Gleðilegt nýtt ár. Nú er enn eitt árið gengið í garð og við tökum á móti því og lítum til baka yfir liðið ár og um leið reynum við að ímynda okkur hvað þetta ár mun bera í skauti sér fyrir okkur.

 

Mætti líta á þetta ár sem er framundan sem ákveðna opinuberun á vilja Guðs og áform ?

 

Við getum að minnsta kosti ímyndað okkur þegar við íhugum guðspjallstexta þessa sunnudags, sem segir frá því þegar Jesús læknaði tvo blinda menn og þeir fá sjónina á ný vegna þess að þeir trúðu að Jesú gæti læknað þá. Kjarni guðspjallstextans er nefnilega að þeir trúa að hann geti læknað þá.  Í þessari trú felst svo mikið traust. Getur verið að í þessu trausti endurspeglist ákveðin opinberun og vilji Guðs? Já, þetta traust birtist nefnilega í samskiptum okkar og samfélagi við Jesú Krist sem lifandi persónu.

 

Samfylgdin við Jesú er fólgin í þeirri nærveru sem við sköpum með því að biðja til hans. Við biðjum til hans varðandi hvað eina sem bjátar á hjá okkurr, vitandi að við munum fá hjálp, eða bara til þess að þakka honum fyrir allt hið góða sem umvefur líf okkar. Samfylgdin við Jesú Krist felst fyrst og fremst í því að bera umhyggju fyrir náunganum.

 

Það má að vissu leyti líkja þessari lækningarfrásögn við heimboð. Í þessu heimboði felst það að trúa og sjá. Alveg eins og nýja árið er að vissu leyti heimboð til þessa að trúa og sjá. Við getum á engan hátt séð fyrir okkur hvað mun gerast á þessu ári. Ef við felum traust okkar á að fylgja Jesú þá munum við finna hversu dýrmætt það er að treysta honum fyrir velferð okkar því að hann mun veita okkur styrk.

 

Ég trúi því að Jesús Kristur sé við hlið okkar í hversdagslífinu og ég trúi því að hann muni á nýju ári gefa okkur nýjan frið og nýja gleði. Hann býr í hjarta okkar og gefur okkur nýjan anda til þess að takast á við það sem lífið hefur í för með sér árið 2021.

 

Séra Jarþrúður Árnadóttir

 

 

Lofgjörðarlag vikunnar er I surrender með Hillsong. Textinn fjallar um það að þegar við nálgumst Guð kemur Guð til okkar.

https://www.youtube.com/watch?v=s7jXASBWwwI

Hlýðið á mig, eylönd,
hyggið að, fjarlægu þjóðir.
Drottinn hefur kallað mig allt frá móðurlífi,
nefnt mig með nafni frá því ég var í móðurkviði.
Hann gerði munn minn sem beitt sverð
og huldi mig í skugga handar sinnar.
Hann gerði mig að hvassri ör
og faldi mig í örvamæli sínum.
Hann sagði við mig: „Þú ert þjónn minn,
Ísrael, ég læt þig birta dýrð mína.“
En ég svaraði: „Ég hef erfiðað til ónýtis,
sóað kröftum mínum til einskis og út í vindinn
en réttur minn er hjá Drottni
og laun mín hjá Guði mínum.“
En nú segir Drottinn,
hann sem myndaði mig í móðurlífi
til að vera þjónn sinn,
til að ég sneri Jakobi aftur til sín
og til að Ísrael yrði safnað saman hjá honum.
Ég er dýrmætur í augum Drottins
og Guð minn varð minn styrkur.
Hann segir: Það er of lítið að þú sért þjónn minn
til að endurreisa ættbálka Jakobs
og leiða þá aftur heim
sem varðveist hafa af Ísrael.
Ég geri þig að ljósi fyrir þjóðirnar
svo að hjálpræði mitt nái allt til endimarka jarðar.

Allt er mér leyfilegt en ekki er allt gagnlegt. Allt er mér leyfilegt en ég má ekki láta neitt fá vald yfir mér. Maturinn er fyrir magann og maginn fyrir matinn en Guð mun hvort tveggja gera að engu. En líkaminn er ekki fyrir saurlífi heldur fyrir Drottin og Drottinn fyrir líkamann.
Guð hefur uppvakið Drottin með mætti sínum og mun á sama hátt uppvekja okkur.
Vitið þið ekki að líkamar ykkar eru limir Krists?
Forðist saurlifnaðinn! Sérhver önnur synd, sem maðurinn drýgir, er fyrir utan líkama hans. En saurlífismaðurinn syndgar á móti eigin líkama. Vitið þið ekki að líkami ykkar er musteri heilags anda sem í ykkur er og þið hafið frá Guði? Þið eigið ykkur ekki sjálf. Þið eruð verði keypt. Vegsamið því Guð með líkama ykkar.

Þá er Jesús hélt þaðan fóru tveir blindir menn eftir honum og kölluðu: „Miskunna þú okkur, sonur Davíðs.“
Þegar hann kom heim gengu blindu mennirnir til hans. Jesús spyr þá: „Trúið þið að ég geti gert þetta?“ Þeir sögðu: „Já, Drottinn.“
Þá snart hann augu þeirra og mælti: „Verði ykkur að trú ykkar.“ Og augu þeirra lukust upp. Jesús lagði ríkt á við þá og sagði: „Gætið þess að enginn fái að vita þetta.“ En þeir fóru og víðfrægðu hann í öllu því héraði.