Við sem höfum verið predikarar í mörg ár þekkjum það vel að sumir textar Biblíunnar eru þægilegri en aðrir til að predika út frá. Ástæðurnar eru auðvitað margar og sumar persónulegar. Vafalaust tengjast þær samt flestar því að við erum að skrifa hugleiðingu á nútíma íslensku út frá ævagömlum frásögum og atburðum. Túlka hugarheim fortíðar yfir í skiljanlegan heim nútíðar.

Um þetta snýst glíman hjá þeim sem predika, í hvert einasta sinn.

Nú höfum við þurft að takast á við afar sérstaka tíma í heiminum í rúmlega eitt ár. Farsótt hefur geisað með vaxandi þunga frá því í lok árs 2019 og af fullum þunga frá því í mars 2020. Ótrúlega margt hefur gerst þessa mánuði sem við munum aldrei gleyma og við óskum þess öll af hjarta að Covid-19 farsóttinni fari að ljúka.

Í dag, 2. maí 2021, ætla ég að hitta sóknarbörn mín í Eyvindarhólasókn undir Austur-Eyjafjöllum og hafa guðsþjónustu sem við höfum þráð svo lengi.

Ég hlakka til eins og lítið barn hlakkar til jólanna.

Líkt og stundum áður gerði ég mér sérstakt far um að velja predikunartextann af þessu tilefni og nota ekki þann sem bent er á í helgisiðabók Þjóðkirkjunnar. Þar liggur nefnilega frelsi mitt sem predikara.

Tímabilið frá páskum til hvítasunnu ár hvert, svonefndan gleðitíma, notar kirkjan til að flytja boðskap guðspjallamannsins Jóhannesar, sem ritaði sögu Jesú Krists frá sínu sjónarmiði síðastur þeirra fjögurra sem Nýja-testamentið okkar geymir. Hans sem greinir frá því í lok guðspjallsins, að hann hafi ritað söguna í ákveðnum og einbeittum tilgangi. Ekki til að öðlast sjálfur viðurkenningu og virðingu, heldur vegna þess að hann hafði kynnst trúnni á frelsarann og sannfærst í hjarta sínu um að Guð hafi einmitt birtst mannkyninu svona. Með sérstökum hætti í manninum Jesú frá Nasaret.

Hann hafði fengið að reyna hve mikilvæg trúin á frelsarann er og það er ekki tilviljun að mörg af fegurstu huggunarorðum kristinnar trúar á sorgarstundum er að finna hjá Jóhannesi. Til þeirra grípum við einmitt svo gjarna, þegar rökin þrýtur, þegar nánast ekkert er hægt að segja.

Við skulum því ekki halda eða gera ráð fyrir því að Jóhannes sé hlutlaus í skrifum sínum. Hann veit fyrirfram til hvers hann ætlast af okkur sem lesum eða heyrum. Hann vill að við öðlumst trú og traust og getum líkt og hann sjálfur, sannfærst um Jesú Krists í okkar eigin lífi og starfi með því að lesa guðspjallið.

Fyrir guðsþjónustuna í dag valdi ég að fjalla um eina fegurstu og þekktustu líkingu Jóhannesar um frelsarann. Myndina um góða hirðinn.

En það var ekki rómantískt og þægilegt starf og Jesús þekkti allt sem hirðar samtíðar hans máttu þola.

Samt kom smiðurinn frá Nasaret, góði hirðirinn, fram með þá einkennilegu hugmynd að hann gæti orðið húsameistari alls mannkynsins. Hann, sonur Höfuðsmiðs Himins og Jarðar stefndi ekki lægra en svo að reisa það musteri sem standa skyldi um aldir og eilífð.  Hann sagði vinum sínum að skilnaði að fara og gera allar þjóðir að lærisveinum og kenna öllu mannkyni, allt sem hann hafði kennt.

Mikið er gott að geta treyst góða hirðinum til að fylgjast með okkur í heimi sem er stundum óskiljanlegur og erfiður.

Veginn þangað sem góði hirðirinn gekk þekkjum við. Við skulum sýna að við þorum að fylgja honum.  Sýna að við séum tilbúin að breyta heiminum í nafni hans. Einmitt það að hann er góði hirðirinn okkar gefur okkur svo innilegt tilefni til vonar og þakklætis, því hann mun alltaf leiða okkur að þeim lindum sem næðis nýtur við. Hann mun hjálpa okkur að sigra erfiðleika og vonleysi og kenna okkur um leið hvað það er gott að geta treyst og trúað. Góði hirðirinn mun hjálpa okkur að skilja mikilvægi hvert annars, að allir eru jafn verðmætir í sauðahjörðinni. Þannig mun hann kenna okkur samúð og kjark sem gefur tilefni til eilífs og innilegs þakklætis.

