Ég er svo heppin að eiga margar góðar æskuminningar og ein af þeim er mæta í sunnudagaskólann í Selfosskirkju, það er þunn snjódrífa yfir jörðinni, ég hleyp inni í kirkju með möppuna mína og fæ stimpil. Við heyrum biblíusögu, biðjum og syngjum.

Eftir stundina fer ég heim, útvarpsmessan er að klárast, mamma ber hrygginn á borð með öllu tilheyrandi, lyktin í loftinu veitir mér öryggi og frið og maturinn er góður.

Sem barni voru mér kenndar bænir heima og sömuleiðis hjá ömmum mínum. Ég man ekki endilega eftir því að hafa velt fyrir mér hvernig Guð liti út eða nákvæmlega hvar Guð væri að finna, það skipti mig ekki máli, en Guð var til og ég trúði á Jesú.

Með árunum fór ég auðvitað að velta Guðsmynd minni fyrir mér, ekki síst eftir að ég byrjaði í guðfræðináminu. Í náminu týndi ég Guði og trúnni, það var vont að missa Guð en það var ólýsanlega gott þegar Guð mætti aftur og við fundum hvort annað á ný.

Ég hitti Guð aftur í Kvennakirkjunni, hversu hissa sem ég var að mæta Guði sem vinkonu minni, mömmu, þvílíkt frelsi. Æ síðan hefur það gefið mér hvað mest að finna Guð í öllu mínu hversdagsleg lífi og ég finn Guð víða. Í vatninu finn ég Guð, þegar ég geng meðfram ánni minni, Ölfusá, finn ég Guð. Þegar ég fer niður að strönd við Stokkseyri eða Eyarbakka, anda að mér sjónum, finn hrynjandann í öldunum, finn ég Guð og við tölum saman. Þegar ég er þyrst og þamba ferska vatnið okkar, finn ég Guð. Þegar ég ég fer í sundlaugina mína, syndi og fer í heita pottinn þá er Guð þar og fyllir mig orku og vellíðan.

Á hverjum degi, við hverja sólarupprás býður Guð þér til veislu. Þú ert velkomin að njóta allra þeirra veislufanga sem boðið er upp ár. En þú þarft að mæta og þú þarft að þakka fyrir með því að koma fram að virðingu við hinar góðu gjafir skaparans.

Séra Guðbjörg Arnardóttir

Lofgjörðarlag vikunar er með Kari Jobe og heitir I Am Not Alone. Ég er ekki ein, þú ferð á undan mér, þú munt aldrei yfirgefa mig. https://www.youtube.com/watch?v=bfveawSAHJA

Komið, öll sem þyrst eruð, komið til vatnsins
og þér sem ekkert fé eigið, komið,
komið, kaupið korn og etið,
komið, þiggið korn án silfurs
og endurgjaldslaust, bæði vín og mjólk.
Hvers vegna reiðið þér fram silfur fyrir það sem ekki er brauð
og laun erfiðis yðar fyrir það sem ekki seður?
Hlýðið á mig, þá fáið þér hina bestu fæðu
og endurnærist af feitmeti.
Leggið við hlustir og komið til mín,
hlustið, þá munuð þér lifa.
Ég ætla að gera við yður ævarandi sáttmála
og miskunn mín við Davíð mun stöðug standa.
Ég gerði hann að vitni fyrir þjóðirnar,
að höfðingja og stjórnanda þjóðanna.
Sjá, þú munt kveðja til þjóðir sem þú þekkir ekki
og þjóðir, sem ekki þekkja þig, munu skunda til þín
vegna Drottins, Guðs þíns, Hins heilaga Ísraels,
því að hann hefur gert þig vegsamlegan.

Hafið því nákvæma gát á hvernig þið breytið, ekki sem fávís heldur sem vís. Notið hverja stund því að dagarnir eru vondir. Verið því ekki óskynsöm heldur reynið að skilja hver sé vilji Drottins. Drekkið ykkur ekki drukkin af víni, það leiðir aðeins til spillingar. Fyllist heldur andanum og ávarpið hvert annað með sálmum, lofsöngvum og andlegum ljóðum. Syngið og lofið Drottin af öllu hjarta og þakkið jafnan Guði, föðurnum, fyrir alla hluti í nafni Drottins vors Jesú Krists.

Þá tók Jesús enn að segja þeim dæmisögu: „Líkt er um himnaríki og konung einn sem gerði brúðkaup sonar síns. Hann sendi þjóna sína að kalla boðsgestina til brúðkaupsins en þeir vildu ekki koma. Aftur sendi hann aðra þjóna og mælti: Segið boðsgestunum: Veislu mína hef ég búið, uxum mínum og alifé er slátrað og allt er tilbúið, komið í brúðkaupið. En boðsgestirnir skeyttu því ekki. Einn fór á akur sinn, annar til kaupskapar síns en hinir tóku þjóna hans, misþyrmdu þeim og drápu.
Konungur reiddist, sendi út her sinn og lét tortíma morðingjum þessum og brenna borg þeirra. Síðan segir hann við þjóna sína: Brúðkaupsveislan er tilbúin en boðsgestirnir voru ekki verðugir. Farið því út á stræti og torg og bjóðið í brúðkaupið hverjum þeim sem þið finnið. Þjónarnir fóru út á vegina og söfnuðu öllum, sem þeir fundu, vondum og góðum, svo að brúðkaupssalurinn varð alskipaður gestum.
Konungur gekk þá inn að sjá gestina og leit þar mann sem var ekki búinn brúðkaupsklæðum. Hann segir við hann: Vinur, hvernig ert þú hingað kominn og ert ekki í brúðkaupsklæðum? Maðurinn gat engu svarað. Konungur sagði þá við þjóna sína: Bindið hann á höndum og fótum og varpið honum í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna. Því að margir eru kallaðir en fáir útvaldir.“