Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen

Hefur þú heyrt rödd Guðs nýlega? Væntanlega svarar þú. Uh…neeei. Eða eins og eitt fermingarbarnið spurði í haust – hvers vegna talaði Guð við fólkið í gamla daga en ekkert heyrirst í honum í dag?

Því er til að svara að Guð er alltaf að tala við okkur.  Spurningin er hvort við heyrum raust hans?   Hvernig heyrum við raust Guðs?

Þarf sérstaka þjálfun til þess?

Þarf að fara í fimm ára háskólanám til þess að læra að nema raust hans?

Auðvitað ekki.

Hvernig hljómar rödd Guðs. Upp í huga minn kemur mynd af því þegar ég geng stífluhringinn og hlusta og Leonard Choen eða Antony and Johnson, en báðir hafa haldið eftirminnilega tónleika í Laugardagshöll annar fyrir alltof mörgum árum og hinn sem hélt eftirminnilega tónleika í Fríkirkjunni um árið. Á báðum þessum tónleikum var sem rödd Guðs ávarpaði mig og ég komst við. Þar sem ég er á stíflu röltinu heyrist: „Sæll, Guð hérna, afsakaðu mig“ (Guð er nefnilega kurteis) og hann/hún fer að segja hvaða og hvernig ég eigi að lifa lífinu.

Auðvitað gerist það ekki þannig!

Hvernig gerist það þá?

Er hægt að fá svar við því á mannamáli, kann einhver að spyrja og öðrum getur ekki verið meira sama. Það er hægt að byrja á því að spyrja sig:

Hvað situr í huganum í lok dags?

Kannski fátt og ekkert sem skiptir máli?

Kannski ertu ekkert að velta því fyrir þér, hefur um nóg annað að hugsa?

 

Fyrir nokkrum árum síðan sá ég heimildarmynd sem heitir „Skuggabörn” þar skynjaði maður þessa þrá að fara eitthvað annað – það að fara eitthvað annað var í byrjun að „prófa” sú prófun leiddi til veruleika myrkurs og skugga.  Manneskjurnar voru aftur-göngur af sjálfum sér – sem skuggamynd á sléttu og felldu yfirborði samfélags okkar. Veröldin sem skilur á milli þessa heima er eins og þunnt léreft sem sést í gegnum. Við sjáum þessa skuggaveröld en við viljum ekki koma að og eða rífa á milli þessa veruleika tveggja heima. Við gerum það ekki því að við erum óttaslegin. Orðin sem þar voru sögð boruðu sig inn í hugann og komu sér þar óþægilega fyrir. Þetta voru engin skuggabörn – þetta var fólk sem vildi ekkert heitar en að lifa „venjulegu” lífi. Orðin voru sögð og þeim var trúað því það var ekki hlustað á sinn innri mann sem veit betur, því Guð talar til sérhvers okkar þeirri tungu sem við skiljum.

Það er eitt að heyra orðin og annað að trúa þeim. Í guðspjallstextanum sem hægt er að lesa hér að neðan kemur þetta fyrir „að heyra orðin er eitt og annað að trúa þeim.“

Við sem erum uppalendur erum sífellt með einhvern boðskap á vörum sem við ætlum börnum okkar að trúa. „Þegar ég var á þínum aldri” gerðum við ekki þetta og eða hitt og hlustuðum á þennan og þessa. Ungmennum í dag getur ekki verið meira slétt sama. Þau hlusta á Emmsjé Gauta, Herra Hnetusmjör, Blaz Roca, Dabba T, svo einhverjir séu nefndir og það sem meira er að þau trúa þeim orðum sem þar eru sögð. Því orðin eru lögð inn í veröld sem þau þekkja og vilja kenna sig við þannig er það á öllum tímum. Nýjar stjörnur koma og eigna sér orðið og boðskapinn.

Orð eru til alls fyrst og síðan kemur það hvort þau séu hol að innan eða fyllt einhverri merkingu eða eiga sér einnar stundar stað í huga. Svo er því miður alltof oft að orð sem sögð eru eiga sér ekki innistæðu. Það er ekki nýtt að svo sé. Það á sér stað og tíma á öllum tímum. Ef eitthvað er þá er mun erfiðara í dag að greina á milli þess sem sagt er og þess hvort að eitthvað er á bak við það sem sagt er. Þrátt fyrir allt eins og netið og fréttaveitur frá morgni til kvölds eins og reyndin er orðin hjá okkur þá er fólk almennt óupplýstara um veruleika sinn og næsta nágrenni og það sem dvelst fyrir utan girðingu hugans. Það er löngu búið að rífa niður þessa girðingu með fésbókinni, Snappinu, veffjölmiðlum sem gerir okkur kleyft að hlusta og til þess að gera, horfa á atburði langt frá okkur í beinni.

