Friður sé með ykkur öllum.

Nú hallar sumri, dagana fer að stytta og á næstunni flykkjast börn á öllum aldri í skóla landsins. Tilfinningarnar í byrjun nýs skólaárs eru án vafa misjafnar, hvorutveggja tilhlökkun og kvíði. Tilhlökkun hjá þeim sem af einhverjum ástæðum falla í hópinn og eru samþykktir af skólafélögum, kvíði hjá þeim sem ekki falla í hópinn og eiga von á ofbeldisfullri hegðun skólafélaganna. Flest erum við með innbyggða réttlætiskennd sem gerir það að verkum að við viljum standa með þeim sem minna mega sín og vera til staðar fyrir þá sem eru til hliðar settir. Ef við mannfólkið fylgdum þessari réttlætiskennd okkar og kæmum fram við aðra eins og við viljum að þeir koma fram við okkur yrði lítið um einelti í samfélaginu.

Jesús kenndi okkur þetta og svo margt annað gott og fallegt. Ég trúi því að við eigum það flest sammerkt að vilja gera heiminn að betri stað til að búa í. Að við viljum vera betri manneskjur. Samfélag samtímans er markaðsvætt samfélag, fæstir vita hvar leikreglurnar verða til eða af hverju þær eru settar fram. Leikreglur sem segja mannfólki hvernig það á að líta út, hvernig það á að klæða sig og hvernig það á að lifa lífinu, en því miður er lítið talað um kærleikann og það hvernig við ættum að koma fram við hvert annað.

Jesús og boðskapur hans breytist aldrei, Jesús gaf okkur gullnu regluna sem ég minntist á hér í upphafi. Hann læknaði og líknaði og gerði kraftaverk eða kannski væri réttara að segja hann læknar, líknar og gerir kraftaverk vegna þess að Jesús lifir enn á meðal okkar og færir okkur kraftaverk og kærleiksboðskap alla daga. Guð gefur okkur ótrúlega gjöf sem felst í lífinu sjálfu og við þiggjum þessa gjöf alla daga. Jesús finnur til með þeim sem þjást og líða, hann heyrir og skilur bænir okkar og færir okkur lausn við flestum erfiðleikum. Kærleikurinn er ekki flókinn, það er örugglega einfaldara og betra að vera kærleiksríkur en ofbeldisfullur.

Það er dýrmætt að eiga góða heilsu, líkama sem er í lagi, að geta séð, heyrt og hreyft. Það er líka dýrmætt að fá að vera í jafnvægi andlega og félagslega, en því miður eru þessir þættir sjaldan metnir að verðleikum fyrr en á bjátar. Nú þegar daglegt amstur er að hefjast á ný eftir skóla- og vinnufrí er svo mikilvægt að við leggjum okkur fram um að vera kærleiksrík við náungann, hvetjum börnin okkar til að vera góð við hvert annað. Leyfum okkur að vera nákvæmlega þau sem við erum og að við leyfum öðru fólki að eiga sitt líf eins og það vill hafa það, rétt eins og Jesús sem gerði aldrei geinarmun á manneskjum, setti aldrei neinn á stall og setti aldrei neinn niður. Munum að Jesús er á meðal okkar og gerir kraftaverk alla daga, hann sem boðar náungakærleik, réttlæti og frið. Hann sem læknaði daufdumba manninn með því að segja þessi sterku arameísku orð: Effaþa! Og ennþá eru þetta orðin sem hann segir Effaþa! Opnist þú!

Sr. Fritz Már Jörgensson

Er ekki skammt þar til
Líbanon verður að aldingarði
og Karmel talið skóglendi?
Á þeim degi munu daufir heyra orð lesin af bók
og augu blindra sjá þrátt fyrir skugga og myrkur.
Þá mun gleði auðmjúkra aukast yfir Drottni
og hinir fátækustu meðal manna
munu fagna yfir Hinum heilaga Ísraels.
Kúgarinn verður ekki lengur til,
skrumarinn líður undir lok,
öllum, sem hyggja á illt, verður tortímt
og þeim sem sakfella menn fyrir rétti,
þeim sem leggja snörur fyrir þann sem áminnir í hliðinu
og vísa hinum saklausa frá með innantómu hjali.
Þess vegna segir Drottinn,
sem endurleysti Abraham, við ættbálk Jakobs:
Nú þarf Jakob ekki að blygðast sín lengur
og andlit hans ekki framar að fölna
því að þegar þjóðin sér börn sín,
verk handa minna, sín á meðal
mun hún helga nafn mitt,
helga Hinn heilaga Jakobs
og óttast Guð Ísraels
og þeir sem eru villuráfandi í anda
munu öðlast skilning
og þeir sem mögla láta sér segjast.

Það er vegna Krists sem ég er svo öruggur frammi fyrir Guði. Ekki svo að skilja að ég sé sjálfur hæfur og geti eitthvað sjálfur heldur er hæfileiki minn frá Guði. Guð hefur gert mig hæfan til að vera þjónn nýs sáttmála sem ekki er ritaður á bók heldur er hann andlegur. Því að bókstafurinn deyðir en andinn lífgar.
Lögmálið var skráð með bókstöfum og höggvið á steina. Þó að þeir sem þjónuðu því dæju var dýrð þess slík að Ísraelsmenn gátu ekki horft framan í Móse vegna ljómans af ásýnd hans sem þó varð að engu. Hversu dýrlegri mun þá sú þjónusta vera sem fram fer í anda? Ef þjónustan sem sakfellir var dýrleg þá er þjónustan sem réttlætir enn þá auðugri að dýrð.

Síðan hélt Jesús úr Týrusarbyggðum, um Sídon og yfir Dekapólisbyggðir miðjar til Galíleuvatns. Þá færa menn til hans daufan og málhaltan mann og biðja hann að leggja hönd sína yfir hann. Jesús leiddi hann afsíðis frá fólkinu, stakk fingrum sínum í eyru honum og vætti tungu hans með munnvatni sínu. Þá leit hann upp til himins, andvarpaði og sagði við hann: „Effaþa,“ það er: Opnist þú.
Og eyru hans opnuðust og haft tungu hans losnaði og hann talaði skýrt. Jesús bannaði þeim að segja þetta neinum en svo mjög sem hann bannaði þeim því frekar sögðu þeir frá því. Menn undruðust mjög og sögðu: „Allt gerir hann vel, daufa lætur hann heyra og mállausa mæla.“