Martin Luther sagði eitthvað í þá átt að trú fælist í því sem menn settu traust sitt á. Þá má velta því fyrir sér að ef við leggjum traust okkar á peninga og ríkidæmi hvort það sé þá það sem við trúum á? Þetta snýst auðvitað ekki um það að við, sem búum í jafn ríku landi og raun ber vitni, séum hræðilegar manneskjur heldur frekar það að við erum í meiri hættu en aðrir gagnvart því að leggja traust okkar á efni, völd, stöðu og fjármuni í stað þess að treysta Guði.

Í guðspjallinu sem fylgir textum dagsins er varpað fram stórri spurningu: „Hvað ætti ég að gera til að erfa eilíft líf?“

Svar Jesú hittir í mark eins og svo oft áður. „Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“ Þetta hljómar einfalt þegar Jesús segir það. En það er það auðvitað ekki þegar við förum að velta þessu fyrir okkur. Maðurinn var ekki tilbúinn að láta frá sér það sem hann hafði lagt allt sitt í og lagði traust sitt á.

Við getum alltaf gert eða gefið eitthvað smáræði án þess að það valdi okkur sérstaklega miklum búsifjum eða jafnvel án þess að við séum að velta þvi eitthvað sérstaklega mikið fyrir okkur. Að gefa af sér góða nærveru, bros, hlýtt viðmót og að sýna virðingu eru allt góðar og dýrmætar gjafir. Við höfum það sum mjög gott hér á Íslandi en því miður alls ekki öll. Einhver hafa miklu meira en önnur og það er virkilega umhugsunarvert. Þau sem hafa það þokkalegt eru flest aflögufærir um eitthvað smáræði og mörg gefa með sér. En um leið og buddan fer að finna eitthvað fyrir því þá fara málin að verða óþægileg og mörg okkar draga í land.

Spurningin er samt alltaf hvort við séum að sýna af okkur góða breytni, gerum við það sem Guð vill að við gerum? Elskum við Guð, náunga okkar og okkur sjálf? Endurspeglast það í verkum okkar? Það er sannarlega nauðsynlegt að við endurskoðum okkur reglulega og endurmetum það sem við segjum og gerum.

Við getum ekki breytt öðru fólki en við getum breytt eigin viðhorfum og viðbrögðum. Í flestum samfélögum samtímans er mikil pressa, fólk á að vera óaðfinnanlegt samkvæmt hinum ýmsu viðmiðum, hinum og þessum stöðlum, fólk eltist við merkjavöru, útlitsdýrkun og ofur heilsu, að uppfylla þessar kröfur veldur streitu, tómleika og skertri nánd þar sem manneskjan keppir eftir því að gera og gera en gleymir því að vera. Eitt af því að elska sjálfa sig og aðra er að vera og leyfa öðrum að vera.

Ekkert af þessum stöðlum og viðmiðum skiptir máli, ekkert. Vegna þess að þegar við erum með Guði, dveljum í nærveru hans erum við sönn og heiðarleg í því að vera manneskjur, að vera þau sem við erum og þá komum við fram í kærleika með þau gildi sem Jesús hefur kennt okkur.

Við getum alltaf leitað til Guðs. Guð þekkir okkur, þekkir sannleikann um okkur á sama hátt og hann þekkti hjarta ríka mannsins sem við tölum um hér að ofan. Lærisveinarnir urðu hræddir þegar þeir heyrðu hversu erfitt væri að komast inn í Guðs ríki og veltu því fyrir sér hverjir væru raunverulega hólpnir. Það er svo margt sem er ómögulegt fyrir okkur mannfólkið en munum að ekkert er ómögulegt fyrir Guð. Allt er mögulegt fyrir Guð.

Við skynjum það þegar bjátar á, þegar lífið gerist, þegar veikindi steðja að eða aðrir erfiðleikar þá treystum við gjarnan Guði frekar en efnum, valdi, stöðu og fjármunu okkar. Æfum okkur í því að leggja traust okkar á Guð, alla daga.

Dýrð sé Guði, Föður, Syni og Heilögum anda, svo sem var í upphafi, er, og verður, um aldir alda. Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag Heilags anda sé með ykkur öllum. Amen.

Sr. Fritz Már og Díana Ósk

Og nú, Ísrael, hvers krefst Drottinn, Guð þinn, annars af þér en að þú óttist Drottin, Guð þinn, gangir á öllum vegum hans og elskir hann, að þú þjónir Drottni, Guði þínum, af öllu hjarta þínu og allri sálu þinni og haldir boð Drottins og lög sem ég set þér í dag svo að þér vegni vel?
Sjá, Drottni, Guði þínum, heyrir himinninn og himnanna himinn og jörðin og allt sem á henni er.

Þið elskuðu, það er ekki nýtt boðorð sem ég rita ykkur, heldur gamalt boðorð sem þið hafið haft frá upphafi. Hið gamla boðorð er orðið sem þið heyrðuð. Eigi að síður er það nýtt boðorð, er ég rita ykkur, og sannindi þess birtast í honum og í ykkur því að myrkrið er að hverfa og hið sanna ljós er þegar farið að skína.
Sá sem segist vera í ljósinu og hatar bróður sinn, hann er enn þá í myrkrinu. Sá sem elskar bróður sinn býr í ljósinu og í honum er ekkert er leitt geti hann til falls. En sá sem hatar bróður sinn er í myrkrinu og lifir í myrkrinu og veit ekki hvert hann fer því að myrkrið hefur blindað augu hans.

Þegar Jesús var að leggja af stað kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: „Góði meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“
Jesús sagði við hann: „Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn. Þú kannt boðorðin: Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður.“
Hinn svaraði honum: „Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku.“
Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: „Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“ En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur enda átti hann miklar eignir.
Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: „Hve torvelt verður þeim sem auðinn hafa að ganga inn í Guðs ríki.“
Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú en hann sagði aftur við þá: „Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“
En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: „Hver getur þá orðið hólpinn?“
Jesús horfði á þá og sagði: „Menn hafa engin ráð til þessa en Guði er ekkert um megn.“