Kristur er í margra huga tákn friðar og elsku, umhyggju og fórnar. En hann var líka róttækur „byltingarmaður“ sem skar sig rækilega úr fjöldanum, svo rækilega að hann varð að lokum handtekinn af yfirvöldum, dæmdur og deyddur af þeim sem valdið höfðu og beittu því óspart.

Það er erfitt að ferðast aftur í tímann nema þá í huganum og þá er hægt að velta því fyrir sér hvað þau sem gengu með Jesú upplifðu. Þau sem voru með honum sáu hann handtekinn, fylgdust með þegar hann var dæmdur, sáu píslargöngu hans, þegar hann helsærður bar þungan kross um götur Jerúsalem og upp á Golgata þar sem hann var píndur, hæddur og negldur á kross þar sem hann dó.

En svo frétti fólkið hans Jesú að hann væri upprisinn! Og þau sáu hann öll, konurnar í lífi hans sem þekktu hann svo vel, postularnir og síðar meir hópur sem taldi 500 manns á einum og sama stað. Og nú heyrum við einu sinni enn frásögn þess efnis að jesú sé upprisinn 40 dögum eftir páska.

Ótrúlegt! En svona var það nú samt. Og þetta fólk lagði allt í sölurnar fyrir Krist. Þau gátu ekki þagað yfir því sem þau höfðu séð og upplifað. Og dagarnir liðu, boðskapurinn breiddist út. Flest urðu þau að gjalda fyrir vitnisburð sinn með lífinu. Svo dýrmætur var boðskapurinn að þau kostuðu öllu til svo að hann bærist út um heimsbyggðina.

Og enn er talað um Jesú, um hann sem breytti heiminum og sneri flestu á hvolf í samtíð sinni. Jesús talar ekki bara um réttlæti og sannleika sem eru hugtök sem oft heyrast í samtímanum heldur bætir hann við þriðja orðinu og setur það reyndar fremst í setninguna: góðvild eða kærleikur!

Jesús er uppstiginn til himna. Við getum leyft rödd hans að móta líf okkar og breytni. Þá mun okkur farnast vel.

Við berum enn út fréttina og nú höfum við alla miðla samtímans til að gera það, til að breyða út orð Drottins. Ótrúleg orð um það sem kynslóðirnar hafa sannreynt að eru sönn orð. Hann situr við hægri hönd Föðurins, segir í textanum, en það merkir að Hann ríkir með Föðurnum.

Séra Fritz Már Jörgensson

Lofgjörðarlag vikunnar er Give you my heart með Hillsong. Við sem elskum Jesú gefum honum hjarta okkar alla daga. https://www.youtube.com/watch?v=mZGzu6oI9b4

Þú hefur gert vel til þjóns þíns
eftir orði þínu, Drottinn.
Veit mér dómgreind og þekkingu
því að ég treysti boðum þínum.
Áður en ég varð auðmjúkur villtist ég
en nú varðveiti ég orð þitt.
Þú ert góður og gerir vel,
kenn mér lög þín.
Hrokafullir spinna upp lygar gegn mér
en ég fylgi boðum þínum af öllu hjarta.
Hjarta þeirra er sljótt og feitt
en ég hef yndi af lögmáli þínu.
Það varð mér til góðs að ég var beygður
svo að ég gæti lært lög þín.
Lögmálið úr munni þínum er mér mætara
en þúsundir skildinga úr silfri og gulli.

En nú skuluð þið segja skilið við allt þetta: reiði, bræði, vonsku, lastmæli, svívirðilegt orðbragð. Ljúgið ekki hvert að öðru því þið hafið afklæðst hinum gamla manni með gjörðum hans og íklæðst hinum nýja sem Guð er að skapa að nýju í sinni mynd til þess að þið fáið gjörþekkt hann. Þar er hvorki grískur maður né Gyðingur, umskorinn né óumskorinn, útlendingur, Skýti, þræll né frjáls maður, þar er Kristur allt og í öllum.

Ef heimurinn hatar yður þá vitið að hann hefur hatað mig fyrr en yður. Væruð þér af heiminum mundi heimurinn elska sína. Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum heldur hef ég útvalið yður úr heiminum. Minnist orðanna sem ég sagði við yður: Þjónn er ekki meiri en herra hans. Hafi menn ofsótt mig þá munu þeir líka ofsækja yður. Hafi þeir varðveitt orð mitt munu þeir líka varðveita yðar. En allt þetta munu þeir yður gera vegna nafns míns af því að þeir þekkja eigi þann sem sendi mig. Hefði ég ekki komið og talað til þeirra væru þeir ekki sekir um synd. En nú hafa þeir ekkert til afsökunar synd sinni. Sá sem hatar mig hatar og föður minn. Hefði ég ekki unnið meðal þeirra þau verk sem enginn annar hefur gert væru þeir ekki sekir um synd. En nú hafa þeir séð þau og hata þó bæði mig og föður minn. Svo hlaut að rætast orðið sem ritað er í lögmáli þeirra: Þeir hötuðu mig án saka.