Við lifum á upplýsingaöld. Það hefur aldrei verið auðveldara að sækja upplýsingar um allt milli himins og jarðar á örskömmum tíma. Við heyrum og nemum svo gífurlegt magn upplýsinga á hverjum degi að venjuleg fartalva myndi fljótlega hætta að virka ef hún ætti að vinna úr samsvarandi magni af upplýsingum.
Þess vegna meðtökum við ekki allt sem við heyrum. Og þess vegna getur verið flókið að finna út hvað sé gott eða rétt, hvað sé heillavænlegt, hvað satt, hvað logið. Það getur verið flókið að finna sér grundvöll að lífi sínu, eitthvað til að leggja traust sitt á.
Jesús kom með einfalda og myndræna dæmisögu sem svo margir þekkja. Um hús byggt á bjargi sem stendur hvað sem á dynur og um hús byggt á sandi sem féll því grunnurinn var veikur og hverfull. Jesús sagði fólkinu að ef það heyri orð hans og fylgdi þeim væri það hyggið eins og maðurinn sem byggði á bjargi. Með því að fylgja orðum hans hefði það reist líf sitt á óhagganlegum grundvelli.
En hvað var það sem Jesú vildi að fólkið heyrði og tæki til sín?
Hvað var það nákvæmlega sem Jesús vildi að fólkið gerði að grundvelli lífs síns?
Stutta svarið við spurningunni er Guð. Lengra svarið er í raun fjallaræðan öll og boðskapur Jesú gegnum lífið en að fylgja öllu sem þar er tæpt á getur virst yfirþyrmandi og stundum jafnvel utan seilingar.
Eitt af því fyrsta sem Jesús tók að prédika í upphafi ferils síns, stuttu fyrir fjallræðuna voru orðin Takið sinnaskiptum, himnaríki er í nánd. Að taka sinnaskiptum þýðir að gera grundvallar breytingar. Grundvallar breytingar á hugarfari og á þeim aðferðum sem við notum til að leita lífsfyllingar og hamingju.
Jesús setur dæmisögu sína fram í lok fjallræðunnar, ræðu sem segja mætti að hefði lagt
grundvöllinn að kristnum boðskap. En leiðbeiningar Jesú í fjallræðunni eru ekki að öllu leyti einfaldar. Þær krefjast þess að við látum erfiðar tilfinningar eins t.d. öfund, hroka, hefnigirnd, dómhörku, reiði og sýndarmennsku ekki stjórna okkur. Og Jesús leggur til að við hættum að hafa áhyggjur og leggjum okkur í einu og öllu í hendur Guðs og treystum vilja almættisins.
En við lifum á upplýsingaöld. Á allt öðrum tímum en Jesú. Við höfum ótalmargar nýjar og betri leiðir til að leita hamingjunnar. Kannski erum við svo meðvituð á upplýsingaöld að við þurfum ekki lengur Guð sem grundvöll lífs okkar? Eða hvað? Hvað heyrum við í fjölmiðlum, á samfélagsmiðlum, í fréttum, í umhverfi okkar? Sjáum við þessar tilfinningar sem Jesús varar okkur við í kringum okkur? öfund, hroka, hefnigirnd, græðgi, dómhörku, reiði, sýndarmennsku? Getur verið að þessar tilfinningar liggi að einhverju leyti til grundvallar stríðum, fátækt, hungri, fordómum, hamfarahlýnun? Finnum við þessar tilfinningar jafnvel innra með okkur?
Ef okkur skyldi mögulega hafa borið af leið, þá er aldrei of seint að treysta grundvöllinn. Það gerum við með því að fylgja leiðbeiningum Jesú í fjallræðunni (hvet þig til að lesa hana, Mattheusarguðspjall kaflar 5 – 8). Við leitumst við að taka orð hans alvarlega, biðjum, leitum og lifum í kærleika og sátt við manneskjur og náttúru og látum verk okkar lýsa af trú okkar. Framkvæmum í samræmi við boðskapinn. Því um leið og við styrkjum trú okkar og tengslin við Guð verður grundvöllurinn sterkur og óhagganlegur. Og þegar við byggjum líf okkar á bjargi, á Guði getum við staðið af okkur hvers konar storma og áhlaup sem koma til með að mæta okkur í lífinu. Og það sem meira er, þar með tökum við þátt í að breyta heiminum og gera hann að betri stað.
Arndís G. Bernahardsdóttir Linn prestur í Lágafellssókn, Mosfellsbæ.
Á þeim degi verður þetta ljóð sungið í Júda:
Vér eigum rammgera borg,
múrar og virki voru reist henni til varnar.
Ljúkið upp hliðum
svo að réttlát þjóð, sem varðveitir trúnað,
megi inn ganga,
þjóð sem hefur stöðugt hugarfar.
Þú varðveitir heill hennar
því að hún treystir þér.
Treystið Drottni um aldur og ævi
því að Drottinn er eilíft bjarg.
Hann hefur lítillækkað þá sem bjuggu á hæðum,
steypt hinni háreistu borg,
steypt henni til jarðar
og varpað henni í duftið.
Hún var troðin fótum,
fótum fátækra,
tröðkuð iljum umkomulausra.
Bein er braut hins réttláta,
þú jafnar veg hans.
Þið elskuðu, trúið ekki öllum sem segjast hafa andann, reynið þá heldur og komist að því hvort andinn sé frá Guði. Því margir falsspámenn eru farnir út í heiminn. Af þessu getið þið þekkt anda Guðs: Sérhver andi, sem játar að Jesús sé Kristur kominn sem maður, er frá Guði. En sérhver andi sem ekki játar Jesú er ekki frá Guði. Hann er andkristsins andi sem þið hafið heyrt um að komi og nú þegar er hann í heiminum.
Börnin mín, þið eruð af Guði og hafið sigrað falsspámennina því að andinn sem er í ykkur er öflugri en andinn sem er í heiminum. Falsspámennirnir eru af heiminum. Þess vegna tala þeir eins og heimurinn talar og heimurinn hlýðir á þá. Við erum af Guði. Hver sem þekkir Guð hlýðir á okkur. Sá sem ekki er af Guði hlýðir ekki á okkur. Af þessu þekkjum við andann sem flytur sannleikann og andann sem fer með lygar.
Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni er byggði hús sitt á bjargi. Nú skall á steypiregn, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi en það féll eigi því það var grundvallað á bjargi.
En hver sem heyrir þessi orð mín og breytir ekki eftir þeim, sá er líkur heimskum manni er byggði hús sitt á sandi. Steypiregn skall á, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi. Það féll og fall þess var mikið.“
Þegar Jesús hafði lokið þessari ræðu varð mannfjöldinn djúpt snortinn af orðum hans því að hann kenndi eins og sá er vald hefur og ekki eins og fræðimenn þeirra.