Jóh.   3:16-17.
Foreldrar sem eiga von á barni vita að heimurinn er ekki öruggur. Það er áhætta að eignast barn,  vegna þess að  það eru alls konar áskoranir og ógnir í heiminum. Barnið getur meitt sig og mun á einhverju tímabili meiða sig. Foreldrar vita þetta, en þeir taka áhættuna, því þeir vita að það að eignast barn er tækifæri til að elska og einnig tækifæri til þroska.
Góð móðir er mild en máttug og setur barni sínu elskuleg mörk. Hún leyfir barni sínu að gera mistök og læra af þeim, en stelur ekki þroska þess og gleði. Barn uppsker gleði með að geta og gera sjálft. „Sko mig“ segir barnið og hlær við eða upplifir stolt yfir framförum sínum. Þannig hefur Guð gefið okkur frelsi og sleppt okkur lausum og er ekki alltaf að taka fram fyrir hendurnar á okkur og þannig þroskumst við og lærum. Kona sem var á fertugsaldri kvartaði undan ofverndun móður sinnar og sagði: „Mér líður eins og barni sem er löngu farið að ganga, en mamma er alltaf að taka í hendurnar á mér í þeim tilgangi að styðja mig,  en um leið stöðvar hún mig.“ – Mamma hennar elskaði hana að sjálfsögðu mjög mikið,  en þarna skorti kannski eitthvað upp á að hún treysti henni út í lífið.
Ábyrgð móður er að sjálfsögðu mikil á meðan barnið er ósjálfbjarga og einnig fyrstu ár þess og fram á unglingsár, en svo kemur sá tími þar sem móðirin verður að sleppa og gefa barninu frelsi til að lifa og þroskast. Það getur verið ógnvænlegt, en í því felst hin óeigingjarna og skilyrðislausa elska. Þetta vita fuglarnir sem horfa á eftir ungum sínum fljúga úr hreiðrinu. Þeir vita líka að ungarnir eru með vængi sem gera þeim kleyft að fljúga.  –  Stundum lenda þessir ungar í ógöngum og kannski bíður þeirra bara gin á gráðugum ketti – en samt þurfa þeir á einhverjum tímapunkti að yfirgefa hreiðrið og öryggið. Fugl í búri er væntanlega öruggastur, en hann syngur væntanlega ekki eins glaðlega og sá sem er frjáls.
Stundum lendum við, sem fullorðin, í óhöppum eða jafnvel stórslysum og segjum „Hvers vegna gerði Guð ekkert?“ og erum þá að reikna með að Guð sé eins og mamman í sögunni, sem sleppti ekki takinu af dóttur sinni vegna þess að hún treysti henni ekki. En það er víst ekki bæði haldið og sleppt,  eða hvað? – Guð leggur okkur lífsreglurnar og Guð vakir yfir okkur og elskar, – og vefur okkur í umhyggju og „heldur“ þannig utan um okkur eins og elskandi móðir, en faðmur Guðs eða elskandi móðir er ekki spennitreyja eða búr. Guð tók stærstu áhættu sem hægt er að taka „Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf. Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn, heldur að heimurinn skyldi frelsast fyrir hann.“
Guð er sem móðirin sem gefur okkur frelsið, frelsið til að leika, læra og lifa.

Jóhanna Magnúsdóttir, sóknarprestur á Kirkjubæjarklaustri.

Helgigönguljóð. Þegar Drottinn sneri við hag Síonar var sem oss dreymdi. Þá fylltist munnur vor hlátri og tungur vorar fögnuði. Þá sögðu menn meðal þjóðanna: „Mikla hluti hefur Drottinn gert við þá.“ Drottinn hefur gert mikla hluti við oss, vér vorum glaðir. Snú við hag vorum, Drottinn, eins og þú fyllir þurra farvegi í Suðurlandi. Þeir sem sá með tárum munu uppskera með gleðisöng. Grátandi fara menn og bera sáðkorn til sáningar, með gleðisöng koma þeir aftur og bera kornbindin heim.

Ég veit að Guð, sem vakti upp Drottin Jesú, mun einnig uppvekja mig ásamt Jesú og leiða mig fram ásamt ykkur. Allt er þetta ykkar vegna til þess að náðin verði sem mest og láti sem flesta flytja þakkargjörð Guði til dýrðar. Fyrir því læt ég ekki hugfallast. Jafnvel þótt minn ytri maður hrörni þá endurnýjast dag frá degi minn innri maður. Þrenging mín er skammvinn og léttbær og aflar mér eilífrar dýrðar sem stórum yfirgnæfir allt. Ég horfi ekki á hið sýnilega heldur hið ósýnilega. Hið sýnilega er stundlegt en hið ósýnilega eilíft.

„Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt yður að ég færi burt að búa yður stað? Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. Veginn þangað sem ég fer þekkið þér.“ Tómas segir við hann: „Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?“ Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig. Ef þér hafið þekkt mig munuð þér og þekkja föður minn. Héðan af þekkið þér hann og hafið séð hann.“ Filippus segir við hann: „Drottinn, sýn þú okkur föðurinn. Það nægir okkur.“ Jesús svaraði: „Ég hef verið með yður allan þennan tíma og þú þekkir mig ekki, Filippus? Sá sem hefur séð mig hefur séð föðurinn. Hvernig segir þú þá: Sýn þú oss föðurinn? Trúir þú ekki að ég er í föðurnum og faðirinn í mér? Það sem ég segi við yður eru ekki mín orð. Faðirinn, sem í mér er, vinnur sín verk. Trúið mér að ég er í föðurnum og faðirinn í mér. Ef þér trúið ekki orðum mínum trúið þá vegna sjálfra verkanna.