Séra Haraldur M. Kristjánsson, Vík í Mýrdal

Lofgjörðarlag vikunnar er 10,000 Reasons (Bless the Lord) – flutt af Matt Redman, við biðjum um blessun fyrir þann sem hæstur er, blessaðu Drottinn sála mín.  https://www.youtube.com/watch?v=DXDGE_lRI0E

Þann dag, er Ísak var vaninn af brjósti, gerði Abraham veislu mikla. Sá þá Sara son Hagar hinnar egypsku, sem hún hafði fætt Abraham, að leik og sagði við Abraham: „Rektu burt ambátt þessa og son hennar því að ekki skal ambáttarsonurinn taka arf með Ísak, syni mínum.“
Abraham féllu þessi orð mjög þungt vegna sonar síns. En Guð sagði við Abraham:
„Lát þér ekki falla þetta þungt vegna sveinsins og ambáttar þinnar. Öllu sem Sara segir skaltu hlýðnast því að afkomendur þínir munu kenndir verða við Ísak. En ambáttarsoninn mun ég einnig gera að þjóð því að hann er afkvæmi þitt.“
Snemma næsta morgun tók Abraham brauð og vatnsbelg og fékk Hagar, lyfti drengnum á öxl henni og sendi hana á braut. Reikaði hún um eyðimörkina við Beerseba.
Er vatnið þraut úr skinnbelgnum lagði hún drenginn undir runna einn, gekk þaðan og settist skammt undan eins og í örskots fjarlægð því að hún hugsaði: „Ég vil ekki horfa á drenginn deyja.“ Og hún tók að gráta hástöfum.
Þá heyrði Guð grát sveinsins og engill Guðs kallaði til Hagar af himni og sagði:
„Hvað amar að þér, Hagar? Óttast þú ekki því að Guð hefur heyrt grát sveinsins þar sem hann liggur. Stattu upp, reistu drenginn á fætur og leiddu hann þér við hönd því að ég mun gera hann að mikilli þjóð.“
Og Guð lauk upp augum hennar svo að hún sá vatnslind, fór og fyllti vatnsbelginn og gaf drengnum að drekka.
Guð var með sveininum og hann óx og settist að í óbyggðunum og gerðist bogmaður. Hann hafðist við í Paranóbyggðunum og móðir hans tók handa honum konu frá Egyptalandi.

Fólkið spurði hann þá: „Hver ert þú?“ Jesús svaraði því: „Sá sem ég hef sagt yður frá upphafi. Margt hef ég um yður að tala og fyrir margt að dæma. En sá sem sendi mig er sannorður og það sem ég heyrði hjá honum, það tala ég til heimsins.“
Fólkið skildi ekki að hann var að tala við þá um föðurinn. Því sagði Jesús: „Þegar þér hefjið upp Mannssoninn munuð þér skilja að ég er sá sem ég er og að ég geri ekkert einn og sér heldur tala ég það eitt sem faðirinn hefur kennt mér. Og sá sem sendi mig er með mér. Hann hefur ekki látið mig einan því ég geri ætíð það sem honum þóknast.“ Þegar hann mælti þetta fóru margir að trúa á hann.

Af þessu munum við þekkja að við erum sannleikans megin og munum geta friðað hjörtu okkar frammi fyrir honum, hvað sem hjarta okkar kann að dæma okkur fyrir. Því að Guð er meiri en hjarta okkar og þekkir allt. Þið elskuðu, ef hjartað dæmir okkur ekki, þá höfum við djörfung til Guðs. Og hvað sem við biðjum um fáum við hjá honum af því að við höldum boðorð hans og gerum það sem honum er þóknanlegt. Og þetta er hans boðorð, að við skulum trúa á nafn sonar hans Jesú Krists og elska hvert annað, samkvæmt því sem hann hefur gefið okkur boðorð um. Sá sem heldur boðorð Guðs er stöðugur í Guði og Guð í honum. Að hann er stöðugur í okkur þekkjum við af andanum sem hann hefur gefið okkur.