Fólk er að fást við ýmislegt sem gerir það að verkum að það bregst, það er upptekið þegar við þurfum á því að halda, það þarf jafnvel að sinna mörgum aðkallandi verkefnum í einu. Fólk á misjafna daga, er illa sofið, lasið, að vinna úr eigin hugarangri og getur því brugðist vonum okkar og væntingum, stundum með því að vera utan við sig þegar við viljum athygli, með því að vera afundið þegar við viljum hlýju eða með því að tala um eigin mál þegar við viljum koma okkar að.

Þetta á við um besta fólk, allt fólk, jafnvel fólk sem er að vanda sig og er allt að vilja gert.

Fólk getur brugðist trausti okkar, það missir út úr sér atriði sem við báðum þau fyrir, það á það til að tala um okkur þegar við erum ekki á staðnum, dæma aðra, segja ósatt, skara eld að eigin köku og það kemur fyrir að fólk svíkur, orð sín og samninga.

Guð gerir ekkert af þessu. Guð er ávallt til staðar, með opinn faðminn. Það er aldrei á tali hjá Guði þegar við viljum ná sambandi. Guð hefur rými fyrir hvert og eitt okkar, öllum stundum.

Hvað sem við erum að fást við, hvert sem verkefni okkar er, hvort sem það er stórt eða smátt ættum við að hafa þetta í huga: Við getum sannarlega sáð fræjunum og vökvað þau, við getum meira að segja valið jarðveginn en við getum ekki gefið fræjunum líf eða stýrt vexti þeirra, það getur Guð einn. Leggjum málin í Guðs hendur, gerum það sem er okkar að gera og treystum svo Guði fyrir útkomunni.

Guð er, var og verður. Guð bregst þér ekki. Guð gerir ekki upp á milli. Hann frelsar, verndar, læknar, líknar, huggar og mætir þér.

Díana Ósk

Sá er situr í skjóli Hins hæsta
og dvelst í skugga Hins almáttka
segir við Drottin:
„Hæli mitt og háborg,
Guð minn, er ég trúi á.“
Hann frelsar þig úr snöru fuglarans,
frá drepsótt eyðingarinnar,
hann skýlir þér með fjöðrum sínum,
undir vængjum hans mátt þú hælis leita,
trúfesti hans er skjöldur og vígi.

Ég gróðursetti, Apollós vökvaði en Guð gaf vöxtinn. Þannig skiptir það engu hver gróðursetur eða hver vökvar. Það er Guð sem skiptir máli, hann gefur vöxtinn. Sá sem gróðursetur og sá sem vökvar eru eitt. En sérhver mun fá laun eftir erfiði sínu. Því að samverkamenn Guðs erum við, Guðs akurlendi, Guðs hús eruð þið.

Jesús sagði við þá: „Minn matur er að gera vilja þess sem sendi mig og fullna verk hans. Segið þið ekki: Enn eru fjórir mánuðir, þá kemur uppskeran? En ég segi ykkur: Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru fullþroskaðir til uppskeru. Sá sem upp sker tekur þegar laun og safnar ávexti til eilífs lífs. Þá getur sá sem sáir samfagnað þeim sem upp sker. Hér sannast orðtakið: Einn sáir og annar upp sker. Ég sendi ykkur að skera upp það sem þið hafið ekki unnið við. Aðrir hafa erfiðað en þið njótið erfiðis þeirra.“