Í Sálmi 40 lesum við að þau sem gera Drottinn að athvarfi sínu séu sæl og í sömu setningu er sett fram aðvörun: Ekki snúa þér til dramblátra og ekki fylgja falsguðum. Því fylgir ekki sama sæla. Þegar ég les þetta þá velti ég því fyrir mér hverjir hinir dramblátu eru og hvernig ég get forðast falsguði. Líklega erum við manneskjur oft dramblátar og oft setjum við annað fólk á stall sem gæti flokkast sem falsguðir. Það að eltast við álit annarra, að leitast við að þóknast öðrum eða það að keppa eftir velþóknun og viðurkenningu frá samferðafólki okkar. Þetta veitir enga sælu. Það að gera Drottinn að athvarfi sínu er hið gagnstæða.

Það getur ekki verið nema til góðs að eltast við álit Guðs, að leitast við að þóknast Guði og keppa eftir velþóknun og viðurkenningu Guðs. Í það minnsta gefur það frelsi frá ótta við álit annarra. En þá vaknar upp spurningin hvernig þóknast ég Guði? Þóknast ég honum með verkum mínum? Fæ ég velþóknun Guðs með því að vera óaðfinnanleg í lífi mínu? Hvað þýðir það að vera óaðfinnanleg og hvaða verk þarf ég að uppfylla?

Við manneskjur höfum misjafna sýn, það sem einu samfélagi þykir gott þykir öðru samfélagi ekki gott. Það er því ómögulegt að leggja það á sig að fylgja slíku. Ég vil gera Drottinn að athvarfi mínu, hann er hæli mitt og skjöldur, sá sem ég treysti á. Um leið og hugurinn fer þangað þá hugsa ég til Föðurins. Guð hinn himneski faðir sem elskar mig. Guð sem elskar mig meira en ég get elskað mín eigin börn. Ég fyllist af þeirri vissu að elska Guðs yfirgefur mig aldrei svo ég þarf ekki að ávinna mér hana. Ég þarf ekki að uppfylla einhver verk og ég þarf ekki að streða við það að vera óaðfinnanleg.

Ég þarf bara að vera ég og dvelja í þeirri vissu að ég sé elskað barn Guðs. Í þeirri fullvissu fæ ég kjarkinn til þess að vera ég, vera sú sem ég er sköpuð til. Þá átta ég mig á því að það er Guð sem styrkir mig, dregur mig upp úr glötunargröfinni, gefur mér fótfestu á kletti og leggur mér lofsöng í brjóst eins og er sett svo fallega fram í Sálmi 40. Drottinn verndar, leiðir, styður og er þar með athvarf þess sem þiggur.

Jesús elskar þig! Guð gaf þér eilíft líf og rétt til þess að kallast barn Guðs. Þessa gjöf færði Guð þér með krossfestingu Jesú. Hefur þú meðtekið þessa gjöf?

Díana Ósk Óskarsdóttir

en tunguna getur enginn maður tamið, þessa óhemju sem er full af banvænu eitri. Með henni vegsömum við Drottin okkar og föður og með henni formælum við mönnum sem skapaðir eru í líkingu Guðs. Af sama munni gengur fram blessun og bölvun. Þetta má ekki svo vera, bræður mínir og systur. Gefur sama lindin bæði ferskt og beiskt vatn? Mun fíkjutré, bræður mínir og systur, geta gefið af sér ólífur eða vínviður fíkjur? Eigi getur heldur saltur brunnur gefið ferskt vatn.

Þess vegna segi ég yður: Hver synd og guðlöstun verður mönnum fyrirgefin en guðlast gegn andanum verður ekki fyrirgefið. Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum verður það fyrirgefið en þeim sem mælir gegn heilögum anda verður ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komanda.
Annaðhvort er tréð gott og ávöxturinn góður eða tréð vont og ávöxturinn vondur. Því af ávextinum þekkist tréð. Þér nöðrukyn, hvernig getið þér, sem eruð vond, talað gott? Af gnægð hjartans mælir munnurinn. Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði.
En ég segi yður: Á dómsdegi munu menn verða að svara fyrir hvert ónytjuorð sem þeir mæla. Því af orðum þínum muntu sýknaður og af orðum þínum muntu sakfelldur verða.“

Stöðugt vonaði ég á Drottin
og hann laut niður að mér og heyrði ákall mitt.
Hann dró mig upp úr glötunargröfinni,
upp úr fúafeni,
veitti mér fótfestu á kletti
og gerði mig styrkan í gangi.
Hann lagði mér ný ljóð í munn,
lofsöng til Guðs vors.
Margir sjá það og óttast
og treysta Drottni.
Sæll er sá maður sem gerir Drottin að athvarfi sínu
og snýr sér ekki til dramblátra
eða þeirra sem fylgja falsguðum.
Drottinn, Guð minn, mörg eru máttarverk þín
og áform þín oss til handa,
ekkert jafnast á við þig.
Ég vil segja frá þeim, kunngjöra þau,
en þau eru fleiri en tölu verði á komið.