Um daginn fór ég í æfingagöngu, hlóð á mig 17 kg. bakpoka og gekk rúmlega 16 km. Ástæða æfingarinnar er pílagrímaganga frá Hólum til Skálholts sem hefst núna 8. júlí. Strax á fyrstu metrunum fór ég að velta fyrir mér hversu mikil bilun þetta væri. Flestir sem ég hafði heyrt í höfðu sett það fyrir sig að ekki væri trúss og stundum þyrfti að gista í tjaldi. Þá fór ég að bera saman hina innri vegferð trúarinn við hina ytri göngu, hlaðinn byrgðum. Báðar vegferðarnar eru í raun bilun vegna þess að við erum klyfjuð svo við getum haft það sem best á leiðinni.

En klyfjarnar eru þungar og það er óðsmanns æði að ætla sér að bera svo mikið. En svo er það hitt að í báðum tilfellum er pílagríminn eða hin trúaði að fara út í óvissuna. Óvissan er sannarlega það sem veldur okkur flestum ótta, en óvissan gæti fært okkur bæði eitthvað jákvætt og gott en einnig eitthvað óþægilegt sem við viljum síður þurfa að takast á við. Þess vegna getur bæði hin ytri ganga og hin innri vegferð trúarinnar verið þrekraun.

En við þurfum heldur ekkert að fara neitt, okkur er gefið það val. Því það þarf hugrekki til þess að halda út í óvissuna og eiga það á hættu að finna Guðið í þoku þess óþekkta. Nægilega erfitt virðist fólki að þurfa að horfast í augu við sjálft sig hvað þá Guðið, því það stendur okkur nær en við sjálf. Í okkar innsta kjarna þegar við höfum flett í burtu öllu því sem heftir okkur: áhyggjum, kvíða, depurð, sjálfumgleði, Egóinu, græðgi og fleiru. Eins og það sé ekki nóg að þurfa að glíma við sjálfan sig heldur þarf maður að fara handan sjálfs síns og glíma við Guðið. Til þess þarf þrótt.

Sr. Dagur Fannar Magnússon, H/Eydölum Breiðdal.

Lofgjörðarlag vikunnar er í Bljúgri bæn í flutningi Friðriks Ómars. Það er einmitt það að ganga veg Drottins sem færir sigur í lífinu: https://netkirkja.is/wp-admin/post-new.php

Drottinn sagði við Abram: „Far þú burt úr landi þínu, frá ættfólki þínu og úr
húsi föður þíns til landsins sem ég mun vísa þér á. Ég mun gera þig að
mikilli þjóð og blessa þig og gera nafn þitt mikið. Blessun skalt þú
vera. Ég mun leiða blessun yfir þá sem blessa þig og bölvun yfir þann
sem formælir þér. Allar ættkvíslir jarðarinnar munu af þér blessun
hljóta.“ Þá lagði Abram af stað eins og Drottinn hafði sagt honum og
Lot fór með honum.

Eftir þetta fór Jesús um, borg úr borg og þorp úr þorpi, prédikaði og flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki. Með honum voru þeir tólf og konur nokkrar er læknaðar höfðu verið af illum öndum og sjúkdómum. Það voru þær María, kölluð Magdalena, er sjö illir andar höfðu farið úr, Jóhanna, kona Kúsa, ráðsmanns Heródesar, Súsanna og margar aðrar. Þær hjálpuðu þeim með fjármunum sínum.

Ég bið ykkur fyrir hana systur okkar, Föbe, sem er djákni safnaðarins í Kenkreu. Veitið henni viðtöku vegna Drottins, eins og kristnum ber, og hjálpið henni með allt sem hún þarf
að fá hjá ykkur. Hún hefur verið bjargvættur margra, þar á meðal mín sjálfs. Heilsið Prisku og Akvílasi, samverkamönnum mínum í Kristi Jesú. Þau hafa stofnað lífi sínu í hættu fyrir mig. Fyrir það votta ég þeim þakkir, ekki ég einn heldur og allir söfnuðir meðal heiðinna þjóða. Heilsið einnig söfnuðinum sem kemur saman í húsi þeirra. Heilsið
Epænetusi, mínum elskaða. Hann er frumgróðinn handa Kristi í Asíu. Heilsið Maríu sem mikið hefur erfiðað fyrir ykkur. Heilsið Andróníkusi og Júníu, ættmennum mínum og sambandingjum. Þau skara fram úr meðal postulanna og gengu Kristi á hönd á undan mér.