Texti:  Í 13. Kafla Matteusarguðspjalls er þessi dæmisaga Jesú.

„Sáðmaður gekk út að sá og þá er hann sáði féll sumt hjá götunni og fuglar komu og átu það upp. Sumt féll í grýtta jörð þar sem var lítill jarðvegur og það rann skjótt upp því það hafði ekki djúpa jörð. Þegar sól hækkaði visnaði það og sökum þess að það hafði ekki rótfestu skrælnaði það. Sumt féll meðal þyrna og þyrnarnir uxu og kæfðu það. En sumt féll í góða jörð og bar ávöxt, sumt hundraðfaldan, sumt sextugfaldan og sumt þrítugfaldan.

Heyrið þá hvað dæmisagan um sáðmanninn merkir (hélt Jesús áfram): Þegar einhver heyrir orðið um ríkið og skilur ekki þá kemur hinn vondi og rænir því sem sáð var í hjarta hans. Það sem sáð var við götuna merkir þetta. Það sem sáð var í grýtta jörð merkir þann sem tekur orðinu með fögnuði um leið og hann heyrir það en hefur enga rótfestu. Hann er hvikull og er þrenging verður eða ofsókn vegna orðsins bregst hann þegar. Það er sáð var meðal þyrna merkir þann sem heyrir orðið en áhyggjur heimsins og tál auðæfanna kefja orðið svo það ber engan ávöxt. En það er sáð var í góða jörð merkir þann sem heyrir orðið og skilur það. Hann er sá sem ber ávöxt og gefur af sér hundraðfalt, sextugfalt eða þrítugfalt.“

 

Biblían flytur okkur boðskapinn um Guðs ríkið.  Það er í Biblíunni sem við mætum Jesú, kynnumst Guði.  Við tölum um Biblíuna sem Guðs orð. Við vitum að Biblían var samt rituð af mönnum.  Ólíkum mönnum sem uppi voru á ólíkum tímum enda er Biblían samansafn bóka sem spannar meira en 1500 ára tímabil.  Biblían er útbreiddasta bók veraldar og engin bók hefur haft eins mikil áhrif í heiminum og Biblían.  Margir hafa reynslu af því að upplifa einhvern undraverðan kraft í orðum Biblíunnar.  Eins og orðið tali sérstaklega inn í aðstæður okkar á ólíkum tímum á lífsleiðinni.  Það er vissulega áhyggjuefni að almenn þekking á Biblíusögunum fer þverrandi og væri alveg þess virði að snúa þeirri þróun við.  Biblían er uppspretta andlegar auðæva, listamenn hafa fengið innblástur úr henni til hverskyns listrænnar tjáningar um aldir.  En hver er rauði þráðurinn í gegnum Biblíuna?  Jú, fyrst og fremst sá að Guð elskar mannkyn.  Mennirnir snúa baki við Guði, Guð tekur manninn í sátt og maðurinn fylgir Guði. Síðan endurtekur þetta sig.  Marteinn Lúther kallaði eitt tiltekið Biblíuvers, Litlu Biblíuna.  Það eru orðin í 3. Kafla Jóhannesarguðspjalls sem hljóða þannig:  „Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir, glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“  Hér er talað um eilífa lífið.  Hvað er það?  Jóhannes Guðspjallamaður skrifar í 17. kaflanum í fyrirbæn Jesú:  „En það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“

Séra Sigurður Grétar Sigurðsson

Hillsong færir okkur lofgjörðarlag vikunnar, How Great is Our God: https://www.youtube.com/watch?v=5FS-AR8peTY

Heyrið þetta, þér sem troðið fátæklingana niður
og gerið út af við þurfamenn í landinu.
Þér sem spyrjið: „Hvenær tekur tunglkomuhátíðin enda
svo að vér getum haldið áfram að selja korn?
Hvenær líður hvíldardagurinn hjá?
Vér viljum geta opnað kornhlöðurnar.
Vér ætlum að minnka kornmálið, hækka verðið og falsa vogina.
Þá getum vér keypt hina umkomulausu fyrir silfur
og fátæklinginn fyrir eina ilskó.
Það er úrgangskorn sem vér seljum.“
Drottinn hefur svarið við stolt Jakobs:
Aldrei nokkru sinni mun ég gleyma verkum þeirra.

Sá sem er trúr í því smæsta er einnig trúr í miklu og sá sem er ótrúr í því smæsta er og ótrúr í miklu. Ef ekki er hægt að treysta yður fyrir hverfulum auðæfum, hver trúir yður þá fyrir sönnum auði? Og ef ekki er hægt að treysta yður fyrir eigum annarra, hvernig getur Guð þá treyst yður fyrir því sem hann ætlar yður að eiga sjálf? Enginn þjónn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.“

Eitt sinn voruð þið myrkur en nú eruð þið ljós í Drottni. Hegðið ykkur því eins og börn ljóssins. – Því að ávöxtur ljóssins er einskær góðvild, réttlæti og sannleikur. – Metið rétt hvað Drottni þóknast. Eigið engan hlut í verkum myrkursins, sem ekkert gott hlýst af, heldur flettið miklu fremur ofan af þeim. Því að það sem slíkir menn fremja í leyndum er jafnvel svívirðilegt um að tala. En allt það sem ljósið afhjúpar verður augljóst. Því að allt sem er augljóst er í ljósi.
Því segir svo:
Vakna þú sem sefur
og rís upp frá dauðum
og þá mun Kristur lýsa þér.