Lk. 15:11-32 Hvað það er að vera manneskja Boðskapur ritningarinnar fjallar um það, hvað það er að vera manneskja. Hvað það er að vera manneskja í heiminum og í samfélagi við aðra. Hvað það er að vera barn, unglingur, fullorðinn í dag, í gær og alla daga. Þessi þekking er óháð tíma, hún á alltaf við. Þekkingu Biblíunnar er gjarnan miðlað í formi frásagnar, í formi líkinga, ljóða eða spakmæla. Frásögurnar, smásögurnar, eru notaðar til að varpa ljósi á eðli Guðs. Hér er um annars konar þekkingu að ræða heldur en stærðfræði, líffræði eða eðlisfræði miðla okkur. Þekking hins trúarlega er annars konar og svo virðist sem aldirnar hafi kennt okkur að miðlun þeirra sé farsælust á þessu formi. En þá eru það öll þessi hugtök sem geta þvælst fyrir okkur og verið okkur torskilin. Hvað merkir til dæmis orðið Guð? Sú orka sem knýr allt í heiminum, sá kraftur sem skapaði og skapar heiminn, sá andi sem frelsar, gerir nýtt og heilt, vitundin að baki öllu, andinn góði sem gefur vöxt og líf, lífið sem í öllu býr, upphaf og endir alls, hið heilaga, … og svo framvegis og svo framvegis. Allt geta þetta verið tilraunir til að skilja betur þetta litla orð. Hver og einn þarf að finna sér það hugtak eða þá nálgun sem passar honum. Því þótt hugtakið Guð sé lítið þá vísar það til veruleika sem er það stærsta, mesta og dýpsta í vitund okkar og veru. Svo breytist líka guðsmyndin, sem við eigum með aldri okkar og þroska. Tveir synir Eins og til dæmis frásagan af föðurnum sem átti tvo syni og vísað er til hér að ofan, Lk. 15:11-32. Viðhorf föðurins í þeirri frásögu á að merkja viðhorf Guðs og synirnir tveir eiga að tákna afstöðu mannkyns og hvernig við sem manneskjur komum fram í heiminum. Við sjáum það strax að framganga annars sonarins er mjög slæm. Það er að krefjast þess að faðir hans láti hann fá arfinn sinn, það sem hann kallar, sinn hluta af eigum föðurins, þ.e. að fá þann hluta strax. Arfur eru þær eignir sem skipt er milli erfingja eftir andlát einhvers, og það að ganga svona fram gagnvart föður sínum, lifandi, er því alls ekki tímabært, það er þvílík svívirða og dónaskapur. Ég ætla svo sem ekki að verja mörgum orðum í það, því það er svo augljóst í frásögunni. Hins vegar þekkjum við það öll hvað fjármagn og veraldleg gæði eru eftirsóknarverð í lífinu. Eins og segir á slæmri íslensku, money is what makes the world go around. Þarna þráir yngri sonurinn þetta svo heitt að hann fórnar öllu öðru til að fá þessi gæði strax. Það undarlega í sögunni er að faðirinn verður við þessari beiðni. Já skiptir öllum eigum sínum og leyfir yngri syninum að gera þennan óskunda. En þegar sonurinn hafði sóað öllu og fann í smæð sinni hvað hann hafði komið illa fram vildi hann koma heim. Hann fann og vissi í hjarta sínu að hann hafði fyrirgert þeim rétti að kallast sonur föður síns, samt vildi hann heim, til að sjá hvort hann fengi vinnu hjá föður sínum. Hann vissi að vinnumennirnir þar fengu ávallt nóg að borða, en hann var þegar þarna var komið sögu að deyja úr hungri. Það var gleði og hátíð sem voru viðbrögð föðurins. Þegar sonurinn snéri aftur varð faðir hans svo glaður að hann sló upp hátíð, og viðbrögð hans voru lík því að hann hafi endurheimt son sinn frá dauðum. Þrátt fyrir hrikalega framkomu þá elskaði faðirinn son sinn, tók á móti honum á þann besta máta sem hann gat og kunni og fagnaði. Guð er ekki í þessum leik Viðbrögð föðurins eiga að tákna afstöðu Guðs til mannanna. Það má skilja þá afstöðu þannig að Guð er ekki með stigatöflu, yfir góðverk og slæm verk, eins og í fótboltaleik, þar sem mörkin eru talin, mark eða skot framhjá, heldur elskar Guð í grunninn alla menn og fagnar þegar manneskja snýr heim, snýr til sjálfs sín, hættir einhverju slæmu, fetar góðan veg að nýju. En hinn sonurinn, sá eldri, hann upplifði eitthvað allt annað. Hann fann fyrir öfund. Hann vildi kannski frekar sjá föðurinn refsa bróður sínum fyrir framkomuna. Ég get skilið þær tilfinningar hans mjög vel. En hvor sonurinn var í góðum tengslum við föður sinn? Hvor sonurinn kom fram á máta sem tónar í takt við kærleiksríka afstöðu föðurins? Í raun var það hvorugur. Því sá eldri sem var heima, bjóst við því að hin góða framganga hans öll þessi ár, myndi reiknast honum til tekna. Það er að segja hann reiknaði einnig með því að faðirinn væri með einhvers konar stigatöflu, skot í mark og skot framhjá, þar sem hann fengi notið góðs af því að hafa farið að boðum hans og þjónað öll þessi ár. En Guð er ekki í þessum leik. Mannlífið gengur mikið út á þennan leik, þ.e.a.s. við leggjum okkur fram og fáum umbun erfiðis okkar. Við vinnum störf og fáum laun, við gerum það sem ætlast er til og njótum góðs af því, við skorum mörk í fótboltaleik og sigrum, fáum verðlaun. Allt er það gott og blessað. En eru það þessi atriði sem skilgreina virði okkar? Eru það þessi atriði sem, þegar öllu er á botninn hvolft, skera úr um hvort við séum að meika það í lífinu eða ekki? Boðskapur frásögunnar er sá að Guð er ekki í þessum leik. Guð telur þig hafa meikað það þrátt fyrir allt. Þessi frásaga miðlar einmitt því að Guð, eða hvaða hugtak sem við notum yfir þennan veruleika, sem er það stærsta, mesta og dýpsta í vitund okkar og veru, er ekki í þessum leik. Guð er ekki með stigatöflu til að meta manngildi hvers og eins. Guð er þessi djúpi kærleikur, sem fyrirgefur, sem tekur í sátt, sem vill mæta manneskjunni í smæð hennar, sem opnar faðminn móti þér og mér helst á okkar erfiðustu stundum, og segir ,,velkominn“ ,,þú ert í lagi“ „þú ert frábær eins og þú ert“. Dýpri sýn á lífið fæst oft í gegnum þrautirnar Það er svo oft í gegnum erfiðleika eða sorg, sem við manneskjurnar tökum þroskaskref, fáum aðra og kannski dýpri sýn á lífið, öðlumst nýja þekkingu, getum betur sett okkur í spor annarra. Þar er það þetta fagnaðarerindi sem veitir aðra þekkingu, annan sjónarhól á það hvað það er að vera manneskja. Auglitið lýstist upp Í lok hverrar guðsþjónustu er sagt: Drottinn blessi þig og varðveiti þig, Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur, Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið. Aftur eru hér falleg orð sem fyrir marga eru kannski torskilin og erfið. Ég dreg þau fram hér í lok orða minni því merking þeirra má tengja frásögunni af sonunum tveimur. Helgisögn ein hermir að þegar faðirinn sá son sinn koma heim á ný hafi hann orðið svo glaður og fullur af kærleika að augu hans og svipur lýstust upp, gleðin skein frá honum og lýstist yfir hinn týnda son, sem nú var fundinn. Í þeim anda og í ljósi þessarar myndar er blessunin orðuð svo: Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig. Við eigum án efa öll slíka reynslu í tengslum við stórar stundir í lífi okkar, fæðingu barnanna, skírn, fermingar, eða hvað það annað sem markar tímamót og breytir sögu okkar. Er auglit okkar lýsist upp af kærleika, væntumþykju og skínandi gleði. Sr. Þorvaldur Víðisson, biskupsritari

