“Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, sannleiksandinn, er út gengur frá föðurnum, mun hann vitna um mig. Þér skuluð einnig vitni bera því þér hafið verið með mér frá upphafi.” Jóh. 15:26-27

 

Í guðspjalli þessa helga dags er talað um hjálparann sem Guð mun senda heiminum, eins og hann sendi son sinn Jesú Krist til þess að frelsa heiminn.  Hjálparinn er andinn heilagi, sannleiksandinn, kærleiksandinn sem okkur er gefinn. Jesús lofaði lærisveinum sínum að hann myndi ekki skilja þá eftir munaðarlausa heldur myndi hjálparinn koma til þeirra og kenna þeim allt og minna á allt það sem hann hafði boðað þeim.  Þegar á reynir er gott að vita að hjálp er á næsta leiti, við getum oft þraukað lengur en máttur okkar leyfir af því við vitum að senn mun hjálpin berast okkur.  Og það er mikil blessun að mega bæði hjálpa og þiggja hjálp. Taka á móti því sem okkur er gefið af hjálpfúsum höndum og hjálparhuga. Oft getur jafnvel lítil hjálp velt miklum þunga og komið ýmsu nýju til leiðar sem við sáum ekki fyrir. Stundum vitum við heldur ekki af því hver raunverulegu áhrifin verða þegar við hjálpum hvert öðru, nema helst að við finnum þá góðu tilfinningu sem hún vekur í brjósti okkar. Hjálpin getur þannig komið ótrúlegustu hlutum áleiðis og virðist jafnvel oft eiga sinn eigin farveg.

 

Á undanförnum vikum höfum við enn á ný verið minnt á dýrmæti samstöðunnar og samkenndarinnar. Við höfum staðið saman eins og okkur hefur verið unnt, stolt yfir því að vera öll almannavarnir. Aftur er orðið sjálfagt að skjótast í búð fyrir nágranna sinn og gott ef hjálparhöndin er ekki fyrr að bregðast við en oft áður. En við vitum einnig að framundan í sumarsins björtu tíð er enn ákveðin óvissa sem eykur á ótta og áhyggjur margra. Þá getur verið gott að minna sig á hjálparann sem við eigum og væntum.  Við stöndum ekki ein því algóður Guð hefur gefið okkur anda sinn sem veitir okkur styrk sinn og blessun þegar við mest þurfum á honum að halda.  Þegar heilagur andi kom yfir lærisveina Jesú á hvítasunnu fylltust þeir djörfung og dug til þess að fara af stað og boða öllum þjóðum trú á hinn krossfesta og upprisna frelsara. Fyrir andann fengu þeir það sem þeir þurftu til þess að halda áfram því starfi sem Kristur Drottinn hafði kallað þá til. Þeir fengu hjálp, bæði það sem andinn blés þeim í brjóst og frá öðrum sem þjónuðu með þeim að útbreiðslu fagnaðarerindisins. Öll sú hjálp vitnaði um það kærleiksríka samfélag sem enn bindur kirkjuna saman. Því vitnisburður trúarinnar er framborinn í kærleika og hjálpsemi. Enn á ný megum við því treysta á hjálparinn, að hjálparinn kemur til okkar hvers og eins.  Hann  vekur með okkur vongleði blessunarinnar sem við megum reyna og finna í öllum okkar aðstæðum.  Megi algóður Guð gefa þér að finna þá hjálp sem hann gefur, að umbreyting kærleikans megi helga allt þitt líf.

 

Séra Bryndís Malla Elídóttir, prestur Seljakirkju

Ég mun gera við þá sáttmála þeim til heilla og það skal verða ævarandi sáttmáli við þá. Ég mun fjölga þeim og setja helgidóm minn mitt á meðal þeirra um alla framtíð. Bústaður minn verður hjá þeim og ég verð Guð þeirra og þeir verða þjóð mín. Þjóðirnar munu skilja að ég er Drottinn sem helgar Ísrael þegar helgidómur minn verður ævinlega á meðal þeirra.

En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætin og algáð til bæna. Umfram allt hafið brennandi kærleika hvert til annars því að kærleikur hylur fjölda synda. Verið gestrisin hvert við annað án þess að mögla. 1Sérhvert ykkar hefur fengið náðargáfu. Notið þær og þjónið hvert öðru eins og góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs. Sá sem talar flytji Guðs orð, sá sem þjónar sýni að Guð gefi máttinn til þess. Verði svo Guð vegsamaður í öllum hlutum fyrir Jesú Krist. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.

Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, sannleiksandinn, er út gengur frá föðurnum, mun hann vitna um mig. Þér skuluð einnig vitni bera því þér hafið verið með mér frá upphafi.

Þetta hef ég talað til yðar svo að þér fallið ekki frá. Þeir munu gera yður samkunduræk. Já, sú stund kemur að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu. Þetta munu þeir gera af því þeir þekkja hvorki föðurinn né mig. Þetta hef ég talað til yðar til þess að þér minnist þess að ég sagði yður það þegar stund þeirra kemur.