Jóh.10.

22 Nú var vígsluhátíðin í Jerúsalem og kominn vetur. 23 Jesús gekk um í súlnagöngum Salómons í helgidóminum. 24 Þá söfnuðust Gyðingar um hann og sögðu við hann: “Hve lengi lætur þú oss í óvissu? Ef þú ert Kristur, þá seg oss það berum orðum.” 25 Jesús svaraði þeim: “Ég hef sagt yður það, en þér trúið ekki. Verkin, sem ég gjöri í nafni föður míns, þau vitna um mig, 26 en þér trúið ekki, því að þér eruð ekki úr hópi sauða minna. 27 Mínir sauðir heyra raust mína, og ég þekki þá, og þeir fylgja mér. 28 Ég gef þeim eilíft líf, og þeir skulu aldrei að eilífu glatast, og enginn skal slíta þá úr hendi minni. 29 Faðir minn, sem hefur gefið mér þá, er meiri en allir, og enginn getur slitið þá úr hendi föðurins. 30 Ég og faðirinn erum eitt.”

Myndlíkingin um hirðinn og sauðina er víða í Biblíunni. Öll könnumst við, við 23 Davíðssálm: Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. Starf hirðisins er að vera vakinn og sofinn yfir sauðunum, passa þeir hafi nóg að bíta, og verja þá gegn ýmsum hættum s.s. villidýrum. Eins leitar hann þeirra sem villast frá hópnum. Jú, okkur sem erum kristinn er líkt við sauði, af öllum dýrum..

Sauðir eru meinlaus hjarðdýr, grasbítar sem þarfnast verndar, þeir eiga erfitt með að verja sig og eiga til að villast útí ógöngur. Án hirðis eru sauðir berskjaldaðir. Í 10. kafla Jóh. talar Jesús um sjálfan sig sem Góða hirðinn sem leiðir og verndar sauðina. Og sauðirnir þekkja rödd hans, hafa lært að treysta honum og fylgja honum.

Í textanum er talað um tvennt sem er hlutverk sauðanna: annarsvegar að þekkja rödd Guðs, og hinsvegar að fylgja honum. Ókunnugum fylgja þeir ekki heldur flýja frá honum, því þeir þekkja ekki rödd ókunnugra, stendur í Jóh.10.5.

Að vera án hirðis er slæmt hlutskipti. Jesús segir í Matt.9.36-38: ,,er hann sá mannfjöldann, kenndi hann í brjósti um þá, því þeir voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa.”

Við könnumst eflaust við það mörg að hafa verið án hirðis á tímabilum í lífi okkar, að hafa verið hrjáð og umkomulaus. Það er ekki góður staður. Þar er maður auðveld bráð fyrir svo margt, hvort það eru manns eigin hugsanir sem ná að brjóta mann niður eða ytri öfl sem ná heljartökum á manni.

Þessi orð ,,mínir sauðir heyra raust mína” komu í huga minn þegar ég horfði á heimildarþætti um villutrúarsöfnuð, sem að lofaði fólki ,,frelsi” og hamingju, en reyndist svo vera, þegar á leið, alger andstæða þess. Það er gömul saga og ný að fólk er leitandi og ,,finnur sig” í ýmsu misjöfnu.

Trú á Jesú er oft kölluð frelsun. Að fólk frelsist. Að það öðlist frelsi frá því sem batt það, og öðlist frelsi til þess að vera sá eða sú sem Guð ætlar þeim að vera. Bæði frelsi frá og frelsi til einhvers. Trúin þannig verndar mann gegn lygum og falsi sem vill reyna að binda mann aftur. Að þekkja rödd Guðs er vernd gegn svo ótal mörgu, þá á ég ekki við englavernd eða yfirskilvitlega vernd heldur, viska sem Guð gefur til að gera það sem er rétt og best fyrir mann. Visku til að rata um það völundarhús sem lífið getur oft verið. Baráttan er svo sannarlega til staðar því það er talað um að einhver vilji ,,slíta” okkur úr hendi Guðs. T.d. í Fjallræðunni varar Jesú við falsspámönum: Matt.5.15  ,,Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum, en innra eru þeir gráðugir vargar.”

