Sál mína þyrstir eftir Guði. Guð er hið lifandi vatn, án hans lifi ég ekki.

Textar dagsins eru mér einstaklega kærir. Þar er að finna góðar ráðleggingar og visku. Þegar ég les þessa texta finn ég þrá og hvata til að vaxa. Ég vil drekka af brunni hins lifandi vatns, næra anda minn og styrkjast í trúnni. Ég veit og hef reynt það að þegar ég leita Guðs og keppi eftir því að vera sú sem Guð gaf mér að vera, þá gengur mér best. Þá virkar allt sem skildi.

Páll talar um lifandi, heilaga og Guði þóknanlega fórn, ég skil orð hans þannig að fórnin felist í því að vera tilbúin að gefa sig Guði. Láta af gömul mynstur, til dæmis varnarhætti, óheiðarleika og græðgi, eltast ekki við hégóma eins og peninga og völd, leggja af háttsemi þessa heims. Það er fórnin, að vera tilbúin til þess að umbreytast og tileinka sér nýtt hugarfar, kristilegt hugarfar.

Ábendingin er að gefa gaum að því góða og fagra, að leita vilja Guðs í öllum ákvörðunum og gjörðum. Hvatning Páls til safnaðarins og þar með til okkar er einnig sú að við setjum okkur ekki á stall. Setjum okkur ekki yfir hvert annað. Að við höldum okkur við það sem Guð hefur úthlutað okkur, þann mæli trúar. Hann notar líkingarmál og setur okkur mannfólkið fram sem limi, sem einn líkama Krist og þannig sem hvers annars limir. Hver og einn limur líkamans er mikilvægur og hefur sinn tilgang. Ekki minni eða meiri tilgang, bara tilgang. Ef allir limir líkamans virka rétt vinna þeir vel saman og líkaminn verður eins og smurð vél.

Með þessari líkingu tel ég að Páll sé að undirstrika mikilvægi þess að við séum þau sem við erum, einmitt eins og Guð gerði okkur. Með því sniði höfum við tilgang í ríki Guðs.

Þegar fólk eltist við álit annarra setur það stjórnina á eigin lífi frá sér, það sníðir persónu sína og hegðun að því sem það telur henta hverju sinni. Viðbrögðin mótast þá af því sem þau telja að aðrir vilji sjá og heyra. Með þessu setur það sjálft sig til hliðar. Um leið og ótti við álit annarra eða þrá til að þóknast öðrum er orðin svona afgerandi er manneskjan orðin ósönn. Ekki sú sem hún er í grunninn. Þar með er limurinn ekki virkur. Það hefur áhrif á virkni líkamans.

Það reynist fólki oft erfitt að standa með eigin tilfinningum, eigin hugrenningum og þess þá heldur að gangast við sér. Þetta á gjarnan rætur sínar að rekja til þess að fólk upplifir sig minnimáttar, ekki nógu góð eða hreinlega bara ekki nóg. Þess vegna þykir mér svo vænt um þessa hvatningu Páls, „Enginn hugsi hærra um sjálfan sig en hugsa ber heldur í réttu hófi“ Það er enginn hærri eða meiri og ef það er staðreynd, er enginn minni eða lægri. Allar manneskjur eru jafnar, jafn mikilvægar og hafa sinn sérstaka tilgang.

Þegar við erum sönn verðum við virkir limir sem stuðlum að jafnværi og góðri virkni alls líkamans. Ég tek því undir hvatningu Páls og hvet okkur, hvert og eitt að rýna í gömul mynstur, skoða samskiptin okkar og líta svo inn á við til að bera saman. Er ég að lifa lífi mínu eins og ég þrái, er ég að setja mig fram eins og ég er, stend ég með mínum hugrenningum og tilfinningum, elti ég drauma mína, nýti ég hæfileika mína? Líttu inn á við og gefðu þig Guði með því að umbreytast og tileinka þér nýtt hugarfar.

Þannig svala ég þorsta mínum.

Díana Ósk Óskarsdóttir.

Eins og hindin þráir vatnslindir
þráir sál mín þig, ó Guð.
Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði,
hvenær mun ég fá að koma og sjá auglit Guðs?

Því brýni ég ykkur, systkin, að þið vegna miskunnar Guðs bjóðið fram sjálf ykkur að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn guðsdýrkun af ykkar hendi. Fylgið ekki háttsemi þessa heims. Látið heldur umbreytast með hinu nýja hugarfari og lærið svo að skilja hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.
Fyrir þá náð sem mér er gefin segi ég ykkur öllum: Enginn hugsi hærra um sjálfan sig en hugsa ber heldur í réttu hófi, og hver og einn haldi sér við þann mæli trúar sem Guð hefur úthlutað honum.
Við höfum á einum líkama marga limi en limirnir hafa ekki allir sama starfa. 5Eins erum við, þótt mörg séum, einn líkami í Kristi en hvert um sig annars limir.

Foreldrar Jesú ferðuðust ár hvert til Jerúsalem á páskahátíðinni. Þegar hann var tólf ára fóru þau upp þangað eins og þau voru vön og tóku Jesú með sér. Þau voru þar út hátíðisdagana. En þegar þau sneru heimleiðis varð sveinninn Jesús eftir í Jerúsalem og vissu foreldrar hans það eigi. Þau hugðu að hann væri með samferðafólkinu og fóru eina dagleið og leituðu hans meðal frænda og kunningja. En þau fundu hann ekki og sneru þá aftur til Jerúsalem og leituðu hans.
Eftir þrjá daga fundu þau hann í helgidóminum. Þar sat hann mitt á meðal lærifeðranna, hlýddi á þá og spurði þá. En alla, sem heyrðu til hans, furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum. Og er þau sáu hann þar brá þeim mjög og móðir hans sagði við hann: „Barn, hví gerðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin.“
Og hann sagði við þau: „Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns?“ En þau skildu ekki það er hann talaði við þau.
Og Jesús fór heim með þeim og kom til Nasaret og var þeim hlýðinn. En móðir hans geymdi allt þetta í hjarta sér. Og Jesús þroskaðist að visku og vexti og náð hjá Guði og mönnum.