Mörg okkar nota gamlársdag til að fara yfir það sem liðið er og velta því fyrir sér hvað hefur farið vel og hvað hefur farið illa á árinu sem er að líða. Þannig verður dagurinn að mörgu leyti dagur sjálfsskoðunar. Sum velta því fyrir sér hvernig manneskjur við erum, hvernig við höfum komið fram við annað fólk og hvað mætti betur fara, aðrir skoða efnahagslegan ávinning ársins eða aðra slíka þætti. Hvað svo sem það nú er sem við höfum sett á markmiðalista ársins sem er að líða er ljóst rétt eins og Jesús sagði okkur í textanum sem við heyrðum í dag að ef við ætlum að uppskera þá þurfum við að hlú að því sem við setjum niður, við þurfum að leggja rækt við verkin okkar og gefa þeim áburð til að uppskeran verði eins og við þráum.

 

Á jólunum fæddist frelsarinn og við mannfólkið fengum nýtt tækifæri í lífinu, möguleika á nýrri byrjun. Margir nýta áramótin til að hefja eitthvað nýtt, leggja af vonda siði og taka upp nýja og betri. Mörg okkar ætla til dæmis alveg örugglega að borða hóflegra á nýju ári og hreyfa sig meira en á því sem var að líða. Aðrir ætla að leggja sig fram um að vera betri manneskjur með einum eða öðrum hætti. Þannig getur nýja árið orðið að tímamótum í lífi hvers og eins.

Stundum hefur verið sagt að það sé nauðsyn að upplifa erfiðleika til að geta öðlast þroska. Það má svo sem vel vera rétt í einhverjum tilvikum, ég trúi því að þeir sem leggja sig fram við sjálfsrækt og kærleika í lífinu séu þeir sem upplifi mestan þroska þegar upp er staðið. Þau okkar sem skoða sjálf sig með gagnrýnum huga og þá meina ég þau okkar sem velja að rýna á sjálf sig til gagns en ekki með niðurbrjótandi neikvæðum hugsunum. Vissulega lærum við flest af reynslunni og veljum á einum tímapunkti eða öðrum að láta af einhverri hegðun okkur og öðrum til gagns og gæða.

Nú er að hefjast nýtt ár, nýtt upphaf með tækifærum til að breyta því sem aflaga hefur farið. Þá getum við skoðað okkur sjálf, berum við umhyggju fyrir okkur, gera aðrir það, viljum við hlúa að okkur sjálfum og okkar fólki, viljum við gefa okkur tækifæri til að verða betri manneskjur, öðlast betra líf?

Það er svo margt sem lífið getur fært okkur, við getum vissulega lært af því sem við upplifum og gerum það flest, við getum valið að vera jákvæð og láta neikvæðni eiga sig, við getum valið að vera þakklát fyrir það sem við höfum en þakklætið er einmitt þeirrar náttúru að það getur umbreytt lífinu og gefið ótrúlega fyllingu. Það getur breytt venjulegri máltíð í veislu, húsi í heimili, ókunnugum í vin og þannig hjálpað okkur að skilja það sem liðið er, þakklæti getur fært okkur gleði og frið í dag og skapað bjarta sýn fyrir árið sem er framundan.

Við getum valið það að vera kærleiksríkar manneskjur og valið líf í anda kristinna gilda, valið líf sem tekur mið af Jesú Kristi sem býður okkur nýtt tækifæri á hverjum einasta degi, eins oft og við þurfum. Við getum valið líf þar sem við hlúum að sjálfum okkur og náunganum og þar með getum við valið að blómstra, rétt eins og fíkjutréð sem fær ríkulega næringu, alúð og umhyggju.

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það sem liðið er í Jesú nafni!

Séra Fritz Már Jörgensson

En þetta vil ég hugfesta
og þess vegna vona ég:
Náð Drottins er ekki þrotin,
miskunn hans ekki á enda,
hún er ný á hverjum morgni,
mikil er trúfesti þín.
Drottinn er hlutdeild mín, segir sál mín,
þess vegna vona ég á hann.
Góður er Drottinn þeim er á hann vona
og þeim manni er til hans leitar.
Gott er að bíða hljóður
eftir hjálp Drottins.

Rannsökum breytni vora og prófum
og snúum aftur til Drottins.
Fórnum hjarta og höndum
til Guðs í himninum.

Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur? Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni heldur framseldi hann fyrir okkur öll, hvort mundi hann ekki líka gefa okkur allt með honum? Hver skyldi ásaka Guðs útvöldu? Það er Guð sem sýknar. Hver sakfellir? Kristur Jesús er sá sem dáinn er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir okkur. Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð? Það er eins og ritað er:
Þín vegna er okkur dauði búinn allan daginn
og við metin sem sláturfé.
Nei, í öllu þessu vinnum við fyllsta sigur í krafti hans sem elskaði okkur. Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.

Þá sagði Jesús þeim þessa dæmisögu: „Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að vera engum til gagns? En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.“