Kveikt er ljós við ljós,
burt er sortans svið.
Angar rós við rós,
opnast himins hlið.
Niður stjörnum stráð,
Engill framhjá fer.
Drottins nægð og náð
boðin alþjóð er.

Stefán frá Hvítadal

Aðventan markar upphaf að nýju kirkjuári og fyrstu fjórar vikur kirkjuárisns hugum við að og beinum sjónum okkar að komu hátíðarinnar miklu, jólanna. Orðið aðventa er dregið af latneska orðinu adventus Domini sem merkir; koma Drottins.

Við bíðum komu Drottins tími aðventunnar er undirbúningstími við undirbúum okkur fyrir komu frelsarans. Við skreytum með ljósum, jóladúkum og jólagardínum tökum upp jólaskraut sem hefur kannski fylgt okkur frá jólum bernskunnar og kallar fram blendnar tilfinningar, gleði og sorg.

Aðventan er tími vonar og við væntum þess að aðventan og jólin færi okkur frið í hjarta. Aðventan lætur engan ósnortin kemur bara eins með andardrættinum  Hún er margslungin það er eins og allt mætist í henni í senn, hið liðna sem endurspeglast í minningum og hefðum. Alls konar tilfinningar gera vart við sig, sorg og söknuður, gleði, friður, þakklæti eða þetta allt í bland því lífið er ekki einfalt. Hefur þó með það að gera hvernig lífið hefur leikið okkur eins og sagt er. Hvernig okkur hefur til tekist að mæta því lífi og hvert það hefur leitt okkur hvert og eitt. Þetta er tími til að horfa inn á við, tími til að skapa nýtt, tími umbreytingar, tími þar sem varnir okkar falla og það glittir inn í kvikuna þar sem Guð hefur lagt ljós sitt sem er líf okkar mannanna. Við það opnast leið til að brjóta múra sem hafa byggst upp innra með okkur jafnvel allt frá bernsku okkar og hindra okkur kannski í því að gefa, þiggja og njóta augnabliki daganna.

Á aðventu er gott að staldra við og vera vakandi fyrir því hvaða tilfinningar láta á sér kræla, taka á móti þeim óhrædd leysa þær upp og sjá hvað þær bera með sér.

Við eigum líka góðar minningar og það er gott að sækja í minningar sem hafa snert okkur á jákvæðan og góðan hátt og leyfa þeim að næra huga og hjarta. Boðskapur jólanna berst frá barninu í Betlehem og berst frá hjarta til hjarta. Friður, kærleikur og sátt byrjar í hjarta þínu.

Aðventuljósin og aðventukransinn er í raun bæn og vitna um ljósið frá jötunni

Guð er eilíf ást,
engu hjarta’ er hætt.
Ríkir eilíf ást,
sérhvert böl skal bætt.
Lofið Guð, sem gaf,
þakkið hjálp og hlíf.
Tæmt er húmsins haf,
allt er ljós og líf.

Sr. Elínborg Gísladóttir

Eyðimörkin og skrælnað landið gleðjist,
öræfin fagni og blómstri.
Eins og dverglilja skal hún blómgast,
gleðjast, gleðjast og fagna.
Vegsemd Líbanons veitist henni,
skart Karmels og Sarons.
Menn munu sjá dýrð Drottins og vegsemd Guðs vors.
Styrkið máttvana hendur,
styðjið magnþrota hné,
segið við þá sem brestur kjark:
„Verið hughraustir, óttist ekki,
sjáið, hér er Guð yðar, hefndin kemur,
endurgjald frá Guði,
hann kemur sjálfur og bjargar yður.“
Þá munu augu blindra ljúkast upp
og eyru daufra opnast.
Þá stekkur hinn halti sem hjörtur
og tunga hins mállausa fagnar.
Já, vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni
og lækir í auðninni.
Glóandi sandurinn verður að tjörn
og þyrst jörðin að uppsprettum.
Þar sem sjakalar höfðust við áður
sprettur stör, reyr og sef.
Þar verður breið braut
sem skal heita Brautin helga.
Enginn óhreinn má hana ganga
því að hún er ætluð lýð Guðs að fara um
og heimskingjar munu ekki villast þar.
Þar verður ekkert ljón,
ekkert glefsandi rándýr fer þar um,
þar verður þau ekki að finna.
Þar munu aðeins endurleystir ganga.
Hinir endurkeyptu Drottins hverfa aftur
og koma fagnandi til Síonar,
eilíf gleði fer fyrir þeim,
fögnuður og gleði fylgja þeim
en sorg og mæða flýja.

Varpið því eigi frá ykkur djörfung ykkar. Hún mun hljóta mikla umbun. Þolgæðis hafið þið þörf, til þess að þið gerið Guðs vilja og öðlist fyrirheitið. Því að:
Innan harla skamms tíma
mun sá koma sem koma á og ekki dvelst honum.

Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða.
En þann dag eða stund veit enginn, hvorki englar á himni né sonurinn, enginn nema faðirinn. Gætið yðar, vakið! Þér vitið ekki nær tíminn er kominn. Svo er þetta sem maður fari úr landi, skilji við hús sitt og feli þjónum sínum umráðin, hverjum sitt verk. Dyraverðinum býður hann að vaka. Vakið því, þér vitið ekki nær húsbóndinn kemur, að kveldi, á miðnætti, í óttu eða dögun. Látið hann ekki finna yður sofandi þegar hann kemur allt í einu. Það sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið!“