Það er kannski auðvelt að setja guðspjallsorðin, í samhengi við nútímanninn. Auðvelt vegna þess að þarna er komið inn á ótta mannsins.  Dauðann, dóminn og lífið og við viljum ekki hlusta.  Það er ekkert meira sem fær manneskjuna þrátt fyrir alla tækni og framfarir nútímans að fá hana til að hlusta á þessi orð og velta fyrir sér hvað hafa þau segja og eða á hvern hátt tala þau inn okkar daglega líf. Við erum ekkert öðruvísi en sá eða sú sem var uppi fyrir einhverjum öldum síðan nema að því leitinu til að við erum mun upplýstari um gang mála heima og heiman. Á sama tíma svo vanmáttug að meðtaka og skilja að þær upplýsingar sem að okkur streyma að okkur fallast hendur og eina ráðið er að slökkva á sjálfum sér og reyna eftir mætti að hlusta á kyrrðina sem ber með sér annarskonar upplýsingar en þær sem matreiddar hafa verið og fluttar í gegnum rafrásir og ósýnilegar bylgjur. Þær þurfa ekki að vera fagrar en mikilvægar hverjum þeim sem á hlýðir. Orðaflaumur samtímans kann að vera mikill og hágvær og láta mikið fyrir sér fara. Það er ekki sama – sem merki á milli þessa og að hætta að trúa á gildi orðsins. Hversu mjög það kann að færa okkur í kaf í okkar eigin vitund og finnst við ekki ná andanum. Þá þurfum við ekki hafa áhyggjur ef við höfum hreina samvisku gagnvart okkur sjálfum og nágunganum. Þeim sem okkur eru nærri, þeim sem fjarri standa.

Leggjum við hlustir því Guð talar við okkur á hverjum einasta degi. Leggjum eyru að því sem er fagurt. Eins og það að fermingarbörnin hér og víða um land í byrjun mánaðar lánuðu fætur sína þeim til handa sem minna mega sín. En það var og er ekki frétt. Þrátt fyrir það skulum við gegnum orðaflaum og hávaða nútímans skynja návist hans. Hvað var það sem fékk ungmenninn til að ganga í hús í skítakulda og safna pening fyrir einhverja sem þau hafa aldrei séð eða hitt en gerðu það samt og voru glöð með að gera. Kann það að vera að rödd að ofan og innra með þeim hafi hvíslað í huga þeirra orðum sem hvöttu þau að sleppa íþróttaæfingu eða leika sér í tölvunni eina stund og rúmlega það?

Hver veit?

 Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda.  Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda.  Amen

Takið postullegri blessun:

Náð Drottins vors Jesú Krists, kærleii Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum.  Amen

Sr. Þór Hauksson

Maður, af konu fæddur,
lifir fáa ævidaga, fulla af eirðarleysi.
Hann vex eins og blóm og visnar,
hverfur sem hvikull skuggi.
Samt hefurðu á honum vakandi auga
og kallar hann fyrir dóm þinn.
Hver getur leitt hreint af óhreinu?
Ekki nokkur maður.
Hafi ævidagar hans verið ákvarðaðir
og tala mánaða hans ákveðin af þér,
hafirðu sett honum mörk sem hann kemst ekki yfir,
líttu þá af honum svo að hann fái hvíld
og geti glaðst yfir degi sínum eins og daglaunamaður.

En þetta eitt má ykkur ekki gleymast, þið elskuðu, að einn dagur er hjá Drottni sem þúsund ár og þúsund ár sem einn dagur. Ekki er Drottinn seinn á sér með fyrirheitið þótt sumir álíti það seinlæti, heldur er hann langlyndur við ykkur þar eð hann vill ekki að neinn glatist heldur að allir komist til iðrunar.
En dagur Drottins mun koma sem þjófur og þá munu himnarnir líða undir lok með miklum gný, frumefnin sundurleysast í brennandi hita og jörðin og þau verk, sem á henni eru, upp brenna. Þar eð allt þetta ferst, þannig ber ykkur að lifa heilögu og guðrækilegu lífi og bíða eftir degi Guðs og flýta fyrir að hann komi. Þá munu himnarnir leysast sundur í eldi og frumefnin bráðna af brennandi hita. En eftir fyrirheiti hans væntum við nýs himins og nýrrar jarðar þar sem réttlæti býr.

Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim sem sendi mig hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms heldur er hann stiginn yfir frá dauðanum til lífsins. Sannlega, sannlega segi ég yður: Sú stund kemur og er þegar komin að hinir dauðu munu heyra raust Guðs sonarins og þeir sem heyra munu lifa. Eins og faðirinn hefur líf í sjálfum sér þannig hefur hann og veitt syninum að hafa líf í sjálfum sér. Og hann hefur veitt honum vald til að halda dóm því að hann er Mannssonur.