Davíðssálmar 8 og 90 – Sjónarhorn

Ég á góðan vin sem er í dag að ný orðinn 13 ára gamall, hann er ungur drengur sem er ekki alveg eins og við hin. Hann er lífsglaður og kátur en vill hafa hlutina í föstum skorðum. Árið 2013 hélt hann eins og venjulega upp á afmælið sitt þá að verða átta ára gamall. Því miður þá vildi svo óheppilega til að ég var lasinn þennan dag og komst ekki í afmælið hans. Það voru í sjálfu sér ekki stórtíðindi en það breytir ekki því að enn þann dag í dag eru fyrstu orðin sem hann segir þegar við hittumst þessi: Þú komst ekki í afmælið, eða af því hann speglar stundum tal: Ég kom ekki í afmælið, ég var veikur.

Ég verð enn í dag fimm árum síðar jafn hissa á að hann muni eftir þessu. Hvers vegna skyldi það vera? Ein ástæðan sem mér dettur í hug er að hann vill hafa hlutina á ákveðin hátt og ef þeir eru ekki þannig þá vantar eitthvað. Þá er það ekki eins og það á að vera. Þegar ég hugsa um textana sem ég held mikið uppá og eru í Davíðssálmum 8 og 90 þá man ég eftir því að ég komst ekki í þetta afmæli árið 2013. Því að efni þeirra er það sama. Þegar Guð horfir á heiminn þá sér hann bæði hið stóra og smáa. Hann sér þrátt fyrir allar veglengdirnar og þrátt fyrir allan tíman, hlut okkar í tilverunni og ef einhvern einn vantar þá er ekki allt eins og það á að vera.

Ég hef mikið dálæti á þessum sálmum. Áttundi Davíðssálmur er sköpunarsálmur og sá nítugasti er sá sem þjóðsöngurinn okkar er ortur út frá.

Í áttunda segir höfundur að við séum ansi lítil í samanburði við sköpunin alla. Við hliðina á fjöllum og dölum, stjörnum og ljósblikum séum við harla smá. Í nítugasta sálmi segir höfundur að við séum líka smá í tíma miðað við sjálfa eilífðina.

En báðir segja þeir þó að þrátt fyrir það séum við mikilvæg og Guð hafi ætlað okkur hlutverk. Í áttunda sálmi erum við gerð ábyrg fyrir jörðinni og í nítugasta biður sálmahöfundur Guð að hjálpa sér með orðunum; Kenn oss að telja daga vora svo við getum öðlast viturt hjarta. Bæn um að muna að tími okkar er ekki endalaus og því þurfum við viturt hjarta. Ætli við getum ekki mörg tekið undir þá bæn sem mætti draga saman svona; kenndu mér góði Guð að verja tíma í stað þess að eyða honum.

Það er fagnaðarerindi þessa texta að þó við séum ekki stór miðað við sköpunina hvorki í tíma né rúmi þá skiptum við máli, Guð tekur eftir okkur. Hann ætlar okkur hlutverk í sköpunarverkinu, hlutverk sem skiptir máli. Hann man og sér hvort við mætum í átta ára afmæli, vegna þess að án okkar hvers og eins er ekki allt eins og það á að vera.

Sr. Sigfús Kristjánsson

Hinir endurkeyptu Drottins snúa aftur
og koma fagnandi til Síonar.
Eilíf gleði fer fyrir þeim,
fögnuður og gleði fylgir þeim,
en sorg og sút leggja á flótta.
Ég hugga yður, ég sjálfur.
Hver ert þú þá sem óttast dauðlega menn
og mannanna börn sem falla sem grasið
en gleymir Drottni, skapara þínum,
sem þandi út himininn og lagði grunn að jörðinni?
Þú óttast heift kúgarans sérhvern dag,
að hann ákveði að eyða þér.
En hvar er þá heift kúgarans?
Brátt verður bandinginn leystur,
hann mun ekki deyja í dýflissu
og ekki skorta brauð.
Ég er Drottinn, Guð þinn,
sá sem æsir hafið svo að brimið gnýr.
Drottinn allsherjar er nafn hans.
Ég lagði þér orð mín í munn,
skýldi þér í skugga handar minnar,
þegar ég þandi út himininn,
grundvallaði jörðina
og sagði við Síon: Þú ert lýður minn.

Að lokum: Styrkist í Drottni og krafti máttar hans. Klæðist alvæpni Guðs til þess að þið getið staðist vélabrögð djöfulsins. Því að baráttan sem við eigum í er ekki við menn af holdi og blóði heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum. Takið því alvæpni Guðs til þess að þið getið veitt mótstöðu á hinum vonda degi og haldið velli þegar þið hafið sigrað allt.
Standið því gyrt sannleika um lendar ykkar og klædd réttlætinu sem brynju og skóuð á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðin um frið. Takið umfram allt skjöld trúarinnar sem þið getið slökkt með öll logandi skeyti hins vonda. Setjið upp hjálm hjálpræðisins og grípið sverð andans, Guðs orð.

Nú kom Jesús aftur til Kana í Galíleu þar sem hann hafði gert vatn að víni. Í Kapernaúm var konungsmaður nokkur sem átti sjúkan son. Þegar hann frétti að Jesús væri kominn frá Júdeu til Galíleu fór hann til hans og bað hann að koma niður eftir og lækna son sinn. En hann var dauðvona. Þá sagði Jesús við hann: „Þið trúið ekki nema þið sjáið tákn og stórmerki.“
Konungsmaður bað hann: „Drottinn, kom þú áður en barnið mitt andast.“
Jesús svaraði: „Far þú, sonur þinn lifir.“
Maðurinn trúði því sem Jesús sagði við hann og fór af stað. En meðan hann var á leiðinni ofan eftir mættu honum þjónar hans og sögðu að sonur hans væri á lífi.
Hann spurði þá hvenær honum hefði farið að létta og þeir svöruðu: „Í gær upp úr hádegi fór hitinn úr honum.“ Þá sá faðirinn að það var á þeirri stundu þegar Jesús hafði sagt við hann: „Sonur þinn lifir.“ Og hann tók trú og allt hans heimafólk.