingum en í pistli dagsins er okkur bent á að gera það, treysta Guði og kærleika hans sem er alltaf með okkur.

„Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð? … Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.“

Með þetta í huga og hjarta kveðjum við gamla árið og tökum fagnandi á móti því nýja. Við þökkum ykkur kæru vinir og gestir netkirkju fyrir samfylgdina á liðnu ári og vonum að þið eigið öll gleðilegt nýtt ár.

Díana Ósk, sjúkrahúsprestur og Sr. Fritz Már.

Drottinn, þú hefur verið oss athvarf
frá kyni til kyns.
Áður en fjöllin fæddust
og jörðin og heimurinn urðu til,
frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.

Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur? Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni heldur framseldi hann fyrir okkur öll, hvort mundi hann ekki líka gefa okkur allt með honum? Hver skyldi ásaka Guðs útvöldu? Það er Guð sem sýknar. Hver sakfellir? Kristur Jesús er sá sem dáinn er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir okkur. Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð? Það er eins og ritað er:
Þín vegna er okkur dauði búinn allan daginn
og við metin sem sláturfé.
Nei, í öllu þessu vinnum við fyllsta sigur í krafti hans sem elskaði okkur. Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.

Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni fóru margir að trúa á hann því þeir sáu þau tákn sem hann gerði. En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn því hann þekkti alla. Hann þurfti þess ekki að neinn bæri öðrum manni vitni. Hann vissi sjálfur hvað í manni býr.