Drottinn, Guð þinn, mun leiða þig inn í gott land, inn í land með lækjum, lindum og uppsprettum sem streyma fram í dölum og á fjöllum, Þegar þú hefur etið og ert orðinn mettur skaltu lofa Drottin, Guð þinn, fyrir landið góða sem hann hefur gefið þér. Gæt þess þá að þú gleymir ekki Drottni, Guði þínum, og hættir að hlýða boðum hans, ákvæðum og lögum sem ég set þér í dag. Þú skalt ekki hugsa með þér: „Ég hef aflað þessara auðæfa með eigin afli og styrk handar minnar.“ Minnstu heldur Drottins, Guðs þíns, því að það var hann sem gaf þér styrk til að afla auðs til þess að standa við sáttmálann sem hann sór feðrum þínum eins og hann gerir enn í dag.

Sem vitur byggingameistari hef ég lagt grundvöll eftir þeirri náð sem Guð hefur veitt mér en annar hefur byggt ofan á. En sérhver athugi hvernig hann byggir. Annan grundvöll getur enginn lagt en þann sem lagður er, sem er Jesús Kristur. En ef einhver byggir ofan á grundvöllinn gull, silfur, dýra steina, tré, hey eða hálm, þá mun koma í ljós hvernig verk hvers og eins er. Dagurinn mun leiða það í ljós af því að hann opinberast með eldi og eldurinn mun prófa hvílíkt verk hvers og eins er. Ef það fær staðist sem einhver byggir ofan á mun hann fá laun. En brenni það upp mun hann bíða tjón. Sjálfur mun hann komast af en þó eins og úr eldi.

Svo er um himnaríki sem mann er ætlaði úr landi. Hann kallaði á þjóna sína og fól þeim eigur sínar. Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, hverjum eftir hæfni. Síðan fór hann úr landi. Sá sem fékk fimm talentur fór þegar, ávaxtaði þær og græddi aðrar fimm. Eins gerði sá er tvær fékk. Hann græddi aðrar tvær. En sá sem fékk eina fór og gróf fé húsbónda síns í jörð og faldi það. Löngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna og lét þá gera skil. Sá með fimm talenturnar gekk þá fram, færði honum aðrar fimm og sagði: Herra, fimm talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar fimm. Húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns. Þá gekk fram sá með tvær talenturnar og mælti: Herra, tvær talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar tvær. Og húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns. Loks kom sá er fékk eina talentu og sagði: Herra, ég vissi að þú ert maður harður sem uppsker þar sem þú sáðir ekki og safnar þar sem þú stráðir ekki. Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt. Og húsbóndi hans sagði við hann: Illi og lati þjónn, þú vissir að ég uppsker þar sem ég sáði ekki og safna þar sem ég stráði ekki. Þú áttir því að leggja fé mitt í banka. Þá hefði ég fengið það með vöxtum þegar ég kom heim. Takið af honum talentuna og fáið þeim sem hefur tíu talenturnar. Því að hverjum sem hefur mun gefið verða og hann mun hafa gnægð en frá þeim sem eigi hefur mun tekið verða, jafnvel það sem hann hefur. Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna