Á Hvítasunnudag minnumst við úthellingar heilags anda og stofnunar kirkjunnar.

Jesús hafði lofað lærisveinum sínum því að skilja þá ekki eftir munaðarlausa heldur senda þeim annan hjálpara, heilagan anda.

Andinn birtist lærisveinum Jesú svo kröftuglega að menn og konur sem höfðu farið með veggjum frá lífláti Jesú, vegna hættu á að hljóta sömu örlög, stóðu þennan dag fyllt heilögum anda og boðuðu Krist upprisinn. Þann sama dag bættust þrjúþúsund manns við trúarhópinn og kristin kirkja var stofnuð. Fyrir áhrif heilags anda voru lærisveinarnir fullir djörfung í boðun sinni og reiðubúnir að láta lífið fyrir trú sína. Fyrir verk heilags anda kom þessi fámenni hópur af stað trúarbylgju sem hefur breiðst út um alla jörðina.

Í Nýja testamentinu tala postularnir og hinir trúuðu mikið og ítarlega um eigin reynslu, reynsluna af friði, fögnuði og gleði sem fylgir upplifuninni af heilögum anda.

Þessi sami andi – andi Guðs starfar enn í dag, bæði í kirkju sinni og í lífum okkar, ef við hleypum honum að. En það er ekki alltaf svo einfalt, eða hvað?

Sum okkar hafa orðið fyrir miklum áföllum, veikindum, eða missi. Sum okkar hafa verið beitt ofbeldi og órétti og sitja jafnvel eftir með skömm, sem er ekki okkar. Við eigum erfitt með að hleypa fólki að okkur og treysta. Við eigum jafnvel erfitt með að hleypa Guði að- því við vitum ekki hvort honum sé treystandi. Svo kviknar jafnvel spurningin: er ég nógu góð fyrir Guð?

Ég glímdi lengi við þetta sjálf. Ég hélt að ég þyrfti að breyta mér og bæta til að geta tekið á móti Jesú og upplifað kraft Guðs í lífi mínu. Svo áttaði ég mig loks á því að það eina sem ég þyrfti að gera væri að bjóða Jesú velkominn inn í hjarta mitt. Ef það væri eitthvað í mínu lífi eða mínu fari sem hann vildi breyta þá myndi hann gera það eða gefa mér viljann til þess – hann er jú Guð.

Ég sleppti tökunum og fann kærleika Guðs umvefja mig og fylla mig af friði og gleði. Ég upplifði nýtt frelsi, hugrekki og von.

Það er kraftur heilags anda sem vekur hjá okkur von um möguleika og trú á að hið mögulega geti orðið að veruleika.

Þetta er kraftur fagnaðarerindisins- upprisutrúin.

En þegar við höfum kynnst krafti Guðs og frelsinu sem fylgir þýðir það ekki að efinn hverfi fyrir fullt og allt. Erfið lífsreynsla og áföll sem við verðum fyrir hverfur ekki úr lífi okkar. Það má vinna úr reynslunni, reyna að ráða fram úr henni og túlka hana, en á endanum þurfum við að læra að lifa með henni. Og trúarglíman heldur áfram.

Þess vegna er samfélagið sem við eigum saman í kirkjunni svo mikilvægt. Við þurfum á hvert öðru að halda eins og Páll segir í bréfi sínu til safnaðarins í Róm: „Ég þrái að sjá ykkur til þess að geta miðlað af gjöfum andans svo að þið styrkist eða réttara sagt: Svo að við getum uppörvast saman í sömu trú, ykkar og minni.“

Eftir að heilögum anda var úthellt á hvítasunnudag stóð hverjum þeim er tók við Jesú til boða að fyllast heilögum anda og það sama gildir enn í dag.

Á hverjum degi höfum við val um að ganga með Guði og þiggja kraft og kærleika heilags anda. Á hverjum degi höfum við val um að miðla kærleika Guðs í orði og verki og vera þannig hendur og fætur Guðs á jörðinni.

Hvað ætlar þú að velja í dag?

Sr. Dís Gylfadóttir

Hversu mörg eru verk þín, Drottinn?
Þú vannst þau öll af speki.
Jörðin er full af því sem þú hefur skapað.

Öll vona þau á þig
að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma.
Þú gefur þeim og þau tína,
þú lýkur upp hendi þinni og þau mettast gæðum.
Þú byrgir auglit þitt, þá skelfast þau,
þú tekur aftur anda þeirra, þá andast þau
og hverfa aftur til moldarinnar.
Þú sendir út anda þinn, þá verða þau til
og þú endurnýjar ásjónu jarðar.

En við höfum ekki hlotið anda heimsins heldur andann sem er frá Guði, til þess að við skulum vita hvað Guð hefur gefið okkur. Enda segjum við það ekki með orðum sem mannlegur vísdómur kennir heldur með orðum sem andi Guðs kennir og útlistum andleg efni á andlegan hátt. Jarðbundinn maður hafnar því sem andi Guðs boðar, honum er það heimska. Hann getur ekki skilið það af því að andinn veitir skilninginn. En sá sem hefur andann dæmir um allt en enginn getur dæmt um hann. Því að hver hefur þekkt huga Drottins að hann geti frætt hann? En við höfum huga Krists.

Ef þér elskið mig munuð þér halda boðorð mín. Ég mun biðja föðurinn og hann mun gefa yður annan hjálpara sem verður hjá yður að eilífu, anda sannleikans. Heimurinn getur ekki tekið á móti honum því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann því hann er hjá yður og verður í yður. Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlaus. Ég kem til yðar. Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar. Þér munuð sjá mig því ég lifi og þér munuð lifa. Á þeim degi munuð þér skilja að ég er í föður mínum og þér í mér og ég í yður. Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau er sá sem elskar mig. En þann sem elskar mig mun faðir minn elska og ég mun elska hann og birta honum hver ég er.“