Gleðileg jól!

Það er mikil merking í þessum orðum og í lífi ótrúlega margra breyta þessi orð tilverunni allri. Allt fær nýjan lit og gleðin er rík á hátíð friðar og sigurs í lífi og trú. Jólin eru sigur friðarins yfir öllu glamri og glysgirni samtíðarinnar, hávaða alls sem herjar á manneskjuna alla aðra daga. Jólin sigra af því að þau víkja því öllu til hliðar sem skiptir minna máli en friður og ljós og helgi jólanna. Hvað gæti verið merkilegra?

Í lífi fjölmargra er friður og ljós ekki sjálfsagður hlutur eða daglegt brauð. Alla aðventuna höfum við helgað okkur því að hugsa til þeirra sem minna meiga sín eða búa við skort. Með margföldum hætti margra aðila hefur hjálpin vonandi ratað þangað sem þörfin var mest. Margar hendur og heill hugur alls almennings er mikið afl. Á jólum áttum við okkur á því að það sem knýr þetta afli er fagnaðarerindi hátíðarinnar. Og fagnaðarerindið hefur náð fram fyrir löngu og í allar götur síðan í lífi ótal einstaklinga af því að það var stærsta undrið að Jesús gat fæðst á sínum tíma og að í því er fólgið enn dýpra undur sem er sú trú okkar og vissa að með fæðingu Jesú frá Nazaret í borginni Betlehem í Júda, í Palestínu núna, á Vesturbakkanum núna, gerðist Guð maður holdi klæddur og í raun og veru. Fullkomlega maður og fullkomlega Guð sem býr með okkur æ síðan.

Nærvera hans er lögmálið sem knýr samfélagið okkar og líf og ást og trú. Það gengur reyndar svo langt að hann vekur okkur trú á sig. Hann kveikir neista trúariðkunar og breytni í samræmi við þessa trú. Það hefur því sérstaka merkingu þegar við segjum að allt er frá honum komið og líka það að við eigum þess kost að trúa á hann. Þessi neisti sem kveiktur er verður að teljast neistinn sem kveikir einnig allt þetta ljós sem talað er um þegar hátíðinni er lýst. Við lýsum svo hátíðina með ljósi okkar sem er stundum týra og stundum flöktandi logi en alltaf ljós af því ljósi sem við höfum þegið frá honum sem er að baki öllu ljósi og friði í þessum heimi.

Tal um frið og skjól hefur mismunandi merkingu eftir því hvernig aðstæður okkar eru þegar jólin ganga í garð. Í stríðshrjáðu landi er þráin eftir friði algjör og sennilega það eina sem fólk þráir og vonar að rætist. Þar er friður forsenda fyrir öllu lífi. Á þann hátt er friðurinn sigur lífsins því lífið mun ekki verða neitt líf ef ófriður heldur fram sem horfir.

Í ótryggu ástandi eða í faraldri eða við hungur eða náttúruhamfarir eða hvar sem vonleysi á umtalsverðan þátt í því vanlíðan fólks þurfa allir að biðja þess að Kristur auki okkur trú á fagnaðarerindi sem er frá honum komið. Í erfiðum aðstæðum þráum við von um lausn eða betri tíma. Við þráum þá að horfa björtum augum til framtíðar. Vegna trúar eigum við von og vegna þess að það er gleði í boðskap sem kallast fagnaðarerindi eigum við líka bjartsýni.

Þá er ágætt að átta sig á því hvað bjartsýni og von eru í raun ólík hugtök. Þau eru ekki sama hugtakið enda eru þau sprottin af ólíkum meiði. Bjartsýni er í dag skilgreind þannig að hún er sú sviðsmynd sem er í bestu mögulegu framtíðarsýn sem reiknuð er út frá þeim líkum sem við sjáum núna þegar eða getum reiknað með. Vonin er hins vegar þannig að það vottar ekkert fyrir neinu sem styður björtustu sviðsmynd framtíðarsýnar. Vonin er gefin í þeirri merkingu að ekkert hefur verið gefið til kynna nema kannski að við eigum von. Ekki leit út fyrir að María gæti átt þetta barn, haldið því eða yfirhöfuð sloppið lifandi úr þessari barnsnauð við erfiðustu aðstæður. Fátt benti til þess að bjartsýnasta spá myndi rætast enda er bæði að finna alvarlegar hindranir á meðgöngunni og í ferðinni allar götur suður til Betlehem eða í þeirri helgu borg og hvað þá eftir að barnið var hætt. Því var búinn bráður bani af því hervaldi sem óttaðist allra mest að friðarljósið yrði skært og öflugt. Oft gerðist það í sögum guðspjallanna að líf þetta var tæpt. Og svo að lokum var ljóst að það reyndi endanlega á vonina í brjóstum lærisveinanna. Engar líkur voru á því að skærasta ljós þessa heims myndi kvikna í upprisusólinni á páskadagsmorgun. Það er þess vegna sem við tölum hátíð ljóssins.

Þetta ljós kveikjum við núna og um leið og það er tendrað er tendruð von í brjóstum okkar allra um frið sem er langt yfir skilningi okkar og getu. Guð er líka æðri. Von hans er æðri allri mannlegri hugsun og mögulegri þrá hjá hverju barni Guðs því það er Guð sem hefur lagt ást á okkur og það er sú ást sem hefur breytt öllu, lagt tilveru okkar upp á alveg nýjan hátt, nýtt líf með nýrri von og dýpri friði en nokkur manneskja gat fundið upp. Við kveikjum ljós við ljós til að kalla eftir ljósi lífsins af því að það er komið frá Guði, Frelsara og Lausnara heimsins.Guð gefi þér þessa djúpu gleði friðarins.

 

Hugvekja á aðfangadagskvöldi 2020 fyrir Netkirkjuna

Sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup

 

Lofgjörðarlag vikunnar er Silent Night með Kelly Clarkson, Trisha Yearwood og Reba Mcentire!

https://www.youtube.com/watch?v=5BRVkgaIcaE

En þú, Betlehem í Efrata,
ein minnsta ættborgin í Júda,
frá þér læt ég þann koma
er drottna skal í Ísrael.
Ævafornt er ætterni hans,
frá ómunatíð.
Því verður þjóðin yfirgefin
þar til sú hefur fætt er fæða skal.
Þá munu þeir sem eftir lifa ættmenna hans
snúa aftur til Ísraels lýðs.
Hann mun standa sem hirðir þeirra
í krafti Drottins,
í mætti nafns Drottins, Guðs síns,
og þeir óhultir verða.
Þá munu menn mikla hann
allt til endimarka jarðar.
Hann mun tryggja friðinn.

Því að náð Guðs hefur opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum. Hún kennir okkur að afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum, í eftirvæntingu okkar sælu vonar, að hinn mikli Guð og frelsari vor Jesús Kristur opinberist í dýrð sinni. Hann gaf sjálfan sig fyrir okkur til þess að hann leysti okkur frá öllu ranglæti og hreinsaði sjálfum sér til handa eignarlýð, kostgæfinn til góðra verka.

En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar.
Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi.
En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“
Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu:
Dýrð sé Guði í upphæðum
og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.