„Sælir eru syrgjendur því þeir munu huggaðir verða.” (Mt. 5)
Lífið er breytingum háð. Breytingar eru fólki oft og tíðum álag. Jafnvel miklar gleðistundir geta gjörsamlega riðlað lífsmynstri og valdið þó nokkrum harmi. Það að vinna háar fjárhæðir í lottói vegur víst hátt á áfallaskalanum og ófáir hafa átt erfitt með að ná valdi á þeim snöggu umskiptum sem verða við það í tilvistinni. Stundum þarf nánast ekkert til að hafa áhrif á lífsmynstur þitt, jafnvel bara það að eftirlætis verslunin þín loki getur skapað vissa ringulreið.
Við getum haldið áfram að telja upp eins og árstíðaskipti sem eiga það til að fara skakkt í sálir án þess að þær átti sig almennilega á því. Aldursbreytingar þjaka ófáa en það eru t.d. breytingar sem gerast mishægt eða mishratt hjá fólki. Þá getur hinn svokallaði grái fiðringur verið lúmskur þegar menn og konur tjúllast eilítið vegna þess að þeim finnst tíminn hreinlega vera að hlaupa frá sér og að þau eigi svo margt ógert.
Þetta eru hins vegar þættir sem eru hjóm eitt í samanburði við þær afar snöggu og snúnu breytingar á lífssviðinu sem t.d. ástvinamissir, skilnaður, atvinnumissir og fleira í þeim dúr er og verða. Vissulega er það ávallt persónubundið hvernig við tökumst á við slíkt, hvers eðlis tengsl okkar t.d. við látinn ástvin hafa verið, hvernig hjónband okkar var orðið, var það leiði, var það ofbeldi, var það hjúskaparbrot og svo hvernig við síðan misstum vinnuna, voru það samskiptaörðugleikar, lokaði vinnustaðurinn eða var það beinlínis óánægja með mín störf?
Sannarlega hafa aðstæður og tilurð hlutanna áhrif á sorgarferli, en það er samt sem áður alltaf sorgarferli og ber að virða sem slíkt. Eitt það óheppilegasta sem hægt er að segja við manneskju sem hefur áþreifanlega þurft að horfast í augu við hið breytta svið tilverunnar er á þá leið að allt verði nú í lagi og að hlutirnir muni nú örugglega lagast með tímanum. Fyrir það fyrsta er barasta ekkert víst að hlutirnir lagist með tímanum vegna þess að þú hefur ekki forsendur né neinar mótaðar hugmyndir um hvernig viðkomandi komi til með að mæta breyttum veruleika í lífi sínu.
Við teljum okkur kannski þekkja fólk vel, en skjótar breytingar í lífinu, áföll, sorg, kalla fram þætti í fari syrgjenda sem við höfum jafnvel aldrei kynnst áður, margt getur komið fram sem við héldum að þeir ættu alls ekki til. Það er einmitt þess vegna sem það veldur óöryggi hjá okkur að mæta syrgjanda og ófáir veigra sig hreinlega við því, vernda sig gegn því. Við gerum okkur heldur ekki alltaf grein fyrir þeim breytingum sem eiga sér jafnframt stað í fari okkar aðstandenda gagnvart syrgjandanum, og sjálfsagt skynjar hann þær miklu betur en við sjálf. Eitt er víst að þetta má þó ekki verða til þess að við förum að sniðganga syrgjendur því þeir þurfa sjaldnast eins mikið á okkur að halda eins og einmitt á sorgarstundunum. Bara nærvera þín er svo aðkallandi.
Þá megum við vita að sorginni fylgir ótrúlegt afl, hún getur þjappað saman heilu byggðarlagi, heillri þjóð svo hún verði að einni sál en hún getur líka hæglega sundrað, gert manneskjur fjarlægari hverri annarri rétt eins og þegar við efumst um Guð á erfiðum stundum og verðum fjarlæg Honum. Þess vegna skiptir það miklu máli að við tökum mark á áhrifum sorgar og áfalla og leggjum okkur þar fram um að skilja hvert annað, það gerist með því að tala, tala um líðan sína, vilja og viðhorf, tala um atburði, en umfram allt hlusta og virða bæði hið breytta svið í eigin líf sem annarra.
Séra Bolli Pétur Bollason
Þannig blessaði guðsmaðurinn Móse Ísraelsmenn áður en hann dó:
Drottinn kom frá Sínaí,
hann lýsti þeim frá Seír,
ljómaði frá Paranfjöllum.
Hann steig fram úr flokki þúsunda heilagra,
á hægri hönd honum brann eldur lögmálsins.
Þú sem elskar þjóðirnar,
allir þeirra heilögu eru í hendi þinni.
Þeir hafa fallið þér til fóta,
rísa á fætur er þú skipar.
Einn af öldungunum tók þá til máls og sagði við mig: „Hverjir eru þessir menn sem skrýddir eru hvítum skikkjum og hvaðan eru þeir komnir?“
Og ég sagði við hann: „Herra minn, þú veist það.“
Hann sagði við mig: „Þetta eru þeir sem komnir eru úr þrengingunni miklu og hafa hvítþvegið skikkjur sínar í blóði lambsins. Þess vegna eru þeir frammi fyrir hásæti Guðs og þjóna honum dag og nótt í musteri hans og sá sem í hásætinu situr mun búa hjá þeim. Þá mun hvorki hungra né þyrsta framar og eigi mun heldur sól brenna þá né nokkur breyskja vinna þeim mein. Því að lambið, sem er fyrir miðju hásætinu, mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra.“
Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.
Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.