Í heimildarþættinum sem ég talaði um hér á undan var fólk að leita að lífsfyllingu og því miður setti það traust sitt á falsspámann, úlf í sauðagæru. Sumir viðmælendur í þættinum voru enn í hjarta fylgjendur þessa fallna leiðtoga, en ein kona talaði um það að hafa raknað við sér og loks áttað sig á villu síns vegar. Þessi blinda í hamingjuleitinni getur verið svo algjör.

Ég þakka Guði fyrir rödd hans í mínu lífi í gegnum árin, að ég hafi haft þá náð að hlýða á hann frá æsku. En ég þekki það líka að hafa ekki alltaf hlýtt á hann, né viljað leita hans, og þar af leiðandi komist í hann krappann. Einsog Páll postuli segir í 1.Pét.2.25: ,,Þér voruð sem villuráfandi sauðir, en nú hafið þér snúið yður til hans, sem er hirðir og biskup sálna yðar.”

Vers sem fjalla um að heyra og fylgja:

Að heyra ,,Guð vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.” 1.Tím.

Opinb. 3.20: ,,Sjá, ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum, þá mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér.”

Að fylgja – Matt. 16. 24 Þá mælti Jesús við lærisveina sína: „Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér. 25 Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, mun finna það. 26 Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og fyrirgjöra sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?“

Að heyra og fylgja felst í því að opna fyrir Jesú, lesa orð hans, biðja, finna sinn sauðaflokk og þannig halda áfram að heyra og fylgja.

———–

Sr. Sylvía Magnúsdóttir

Því að svo segir Drottinn Guð: Nú ætla ég sjálfur að leita sauða minna og líta eftir þeim. Eins og hirðir lítur eftir hjörð sinni þegar hún er á dreif í kringum hann mun ég fylgjast með mínu fé. Ég mun bjarga sauðum mínum frá öllum þeim stöðum sem þeir dreifðust til á hinum dimma og drungalega degi. Ég mun leiða þá burt frá þjóðunum, safna þeim saman úr löndunum og leiða þá heim til síns eigin lands. Ég mun halda þeim í haga á fjöllum Ísraels, í daladrögum og á hverju byggðu bóli í landinu. Ég mun sjálfur halda þeim til beitar í góðu haglendi, beitiland þeirra verður á háfjöllum Ísraels. Þar munu þeir leggjast og ganga í frjósömu haglendi á fjöllum Ísraels. Ég mun sjálfur halda fé mínu til beitar og sjá því fyrir hvíldarstað, segir Drottinn Guð. Ég mun leita þess sem villist og sækja hið hrakta, binda um hið limlesta og styrkja hið veikburða. Ég mun gæta hins feita og þróttmikla og halda því í haga eins og rétt er. Þið eruð hjörð mín sem ég held í haga. Ég er Guð ykkar, segir Drottinn Guð.

Þetta er köllun ykkar. Því að Kristur leið einnig fyrir ykkur og lét ykkur eftir fyrirmynd til þess að þið skylduð feta í fótspor hans. „Hann drýgði ekki synd og svik voru ekki fundin í munni hans.“ Hann svaraði ekki með illmælum er honum var illmælt og hótaði eigi er hann leið, heldur fól það honum á vald sem dæmir réttvíslega. Hann bar sjálfur syndir okkar á líkama sínum upp á tréð, til þess að við skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eruð þið læknuð. Þið voruð sem villuráfandi sauðir en nú hafið þið snúið ykkur til hans sem er hirðir og biskup sálna ykkar.

Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Sá sem er leigður og hvorki er hirðir né á sauðina, hann flýr og yfirgefur sauðina þegar hann sér úlfinn koma og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim. Enda gætir hann sauðanna aðeins fyrir borgun og er ekkert annt um þá. Ég er góði hirðirinn og þekki mína og mínir þekkja mig eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina. Ég á líka aðra sauði sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.