23 Davíðssálmur er á þessa leið.

Drottinn er minn hirðir,

mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum lætur hann mig hvílast,

leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta. [

Hann hressir sál mína,

leiðir mig um rétta vegu

fyrir sakir nafns síns.

Þótt ég fari um dimman dal

óttast ég ekkert illt

því að þú ert hjá mér,

sproti þinn og stafur hugga mig.

Þú býrð mér borð

frammi fyrir fjendum mínum,

þú smyrð höfuð mitt með olíu,

bikar minn er barmafullur.

Gæfa og náð fylgja mér

alla ævidaga mína

og í húsi Drottins

bý ég langa ævi.

 

Þessi þekkti Davíðssálmur hefur í gegnum aldir veitt huggun inn í óvissutíma, gefið von og hvatningu um að halda áfram.  Í sálminum finnum við djúpa umhyggju Drottins fyrir okkur mönnunum hvort sem vel gengur eða illa í lífinu.  Sálmurinn bregður upp mynd af einhverjum stað, einhverjum veruleika sem veitir sálinni hvíld og frið.  “Á grænum grundum lætur hann mig hvílast”.  Í sálminum er heitið handleiðslu, þar sem Drottinn leiðir sauðina sína, þar sem þeir geta hvílt í öryggi og trausti þess að um þá sé hugsað, þeir gleymist ekki.  Það er s.s. ekki gefið neitt loforð um áhyggjulaust líf eða líf án mótlætis en því er til haga haldið að við stöndum aldrei ein í slíkum aðstæðum.  “Jafnvel þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því þú ert hjá mér”.  Dimmi dalurinn er táknmynd fyrir sorgina, þjáninguna, áhyggjurnar og óvissuna.  Ástandið þar sem við finnum til smæðar okkar og vanmáttar.  En það er einmitt á þeim tíma sem við finnum stundum best hvernig Drottinn leiðir okkur áfram, hvernig við fyllumst þessum aukna krafti sem við skiljum ekki alltaf hvaðan kemur.  Þess vegna er líka svo mikilvægt að leyfa Drottni að leiða för, að leyfa honum að halda í hönd okkar og bera byrðina með okkur.  Í sálminum er talað um sprotann og stafinn sem hugga mig.  Sprotinn var einskonar gaddakylfa sem notuð var til að bægja villidýrum frá hjörðinni.  Stafurinn nýttist til að stjaka við óvelkomnum gestum eða krækja í lömbin sem komust í sjálfheldu.  Þannig veittu þessi áhöld öryggi í ótryggum heimi.  Þessi sálmur talar til okkar á öllum tímum, talar vissulega sterkast til samtíðar sinnar og e.t.v. sterkar til sveitasamfélags en borgarsamfélag snútímans.  Hirðirinn hefur annað hlutverk heldur en íslenski smalinn.  Hirðirinn var sá sem gætti hjarðarinnar rétt eins og Guð gætir okkar.  Hirðirinn tryggði hjörðinni aðgang að beitarlandi og vatni.

Jesús talar um sjálfan sig sem góða hirðinn.  Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina.  Þannig er þessi sterka líking við hirðinn.  Til hans getum við snúið okkur með gleði okkar og sorgir.  Hjá honum eigum við athvarf og skjól.

Séra Sigurður Grétar Sigurðsson

Lofgjörðarlag vikunnar er: Who you say I am með Hillsong.  Það má segja að sálmurinn fjalli um frelsið, við getum orðið frjáls frá gamla lífinu okkar, frjáls með Guði. https://www.youtube.com/watch?v=lKw6uqtGFfo

 

Þá lofaði Davíð Drottin frammi fyrir öllum söfnuðinum og sagði: „Lofaður sért þú, Drottinn, Guð föður vors, Ísraels, frá eilífð til eilífðar. Þín er tignin, Drottinn, mátturinn, dýrðin, vegsemdin og hátignin því að allt er þitt á himni og jörðu. Drottinn, þitt er konungdæmið og þú ert hafinn yfir allt. Auður og sæmd koma frá þér, þú ríkir yfir öllu. Í hendi þér er máttur og megin, í hendi þér er vald til að efla og styrkja hvern sem vera skal. Og nú, Guð vor, þökkum vér þér. Vér lofum þitt dýrlega nafn. En hver er ég og hver er lýður minn, að vér vorum færir um að gefa slíkar gjafir? Því að allt er frá þér og vér höfum fært þér það sem vér höfum þegið úr hendi þér.

Úr samkundunni fóru þeir rakleitt í hús Símonar og Andrésar og með þeim Jakob og Jóhannes. Tengdamóðir Símonar lá með sótthita og sögðu þeir Jesú þegar frá henni. Hann gekk þá að, tók í hönd henni og reisti hana á fætur. Sótthitinn fór úr henni og hún gekk þeim fyrir beina. Þegar kvöld var komið og sólin sest færðu menn til hans alla þá er sjúkir voru og haldnir illum öndum og allur bærinn var saman kominn við dyrnar. Jesús læknaði marga er þjáðust af ýmsum sjúkdómum og rak út marga illa anda en illu öndunum bannaði hann að tala því að þeir vissu hver hann var. Og árla, löngu fyrir dögun, fór Jesús á fætur og gekk út, vék burt á óbyggðan stað og baðst þar fyrir.

Allir sem leiðast af anda Guðs eru Guðs börn. Þið hafið ekki fengið anda sem hneppir í þrældóm og leiðir aftur til hræðslu. Þið hafið fengið þann anda sem gerir mann að barni Guðs. Í þeim anda áköllum við: „Abba, faðir.“ Sjálfur andinn vitnar með anda okkar að við erum Guðs börn. En ef við erum börn erum við líka erfingjar og það erfingjar Guðs en samarfar Krists því að við líðum með honum til þess að við verðum einnig vegsamleg með honum.