Allt hefur sína sögu og á sína sögu. Það þarf ekki mörg ár til að saga týnist. Þannig er saga afa og ömmu sem bjuggu eina ævi og skamma. Nú er þín saga að renna sitt skeið.
En hvað mótar þína sögu og hvað mótar hún?

Það er í þessu sem það ræðst, hvernig þú skilur sjálfan þig,
hvað það merkir í huga þínum að vera til,
og til hvers að vera til.

Sjálfsvitund þín sprettur af svörunum sem þú finnur við að vita af sjálfum sér.

Að vera menneskja felur í sér að vakna til lífsins- hvernig sem þitt svo sem er.
Það að vera vaknaður til lífsins, felur í sér öðru fremur að leita og knýja á. Eða öllu heldur að hafa leitað og að hafa knúið á. Ekki bara á einhverjar dyr heldur dyrnar að sjálfum þér. Þær þarftu að opna.

Ég ætla að í þessu samhengi opnast það betur fyrir manni hvað líkingarnar sem hugurinn er leiddur að, merkja í samhengi guðspjallsins- já og sjálfs sín.

Jesús er að tala um þetta undur í guðspjalli dagsins sem í raun þú sjálfur geymir líka.
Ég á þá við að líf þitt er komið frá Guði. Þaðan ert þú rétt eins og Jesús.
Það að vita sig í beinu sambandi við skapar sinn hefur afgerandi þátt.
Andi Guðs dvelur ekki í brjósti manns, nema að hann sé boðinn velkominn þangað inn.

Leiðin sem trúin leiðir okkur í lífinu, felst í því að horfa með augum hjartans- kjarnans.
Að horfa með augum hjartans og kærleika Guðs, sem kemst að í slíku hjarta og tekur að ummyndar það.
Kyrrð hugans og ró hjartans.

Þannig breytist þú.

Guð er öllum aðgengilegur og í dagskrá okkar eigum við að taka, þó ekki væri nema smá tíma dag hvern til að skynja nærveru hans og læra þekkja hann af eigin raun.
Hlusta eftir rödd Guðs í lífi manns og fyrir þér mun upplokið verða.

Þetta sjáum við í guðspjalli dagsins þegar Jesús segir: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni mun hann veita yður.

En gríska orðið sem sögnin biðja er þýdd með, geymir líka merkinguna að spyrja um eins og við sjáum síðar í þessum guðspjallstexta.
Þegar hér er komið til sögu í Jóhannesarguðspjalli er farið að hilla undir það að Jesús verði handtekinn. Og í samhengi hjálpræðissögunnar sem þar er rituð, er ekki úr vegi að átta sig á því að hvaða marki er sótt og annað rennur ljósar upp fyrir þeim sem á hlýðir og tekur þannig undir orð lærisveinanna í versunum þarna á eftir er þeir segja: Þess vegna trúum við að þú sért frá Guði kominn. Og Jesús segir síðan við þá: Verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.

Það er þess vegna sem fólk eigast frið í honum.

Og einstaklingurinn fer að taka háttarskiptum. Sagan verður önnur.

Í guðsþjónustunni knýjum við á, og biðjum Guð að leiða okkur, tala til okkar það sem við þurfum að heyra, gjöra okkur kunnan vilja hans og láta okkur lúta honum.
Í dag heyrum við líka þessi vekjandi orð Guðs úr Jeremía: Því að ég þekki þær fyrirætlanir, sem ég hefi í hyggju með yður segir Drottinn -fyrirætlanir til heilla, en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð. Þá munuð þér ákalla mig og fara og biðja til mín, og ég mun bænheyra yður. Og þér munuð leita mín og finna mig. Þegar þér leitið mín af öllu hjarta, vil ég láta yður finna mig segir Drottinn.

Líf okkar hefur mark og mið í huga og hjarta Guðs- ef svo má að orði komast. Kannski fögnuðurinn sem Jesús talar um sé einmitt þetta að koma auga á það að Guð hefur fyrirætlan með sérhvern mann og hún er vonarrík framtíð til heilla en ekki til óhamingju.

Það læðist að mér sá skilningur að bænin sé tæki til að stilla sig af í þessum heimi- að ná áttum- finna viðmiðunarpunkt sálarþroskans.

Þannig rennur æviganga þín við eilífðarlagið.

Sr. Axel Árnason Njarðvík

Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð. Þegar þér ákallið mig og komið og biðjið til mín mun ég bænheyra yður. Ef þér leitið mín munuð þér finna mig. Þegar þér leitið mín af öllu hjarta læt ég yður finna mig, segir Drottinn.

Fyrst af öllu hvet ég til að biðja og ákalla Guð og bera fram fyrirbænir og þakkir fyrir alla menn. Biðjið fyrir konungum og öllum þeim sem hátt eru settir til þess að við fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi í guðsótta og siðprýði. Þetta er gott og þóknanlegt Guði, frelsara vorum, sem vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.

Einn er Guð. Einn er og meðalgangarinn milli Guðs og manna, maðurinn Kristur Jesús sem gaf sjálfan sig til lausnargjalds fyrir alla.

[Jesús sagði:] Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni mun hann veita yður. Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni. Biðjið og þér munuð öðlast svo að fögnuður yðar verði fullkominn.

Þetta hef ég sagt yður í líkingum. Sú stund kemur að ég tala ekki framar við yður í líkingum heldur mun ég berum orðum segja yður frá föðurnum. Á þeim degi munuð þér biðja í mínu nafni. Ég segi yður ekki að ég muni biðja föðurinn fyrir yður því sjálfur elskar faðirinn yður þar eð þér hafið elskað mig og trúað að ég sé frá Guði kominn. Ég er kominn í heiminn frá föðurnum. Ég yfirgef heiminn aftur og fer til föðurins.“
Lærisveinar hans sögðu: „Nú talar þú berum orðum og mælir enga líking. Nú vitum við að þú veist allt og þarft eigi að nokkur spyrji þig. Þess vegna trúum við að þú sért frá Guði kominn.“