Friður sé með ykkur öllum.

Það er ekki langt síðan ég fékk að rifja upp sögu manns sem hafði farið í vímuefnameðferð. Hann lýsti því fyrir mér hvernig hann hafði farið inn á Vog nær dauða en lífi, hvernig hann þessi ljúfi drengur sem hann var, hafði verið orðinn forhertur afbrotamaður sem fann hvorki til með sjálfum sér né öðrum. Andlegt ástand hans var slæmt, tilfinningarnar voru komnar í frost, hann var þunglyndur, langaði ekki að lifa, líkaminn var orðinn fársjúkur og hann var ekkert nema skinnið og beinin.

Hann lýsti því fyrir mér hvað hafði gerst þegar hann kom inn til meðferðar, sem hann hafði enga trú á að myndi virka fyrir sig núna frekar en fyrri daginn. Í örvæntingu hafði hann kallað á Guð og beðið um hjálp, hvað eftir annað, einhverjum dögum áður en hann lagðist inn. Gamall vinur hans sem hann hafði ekki séð í langan tíma hafði ekið honum upp á Vog en hann mundi ekki mikið eftir þeirri ökuferð. Það eina sem hann mundi eftir þegar hann kom inn var að það gerðist eitthvað innra með honum sem hann hafði ekki upplifað áður. Hann fann fyrir tilfinningu sem hann kunni ekki að skilgreina þá en seinna skildi hann að þessi tilfinning hafði verið von, von um lækninu og betra líf.

Með voninni kviknaði löngun til þess að lifa sem gerði honum kleyft að gera það sem hann þurfti að gera til þess að fá að verða allsgáður. Hann skildi það smám saman að hann gat ekki gert þetta einn og þegar hann fór í gegnum sporin í fyrsta sinn áttaði hann sig á því að það var Guð sem hafði gefið honum vonina og það var Guð sem vildi fara með honum í gegnum sporin. Í dag eru liðin meira en 20 ár síðan þessi ungi fársjúki maður fékk að verða allsgáður fyrir tilstilli Guðs.

Jesús læknaði og líknaði og oft var vonin það eina sem þurfti, vonin sem er yfirsterkari flestum öðrum tilfinningum. Það er magnað að lesa sögurnar um Jesús og hvernig hann læknaði fólk í alls kyns kringumstæðum og oft þá sem síst áttu von á því. Og þegar ég tala um Jesús eins og hann var hér í jarðlífinu, þá minnist ég alltaf á það hvernig maður hann var. Hann var þessi sem var til staðar fyrir þá sem þurftu, hann var sá sem setti sig aldrei yfir eða undir aðrar manneskjur og umgekkst alla sem jafningja en hann var líka maður sem setti skýr mörk og stóð við þau. Jesús var sá sem stóð alltaf upp fyrir þau sem voru til hliðar sett í samfélaginu eða minna máttu sín, hann hafði trú á öllum manneskjum.

Konan mín hefur undanfarnar vikur og mánuði sinnt mikið veikum frænda sínum, hann er einstæðingur og hún er hans nánasti aðstandandi, ég hef að sjálfsögðu tekið þátt í þessu eftir föngum og við höfum verið löngum stundum inn á spítala þar sem hann dvelur.

Það hefur verið magnað að fylgjast með þessum góða, hógværa manni. Oftast finnst honum algjör óþarfi að hjúkrunarfólk sé að sinna honum enda sé miklu mikilvægara að sinna hinum sjúklingunum á deildinni. Hann veit vel hvert stefnir og er búinn að undirbúa brotthvarf sitt nokkuð vel. Hann tekur örlögum sínum af æðruleysi og er sannfærður um að hans bíði vist hjá Guði.

En af hverju skyldi ég vera að tala um þetta? Jú ég geri það til að minnast á frelsið, eilífa lífið, gjöfina sem frændi konunnar minnar er tilbúinn til að taka á móti frá frelsaranum. Það eru svo margir sem gefa lítið fyrir sögur af kraftaverkum, þrátt fyrir að við verðum alla daga vitni að kraftaverkum. Ég veit ekki hvað við erum mörg hér í kvöld en ég er sannfærður um að við, hvert og eitt höfum upplifað kraftaverk í okkar lífi, fíklarnir hafa upplifað kraftverk sem gerði það að verkum að þeir geta lifað allsgáðu lífi í dag og hafa nánast endalaus tækifæri til að gera líf sitt enn betra en það er nú þegar. Aðstandendur hafa væntanlega upplifað það sama þegar þeir finna batann í eigin lífi. Sama sjáum við alla daga þegar við fréttum af nýjum lyfjum eða lækningaaðferðum.

Kæru vinir munum að það er mikilvægt að vera kærleiksrík og umburðarlynd í garð meðbræðra okkar og munum umfram allt að við getum alltaf leitað til Guðs með allt, hann heyrir það sem við segjum og hann heyrir það sem við biðjum um. Það er gott að vita að Jesús er alla daga að segja við fólk: Tak rekkju þína og gakk.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Sr. Fritz Már

Lofa þú Drottin, sála mín,
og allt sem í mér er, hans heilaga nafn;
lofa þú Drottin, sála mín,
og gleym eigi neinum velgjörðum hans.
Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar,
læknar öll þín mein,
leysir líf þitt frá gröfinni,
krýnir þig náð og miskunn.
Hann mettar þig gæðum,
þú yngist upp sem örninn.
Drottinn fremur réttlæti
og veitir rétt öllum kúguðum.

Sjálfur lifi ég ekki framar heldur lifir Kristur í mér. Lífinu, sem ég lifi nú hér á jörð, lifi ég í trúnni á Guðs son sem elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig.

Þessu næst var ein af hátíðum Gyðinga og Jesús fór upp til Jerúsalem. Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng. Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra [sem biðu hræringar vatnsins. En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins varð heill hvaða sjúkdómur sem þjáði hann.] Þarna var maður nokkur sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár. Jesús sá hann þar sem hann lá og vissi að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: „Viltu verða heill?“
Hinn sjúki svaraði honum: „Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina þegar vatnið hrærist og meðan ég er á leiðinni fer annar ofan í á undan mér.“
Jesús segir við hann: „Statt upp, tak rekkju þína og gakk!“ Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk.
En þessi dagur var hvíldardagur og menn sögðu við hinn læknaða: „Í dag er hvíldardagur. Þú mátt ekki bera rekkjuna.“
Hann svaraði þeim: „Sá sem læknaði mig sagði við mig: Tak rekkju þína og gakk!“
Þeir spurðu hann: „Hver er sá maður sem sagði þér: Tak hana og gakk?“
En læknaði maðurinn vissi ekki hver hann var því að Jesús hafði leynst brott enda var þröng á staðnum.
Nokkru síðar hitti Jesús hann í helgidóminum og sagði við hann: „Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar svo að eigi hendi þig annað verra.“
Maðurinn fór og sagði ráðamönnum Gyðinga að Jesús væri sá sem læknaði hann.