Haustið er sérstakur tími, náttúran breytir um lit og margar plöntur leggjast í dvala. Það er umhugsunarvert að tækni og vísindi gera það að verkum að við vitum sífellt meira um náttúruna. En við vitum ekki allt, þar kemur trúin til hjálpar. Í þessu samhengi er forvitnilegt að skoða sköpunarfrásagnir Biblíunnar. Til að nefna dæmi má finna eftirfarandi spurningar í ræðu Guðs í 39. kafla Jobsbókar: „Veistu hvenær steingeitur bera, fylgistu með fæðingarhríðum hinda?“ Eins umfjöllun um regnið í Davíðssálmi 104: „Þú vökvar fjöllin frá hásal þínum og af ávexti verka þinna mettast jörðin.“ Þessir fornu textar hafa ýmislegt til síns máls, hver er það sem vakir yfir allri sköpuninni? Í íslensku samhengi vitum við u.þ.b. hvenær hreindýrakýrnar bera en fylgjumst við með þeim uppi til fjalla? Getum við stjórnað regninu sem hefur áhrif á allt okkar lífríki?

Við sem eigum traustan bandamann í Guði efumst ekki um hver það er sem vakir yfir sköpuninni. Fylgist með lífinu öllu. Sveiflurnar í náttúrunni er hins vegar líkt og erfiðustu spurningar lífsins, við eigum erfitt með að skilja þær. En í trausti trúarinnar, með boðskap og siðferði Jesú Krists lærum við nýta hæfileika hvers annars og bera virðingu fyrir öllu lífríkinu.

Það má einnig benda á orð Davíðssálms 104: „Þú sendir út anda þinn, þá verða þau til og þú endurnýjar ásjónu jarðar.“ Andi Guðs er lífsandinn en einnig getur hugtakið átt við andrúmsloftið, höfuðáttirnar fjórar, heiminn allan, ekkert minna. Við mannfólkið höfum áhrif á þennan lífsanda og andrúmsloftið með hegðun okkar. Nú þegar við fögnum góðri berja- og kartöfluuppskeru svo dæmi séu tekin og fyrstu haustlægðirnar koma yfir landið, eins og til að vökva og hreinsa ættum við að vera þakklát fyrir gjafirnar og möguleikana. Stöndum vörð um náttúruna og berum ábyrgð á gjörðum okkar.

Sr. Alfreð Örn Finnsson

Ég mundi leita til Guðs
og leggja mál mín fyrir hann
sem vinnur ómæld stórvirki,
kraftaverk sem ekki verður tölu á komið.
Hann gefur jörðinni regn
og sendir vatn yfir vellina.
Hann upphefur smælingja
og syrgjendum verður hjálpað.

Sæll er sá sem Guð leiðbeinir,
sá sem hafnar ekki ögun Hins almáttka
því að hann særir en bindur um,
hann slær en hendur hans græða.

Það er einlæg löngun mín og von að ég verði ekki til smánar í neinu, heldur að ég hafi þann kjark nú eins og ávallt að sýna með lífi mínu og dauða fram á hve mikill Kristur er. Því að lífið er mér Kristur og dauðinn ávinningur.En eigi ég áfram að lifa á jörðinni, þá verður meiri árangur af starfi mínu. Ekki veit ég hvort ég á heldur að kjósa.
Ég á úr tvennu vöndu að ráða: Mig langar til að fara héðan og vera með Kristi því að það væri miklu betra. En ykkar vegna er nauðsynlegra að ég haldi áfram að lifa hér á jörðu. Og í trausti þess veit ég að ég mun lifa og halda áfram að vera hjá ykkur öllum, ykkur til framfara og gleði í trúnni. Þá kem ég aftur til ykkar og þið finnið enn betur hvílík upphefð það er að fylgja Kristi

María kom þangað sem Jesús var og er hún sá hann féll hún honum til fóta og sagði við hann: „Drottinn, ef þú hefðir verið hér væri bróðir minn ekki dáinn.“
Þegar Jesús sá hana gráta og þau[ gráta, sem með henni komu, komst hann við, varð djúpt hrærður 34 og sagði: „Hvar hafið þið lagt hann?“
Þau sögðu: „Drottinn, kom þú og sjá.“ Þá grét Jesús. Þau sögðu: „Sjá, hversu hann hefur elskað hann!“ En nokkrir sögðu: „Gat ekki sá maður sem opnaði augu hins blinda einnig varnað því að þessi maður dæi?“
Jesús varð aftur mjög djúpt hrærður og fór til grafarinnar. Hún var hellir og steinn fyrir. Jesús segir: „Takið steininn frá!“
Marta, systir hins dána, segir við hann:
„Drottinn, það er komin nálykt af honum, það er komið á fjórða dag.“
Jesús segir við hana: „Sagði ég þér ekki: Ef þú trúir munt þú sjá dýrð Guðs?“ Nú var steinninn tekinn frá. En Jesús hóf upp augu sín og mælti: „Faðir, ég þakka þér að þú hefur bænheyrt mig. Ég vissi að sönnu að þú heyrir mig ávallt en ég sagði þetta vegna mannfjöldans sem stendur hér umhverfis til þess að fólkið trúi að þú hafir sent mig.“ Að svo mæltu hrópaði hann hárri röddu: „Lasarus, kom út!“ Hinn dáni kom út vafinn líkblæjum á fótum og höndum og með sveitadúk bundinn um andlitið. Jesús segir við fólkið: „Leysið hann og látið hann fara.“ Margir Gyðingar sem komnir voru til Maríu og sáu það sem Jesús gerði tóku nú að trúa á hann.