Jólahugvekja

„Konungur þinn kemur til þín“ segir í guðspjallstexta 1. sunnudags í aðventu.  Tökum eftir að það segir að konungurinn komi til þín en ekki að þú farir til konungsins. Frumkvæðið er hans, þú þarft ekki að bera þig eftir honum. Hvaða hlutverki gegnir konungur í huga okkar? Er hann sá sem öllu ræður? Er hann stríðsherra?  Er hann friðarboði?  Er hann sameiningartákn?  Þegar ég bjó í Noregi sl. tvo vetur varð ég talsvert var við umræðu um konunginn þar í landi, Harald.  Mikið var um konungsfjölskylduna fjallað og hann sjálfan í tengslum við 80 ára afmæli hans. Helsta umsögn sem hann fær er að hann sé konungur fólksins, folkekonge, eins og þeir segja á norskunni. Hvað felst í því? Jú, einkum það að hann er sameiningartákn almennings. Hann er maður meðal manna, alþýðlegur, mannlegur og á margan hátt nálægur svo ekki sé minnst á hvað hann er föðurlegur og afalegur.

Hvernig konungur er Jesús?  Hann er einmitt sameiningartákn, hann kom fram og deildi kjörum með alþýðu manna, naut almennrar lýðhylli en þó var áhrifamikill hópur fólks sem vildi ryðja honum úr vegi. Hann var boðberi frelsis úr fjötrum.  Gyðingarnir væntu komu konungs sem myndi losa þá undan valdboði og undirokun. Frá fyrsta degi var reynt að grafa undan honum, koma honum fyrir kattarnef.

Tekur þú við Jesú sem konungi þínum? Það er val. Það er val að gera Jesú að konungi í sínu hjarta. Við lítum upp til þess sem við veljum okkur sem konung.  Við tökum okkur hann til fyrirmyndar. Og hvaða fyrirmynd gefur Jesú okkur?  Hann varð einn af okkur, hann stráði kærleika í kringum sig, hann lyfti upp þeim undirokuðu, hann gaf þeim rödd sem enginn tók mark á, hann styrkti sjálfsmynd fólks, hann setti mörk, hann talaði gegn hræsni og dró fram einlægni og heiðarleika. Allt eru þetta gildi sem við teljum skipta máli í mannlegu samfélagi.  Eru það kannski áhrif kristninnar á íslenskt samfélag? Við gleymum stundum að horfa til baka, líta í spegil sögunnar og sjá samhengið á milli ríkjandi trúarbragða og samfélagsgerðarinnar. Okkur hættir til að gleyma þeim djúpu og góðu árhrifum sem kristin gildi hafa haft á menningu okkar og samfélag.  Það er gott að sameinast um konung sem er uppspretta kærleikans. Bjóðum hann velkominn á aðventu og um jól. Guð gefi ykkur öllum gleði og frið um jól og farsæld á komandi ári.

Sr. Sigurður Grétar Sigurðsson

Gangið út, já, gangið út um hliðin,
greiðið götu þjóðarinnar.
Leggið, leggið braut,
ryðjið grjótinu burt,
reisið merki fyrir þjóðirnar.
Sjá, Drottinn hefur kunngjört
allt til endimarka jarðar:
„Segið dótturinni Síon,
sjá, hjálpræði þitt kemur.
Sjá, sigurlaun hans fylgja honum
og fengur hans fer fyrir honum.“
Þeir verða nefndir heilagur lýður,
hinir endurleystu Drottins,
og þú kölluð Hin eftirsótta,
Borgin sem aldrei verður yfirgefin.

Gerið þetta því heldur sem þið vitið hvað tímanum líður, að ykkur er mál að rísa af svefni. Nú er okkur hjálpræðið nær en þá er við tókum trú. Liðið er á nóttina og dagurinn í nánd. Leggjum því af verk myrkursins og klæðumst hertygjum ljóssins. Lifum svo að sæmd sé að, því nú er dagur kominn, en hvorki í ofáti né ofdrykkju, hvorki saurlífi né svalli, ekki með þrætum eða öfund. Íklæðist heldur Drottni Jesú Kristi og leggið ekki þann hug á jarðnesk efni að það veki girndir.

Þegar þeir nálguðust Jerúsalem og komu til Betfage við Olíufjallið sendi Jesús tvo lærisveina og sagði við þá: „Farið í þorpið hér fram undan ykkur og jafnskjótt munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni. Leysið þau og færið mér. Ef einhver hefur orð um, þá svarið: Drottinn
þarf þeirra við, og mun hann jafnskjótt senda þau.“
Þetta varð svo að rættist það sem spámaðurinn sagði fyrir um:
Segið dótturinni Síon:
Konungur þinn kemur til þín,
hógvær er hann og ríður asna,
fola undan áburðargrip.
Lærisveinarnir fóru og gerðu sem Jesús hafði boðið þeim, komu með ösnuna og folann og lögðu á þau klæði sín en Jesús steig á bak. Fjöldamargir breiddu klæði sín á veginn en aðrir hjuggu greinar af trjánum og lögðu á veginn. Og múgur sá sem á undan fór og eftir fylgdi hrópaði: „Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum!“