Einhver blessunarríkustu orð sem Jesús hefur komið til okkar eru þessi:

„ Sjá, ég er með yður alla daga, allt til enda veraldar”.

Í hvert sinn sem við horfum á lítið ómálga barn borið til skírnarlaugarinnar minnumst við þessara orða og meðtökum um leið og göngumst við köllun okkar sem kristinna einstaklinga um að boða áfram fagnaðarerindi trúarinnar. Þessari köllun er erfitt að líta fram hjá og er okkur ljúft og skylt að sinna. En af hverju? Hvað kallar okkur til þess að boða fagnaðarerindið áfram ?

Svarið er, lífið sjálft. Hin helga sköpun.

 

Þegar ævi okkar hefst , ljúkum við upp augunum og horfum til þessa stóra heims. Við mætum inn í hann organdi, þreytt eftir jafnvel langa baráttu fæðingarhríðanna. Ferli sem undirbýr okkur og gerir okkur styrk fyrir lífsbaráttuna framundan. Við finnum fyrir því að við erum elskuð og hjörtu foreldra okkar eru jafnvel eilítið óttaslegin um framhaldið og við hlustum á þau biðja Guð um að standa við loforð sitt. Loforðið um að rita nafn okkar í lífsins bók og víkja aldrei frá okkur. Okkur eru kenndar bænir og amma signir yfir mallakút áður en hún klæðir í hrein föt, eftir gott bað.

 

Undur sköpunarinnar og fegurð hennar lítum við í augum barnsins, sakleysi þess og brosi.

 

Hvert æviskeið hefur sínar þroskabrautir og við leitumst við að ná fjölbreyttum markmiðum. Við skilgreinum allra jafna virði lífsins af þeim árangri sem mótar framgöngu okkar og sjálfsmynd. Við leitum hamingjunnar og keppumst eðlilega við að halda heilsu, hafa stöðuga afkomu, mennta okkur, hafa eftirsóknarverða atvinnu ásamt því að vilja öðlast þroska af öllum þessum stöðugu samskiptum sem við eigum í alla daga. Undur tilfinningarófsins er hluti af kraftaverki þess að vera til. Hið innra líf og verkefni þess að skapa því stöðugleika. Við leitum stöðugt hamingjunnar og það kemur fyrir að við þvælumst um ósköp týnd í eigin heimi. Þjáningin er óumflýjanlegt verkefni sem stundum setur mark sitt á okkur og þá jafnvel ennfremur tilfinning sektar eða skammar. Í því ástandi eru litir sköpunarverksins huldir okkur og við einangrumst. Finnum okkur annað hvort yfirgefin og óttaslegin eða í vörn. Erum fórnarlömb þess sem við teljum til örlaga okkar og sjáum ekki út úr erfiðleikunum og finnum til máttleysis.

 

Þá koma til okkar þessi orð frelsarans: „ Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar”, og færa okkur undur fagnaðarerindisins – vonina sem er samofin heilögu sambandi okkar við Guð.  Sambandi sem einkennist af uppbyggjandi samskiptum er byggja á sameiginlegri vitund og skilning á gildum gagnkvæmrar virðingar, kærleika, trausts, fyrirgefningar og frelsis. Sambandi sem minnir okkur á það hvernig öll eðlileg samskipti eiga að vera.

 

Í þeim er fólgið heilagt loforð hans til okkar sem segir okkur að við tökumst aldrei á við verkefni lífsins ein. Faðmur Guðs er alltaf opinn og hann kallar okkur til sín vegna elsku sinnar og vilja til þess að við finnum til öryggis, heilunar og gleði. Hann minnir okkur á styrk sinn og segir: „Allt vald er mér gefið”, eða með öðrum orðum, hvort sem í lífi eða dauða, stend ég með þér.

„Fylg þú mér”.

Séra Erla Björk Jónsdóttir

En nú segir Drottinn svo,
sá sem skóp þig, Jakob,
og myndaði þig, Ísrael:
Óttast þú ekki því að ég frelsa þig,
ég kalla á þig með nafni,
þú ert minn.
Gangir þú gegnum vötnin
er ég með þér,
gegnum vatnsföllin,
þá flæða þau ekki yfir þig.
Gangir þú gegnum eld
skalt þú ekki brenna þig
og loginn mun ekki granda þér.
Því að ég, Drottinn, er Guð þinn,
ég, Hinn heilagi Ísraels, frelsari þinn.
Ég læt Egyptaland í lausnargjald fyrir þig,
Kús og Seba í þinn stað,
þar sem þú ert dýrmætur í augum mínum,
mikils metinn og ég elska þig.
Ég legg menn í sölurnar fyrir þig
og þjóðir fyrir líf þitt.
Óttast þú ekki
því að ég er með þér.
Ég mun flytja niðja þína úr austri
og safna þér saman úr vestri.
Ég segi við norðrið: „Slepptu þeim,“
og við suðrið: „Lát þá lausa.
Komdu með syni mína heim úr fjarlægð
og dætur mínar frá endimörkum jarðar,
sérhvern þann sem við nafn mitt er kenndur,
því að ég hef skapað hann mér til dýrðar,
myndað hann og mótað.“

Og Jesús kom til þeirra, talaði við þá og sagði: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“

Eða vitið þið ekki að við öll, sem skírð erum til Krists Jesú, erum skírð til dauða hans? Við erum því dáin og greftruð með honum í skírninni. Og eins og faðirinn vakti Krist frá dauðum með dýrðarmætti sínum, eins eigum við að lifa nýju lífi.
Fyrst við erum samgróin honum með því að deyja líkt og hann eigum við einnig að vera samgróin honum með því að rísa upp líkt og hann. Við vitum að okkar gamli maður dó með honum á krossi til þess að líkami syndarinnar yrði að engu og við værum aldrei framar þrælar syndarinnar. Dauður maður er leystur frá syndinni.
Ef við erum dáin með Kristi trúum við því að við munum og með honum lifa. Við vitum að Kristur, upp vakinn frá dauðum, deyr ekki framar. Dauðinn drottnar ekki lengur yfir honum. Með dauða sínum dó hann frá syndinni í eitt skipti fyrir öll en lífi sínu lifir hann Guði. Þannig skuluð og þið álíta sjálf ykkur vera dáin frá syndinni en lifandi Guði í Kristi Jesú.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post comment