Textar dagsins í dag kallast á, þeir fjalla allir um vilja Guðs. Mig langar að taka hvern texta fyrir sig og draga fram hugsun mína og túlkun hvað þetta varðar. Það er því tilvalið að líta yfir textana sem er hægt að finna hér fyrir neðan.

Úr Guðspjalli dagsins:
Fyrsta táknið sem við vitum að Jesús gerði er þegar hann breytti vatni í vín í brúðkaupsveislu í Kana. Þetta tákn opinberaði dýrð Jesú og lærisveinarnir trúðu á hann. Táknið gerði hann vegna beiðni frá móður sinni þrátt fyrir að hann segði að hans tími væri ekki kominn. Það er tvennt sem kemur í huga minn þegar ég les þetta; Það fyrra er að Jesús heiðraði móður sína eins og segir í boðorðunum. Það síðara er að Jesús vissi að tími hans myndi koma, hann fylgdi áætlun. Vilja Guðs.

Frá seinni texta dagsins:
Einstaklingar, persónur eru mjög ólíkar en samt er hver og ein manneskja sköpuð í mynd Guðs. Öll með sinn tilgang, limir á líkama Krists. Hvert með sína hæfileika og gáfur. Í textum dagsins er fjallað um náðargáfurnar sem eru gefnar af Guðs náð. Náðargjafirnar eru settar fram sem spádómsgáfa, þjónusta, kennsla, að hvetja, að vinna miskunnarverk að vera örlátur og að veita forstöðu. Náðargjafirnar eru gjöf sem ætti að fara vel með, þau sem hafa spádómsgáfu ættu að að nota hana í samræmi við trúna, þau sem búa yfir þjónustulund ættu að gegna þjónustu, þau sem geta kennt ættu að sinna kennslu, þau sem eiga gott með að hvetja ættu að gera það, þau sem eru örlát ættu að gefa af sér, þau sem veiti forstöðu ættu að gera það af kostgæfni og þau sem vinna miskunnarverk ættu að gera það með gleði. Er það Guðs vilji að fara vel með náðargjafir hans?

Páll er að hvetja söfnuðinn í Róm og segir þeim að sýna bróðurkærleik, hann segir: verið ástúðleg við hvert annað og keppist eftir því að sýna hvert öðru virðingu. Virðingu, hvernig sýnir maður öðrum virðingu? Með því að hlusta? Með því að taka tillit til marka viðkomandi? Með því að tala fallega til og um viðkomandi? Með því að mæta þörfum? Með því að elska viðkomandi eins og maður elskar sjálfa/n sig? Það er eitt af boðorðunum og þar með vilji Guðs.

Úr fyrri texta dagsins:
Móse bað Guð að sýna sér dýrð sína, Guð segði honum, ég líkna þeim sem ég vil, ég miskunna þeim sem ég vil, það lifir það enginn af að sjá ásjónu mína því set ég hönd mína fyrir þig meðan ég fer framhjá en tek hana frá svo þú getir séð aftan á mig. Guð svarar beiðni Móse en samkvæmt eigin vilja. Hann mætti honum á sama tíma og hann verndaði hann. Í þessu felst umhyggja, elska og öryggi – traust. Það auðveldar mér að leita vilja Guðs og treysta útkomunni, því það er öryggi í fullvissunni um að vilji Guðs er ávallt mér og mínum fyrir bestu.

Byggir trú þín á táknum eða kraftaverkum? Ef trú þín byggir á táknum og kraftaverkum þá velti ég því fyrir mér hvort þú sjáir táknin og meðtakir kraftaverkin í eigin lífi?

Díana Ósk Óskardóttir

Drottinn svaraði Móse: „Einnig þetta, sem þú sagðir, mun ég gera því að þú hefur fundið náð fyrir augum mínum og ég þekki þig með nafni.“ Þá sagði Móse: „Sýndu mér dýrð þína.“ Drottinn svaraði: „Ég mun sjálfur láta allan ljóma minn líða fram hjá þér og ég mun hrópa nafnið Drottinn frammi fyrir þér. Ég vil líkna þeim sem ég vil líkna og miskunna þeim sem ég vil miskunna.“ Enn fremur sagði hann: „Þú getur ekki séð auglit mitt því að enginn maður fær séð mig og haldið lífi.“ Síðan sagði Drottinn: „Þarna er staður, stattu uppi á klettinum. Þegar dýrð mín fer fram hjá læt ég þig standa í klettaskorunni og hyl þig með lófa mínum þar til ég er farinn fram hjá. Þegar ég tek lófa minn frá muntu sjá aftan á mig. Enginn fær séð auglit mitt.“

Við eigum margvíslegar náðargáfur samkvæmt þeirri náð sem Guð hefur gefið. Sé það spádómsgáfa þá notum hana í samræmi við trúna, sé það þjónustustarf skal gegna því, sé það kennsla skal sinna henni, sá sem hvetja skal geri það, sá sem gefur sé örlátur. Sá sem veitir forstöðu sé kostgæfinn og sá sem vinnur miskunnarverk geri það með gleði.
Elskan sé flærðarlaus. Hafið andstyggð á hinu vonda en haldið fast við hið góða. Verið ástúðleg hvert við annað í bróðurlegum kærleika og keppist um að sýna hvert öðru virðingu. Verið ekki hálfvolg í áhuganum, verið brennandi í andanum. Þjónið Drottni. Verið glöð í voninni, þolinmóð í þjáningunni, staðföst í bæninni. Takið þátt í þörfum heilagra. Leggið stund á gestrisni.
Blessið þá er ofsækja ykkur. Blessið en bölvið ekki. Fagnið með fagnendum, grátið með grátendum.

Á þriðja degi var brúðkaup í Kana í Galíleu. Móðir Jesú var þar. Jesú var og boðið til brúðkaupsins og lærisveinum hans. En er vín þraut segir móðir Jesú við hann: „Þeir hafa ekki vín.“
Jesús svarar: „Hvað viltu mér, kona? Minn tími er ekki enn kominn.“
Móðir hans sagði þá við þjónana: „Allt það sem hann segir ykkur, það skuluð þið gera.“
Nú voru þar sex vatnsker úr steini samkvæmt reglum Gyðinga um hreinsun og tók hvert þeirra tvo mæla eða þrjá. Jesús segir við þá: „Fyllið kerin vatni.“ Þeir fylltu þau á barma. Síðan segir hann: „Ausið nú af og færið veislustjóra.“ Þeir gerðu svo. Veislustjóri bragðaði vatnið, sem var orðið vín, og vissi ekki hvaðan það var en þjónarnir, sem vatnið höfðu ausið, vissu það. Þá kallaði veislustjóri á brúðgumann og sagði: „Allir menn bera fyrst fram góða vínið og síðan hið lakara er menn gerast ölvaðir. Þú hefur geymt góða vínið þar til nú.“
Þetta fyrsta tákn sitt gerði Jesús í Kana í Galíleu og opinberaði dýrð sína og lærisveinar hans trúðu á hann.