Ég þakka enn í dag fyrir þau góðu ráð sem ég fékk á snemmfullorðins árunum mínum: „Settu allt þitt traust á Guð ekki menn, mennirnir eru breyskir en Guð er alltaf sá sami.“ Í dag, mörgum árum síðar sé ég að þetta hefur verið haldreipi mitt. Í grunninn set ég allt mitt traust á Guð jafnvel þegar ég treysti á annað fólk. Ekki að mannskilningur minn sé neikvæður, langt frá því heldur veit ég af eigin reynslu að þrátt fyrir einlæga löngun, hlýhug og sterkan vilja þá get ég ekki staðið undir öllum þeim væntingum sem aðrir hafa til mín og þar af leiðandi get ég ekki gert þær kröfur til annarra. Ég hef væntingar, þrár og langanir og geri oft kröfur, það er að mínu mati partur af heilbrigðum samskiptum í góðum samböndum en ég átta mig á því að ekkert okkar er óaðfinnanlegt og að dagsformið er misjafnt. Guð hins vegar var, er og verður og breytist ekki. Skjöldur minn og skjól, hæli mitt og háborg. Traust mitt til Guðs er grunnurinn af öllum mínum sigrum og veit ég ekkert betra en að dvelja í skugga vængja hans.

Myndlíkingin um hygginn mann er byggði hús sitt á bjargi á ekki síður við um fólk er byggir líf sitt á traustum stoðum. Líf sem byggir á og fylgir kristnum gildum er líf sem er byggt á tryggum grunni, líf sem þolir mótlæti og hefur styrk til að takast á við hlutina þegar á móti blæs. Ákvörðun um að treysta Guði í öllum kringumstæðum gefur fullvissu um að fyrir okkur sé séð. Fullvissan um Jesú Krist sem fylgir okkur í gegnum lífið og er með okkur í sorg og í gleði. Það er enginn stormur svo mikill að Guð geti ekki leitt okkur í gegnum hann og enginn brú svo þröng að Guð fylgi okkur ekki yfir hana. Engin efi svo mikill að Guð hjálpi okkur ekki að öðlast fullvissu, það er ekkert sem er Guði um megn. Leggjum okkur í hendur Guðs og treystum því að hann muni vel fyrir sjá.

Þið elskuðu, trúið ekki öllum sem segjast hafa andann, reynið þá heldur og komist að því hvort andinn sé frá Guði. Því margir falsspámenn eru farnir út í heiminn. Af þessu getið þið þekkt anda Guðs: Sérhver andi, sem játar að Jesús sé Kristur kominn sem maður, er frá Guði. En sérhver andi sem ekki játar Jesú er ekki frá Guði. Hann er andkristsins andi sem þið hafið heyrt um að komi og nú þegar er hann í heiminum.
Börnin mín, þið eruð af Guði og hafið sigrað falsspámennina því að andinn sem er í ykkur er öflugri en andinn sem er í heiminum. Falsspámennirnir eru af heiminum. Þess vegna tala þeir eins og heimurinn talar og heimurinn hlýðir á þá. Við erum af Guði. Hver sem þekkir Guð hlýðir á okkur. Sá sem ekki er af Guði hlýðir ekki á okkur. Af þessu þekkjum við andann sem flytur sannleikann og andann sem fer með lygar.

Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni er byggði hús sitt á bjargi. Nú skall á steypiregn, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi en það féll eigi því það var grundvallað á bjargi.
En hver sem heyrir þessi orð mín og breytir ekki eftir þeim, sá er líkur heimskum manni er byggði hús sitt á sandi. Steypiregn skall á, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi. Það féll og fall þess var mikið.“
Þegar Jesús hafði lokið þessari ræðu varð mannfjöldinn djúpt snortinn af orðum hans því að hann kenndi eins og sá er vald hefur og ekki eins og fræðimenn þeirra.

Á þeim degi verður þetta ljóð sungið í Júda:
Vér eigum rammgera borg,
múrar og virki voru reist henni til varnar.
Ljúkið upp hliðum
svo að réttlát þjóð, sem varðveitir trúnað,
megi inn ganga,
þjóð sem hefur stöðugt hugarfar.
Þú varðveitir heill hennar
því að hún treystir þér.
Treystið Drottni um aldur og ævi
því að Drottinn er eilíft bjarg.
Hann hefur lítillækkað þá sem bjuggu á hæðum,
steypt hinni háreistu borg,
steypt henni til jarðar
og varpað henni í duftið.
Hún var troðin fótum,
fótum fátækra,
tröðkuð iljum umkomulausra.
Bein er braut hins réttláta,
þú jafnar veg hans.