Í Guðspjalli dagsins fór Jesús einn upp á fjall til að biðjast fyrir og hann var þar fram á kvöld. Hann gaf sér tíma til að biðja en hann gaf sér líka tíma fjarri öllu, dvaldi einn – tók sig frá hópnum.
Ég veit ekki með ykkur en ég veit það að þegar ég hef farið ein upp á fjall þá hvílist ég einstaklega vel. Þar dvel ég ein með hugsunum mínum og tilfinningum og get því unnið úr því sem ég hef upplifað. Ég hef þá algert næði til þess að tala við Guð og get leyft mér að láta allt flakka í samtali mínu við himnafaðirinn.
Gangan, útiloftið, hvíldin frá áreitinu sem fylgir amstri dagsins, næðið sem einveran gefur, úrvinnsla tilfinninga og hugrenninga og nærveran við Guð gerir það að verkum að þegar ég kem til baka er ég endurnærð og með endurnýjaðan kraft.
Í Guðspjallinu kemur Jesús til lærisveinanna þar sem þeir eru á bát í ókyrrum sjónum og þeim bregður, þeir halda að Jesús sé draugur en hann segir þeim að óttast ekki. Pétur segir þá; ef þetta ert þú leyfðu mér þá að koma á móti þér. Jesús tekur vel í það og Pétur leggur af stað. Fyrstu skrefin tekur hann í fullvissu og í trausti til Jesú og gekk þá á vatninu til móts við Jesús. Svo leit hann í kringum sig á aðstæður og sá óveðrið, hann missti um leið sjónar á Jesú, hélt ekki í trúnna og byrjaði að sökkva.
Hann efaðist þó ekki meira en það að hann hrópaði á Jesú og bað hann að bjarga sér. Það trúarkorn dugði.
Trú okkar skiptir máli og það er okkur gott að rýna inná við og spyrja okkur að því hvort við trúum og hver trú okkar er. Trúin setur okkur á nýjan stað gagnvart tilverunni, við meðtökum með henni vitund um það sem er að baki alls, við lítum lengra, því bak við það sem við sjáum er það sem við sjáum ekki.
Einstaklingurinn stýrir hvorki veðrum né vindum, áföllum, dauða eða tilfinningum og viðbrögðum annarra. Það er því gott að viðurkenna sinn stað í veröldinni, að til sé eitthvað manneskjunni æðra. Trúin setur okkur í samhengi við eilífðina. Hún gefur okkur líka tilfinningu eða fullvissu fyrir því að líf okkar hafi tilgang.

Ég get sagt fyrir mig að;
Trúin gefur mér hugrekki til að vera sú sem ég er og til þess að tala um það sem skiptir mig máli og til þess að setja mörk sem eru mér mikilvæg. Trúin gefur mér von um að allt fari vel, von um ljós í myrkrinu, von um lilju í dalnum. Hún gefur mér styrk því ég veit ég er ekki ein og með Guði get ég lifað allt af og meira en það, ég get notið lífsins – vegna trúarreynslu minnar vil ég hvetja fólk til trúar.
Því með trú kemst manneskjan nær Guði og öðlast möguleika á að taka við því sem hann hefur fyrir hana, til dæmis þá skilyrðislausu elsku sem hann ber til hennar.
Trúin er líka skjöldur, hún gefur von í vonlausum aðstæðum, hún gefur okkur hugrekki þegar við upplifum ótta. Þetta sjáum við í sálmum Davíðs; Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta … Jafnvel þó ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því þú ert hjá mér. Sproti þinn og stafur hugga mig …
Trúin styður fólk í lífsins ólgusjó og vindum, hún styrkir innra líf einstaklingsins þar sem hún veitir getu til að horfa inná við, styrk til þess að standa með sér og hlúa að því sem nærir. Fyrir trú keppum við eftir þeim gildum sem Kristur kenndi okkur og þegar dauðinn kemur þá óttumst við hann ekki þar sem við trúum því að styrk hönd leiði okkur og taki á móti okkur.
Trúin gefur frið sem heimurinn, hlutir og annað fólk getur ekki gefið okkur. Fyrir trú skiljum við að Guð er sá sem skapaði og skapar enn. Við meðtökum þannig valdeflingu og kraft úr trúnni, til heilunar og blessunar. Með trú á Guð sem bjargar, gefur og skapar, sem viðheldur og fullkomnar það verk sem hann hefur hafið.
Tökum á móti því sem hann hefur fyrir okkur og leyfum honum að tala til okkar þegar við erum í neyð og ótta en einnig þegar við erum í sátt og samlyndi.
Megi Guð auka trú okkar allra. Amen.

Díana Ósk Óskarsdóttir, sjúkrahúsprestur

Job svaraði Drottni og sagði: Nú skil ég að þú getur allt, ekkert, sem þú vilt, er þér um megn. Hver myrkvar ráðsályktunina án þekkingar? Ég hef talað af skilningsleysi um undursamleg kraftaverk. Hlustaðu, nú ætla ég að tala, ég ætla að spyrja, þú skalt svara. Ég þekkti þig af afspurn en nú hefur auga mitt litið þig.

Um miðnætti báðust þeir Páll og Sílas fyrir og lofsungu Guði en bandingjarnir hlustuðu á þá. Þá varð skyndilega landskjálfti mikill svo að grunnur fangelsisins riðaði. Jafnskjótt opnuðust allar dyr og fjötrarnir féllu af öllum. Fangavörðurinn vaknaði við og er hann sá fangelsisdyrnar opnar dró hann sverð sitt og vildi fyrirfara sér þar eð hann hugði fangana flúna. Þá kallaði Páll hárri raustu: „Ger þú sjálfum þér ekkert mein, við erum hér allir!“ Fangavörðurinn bað um ljós, stökk inn og féll óttasleginn til fóta Páli og Sílasi. Síðan leiddi hann þá út og sagði: „Herrar mínir, hvað á ég að gera til að verða hólpinn?“ En þeir sögðu: „Trú þú á Drottin Jesú og þú munt verða hólpinn og heimili þitt.“

Tafarlaust knúði Jesús lærisveina sína að fara í bátinn og halda á undan sér yfir um meðan hann sendi fólkið brott. Og er hann hafði látið fólkið fara gekk hann til fjalls að biðjast fyrir í einrúmi. Þegar kvöld var komið var hann þar einn. En báturinn var þegar kominn langt frá landi og lá undir áföllum því að vindur var á móti. En er langt var liðið nætur kom Jesús til þeirra, gangandi á vatninu. Þegar lærisveinarnir sáu hann ganga á vatninu varð þeim bilt við. Þeir sögðu: „Þetta er vofa,“ og æptu af hræðslu. En Jesús mælti jafnskjótt til þeirra: „Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir.“ Pétur svaraði honum: „Ef það ert þú, Drottinn, þá bjóð mér að koma til þín á vatninu.“ Jesús svaraði: „Kom þú!“ Og Pétur sté úr bátnum og gekk á vatninu til hans. En er hann sá ofviðrið varð hann hræddur og tók að sökkva. Þá kallaði hann: „Drottinn, bjarga þú mér!“ Jesús rétti þegar út höndina, tók í hann og sagði: „Trúlitli maður, hví efaðist þú?“ Þeir stigu í bátinn og þá lægði vindinn. En þeir sem í bátnum voru féllu fram fyrir honum og sögðu: „Sannarlega ert þú sonur Guðs.“