Í þrjátíu ár hef ég verið í þannig starfi að ég hef verið í þeirri aðstöðu að fá mikið af gömlum bókum og bæklingum í hendurnar. Í þessari viku er það bunki af Kristilega Stúdentablaðinu frá árunum eftir síðari heimsstyrjöld, í síðustu viku var það bók um Páll postula frá árinu 1928, eftir Magnús Jónsson prófessors í Guðfræði við háskóla Ísland. Í bók Magnúsar hef ég meðal annars lesið mér til um vöxt kirkjunnar í Jerúsalem á tímum frumkristinnar og hvernig hún stækkaði ört úr 12 postulum í þúsundir manna. Maður sagði manni, frá hinum góða boðskap og svo er enn í dag, því boðskapurinn er sá sami og hefur ekkert breyst. Fátt er yndislegra en að vera þáttakandi í því að setja strik í sandinn í lífi fólks og sjá umbreytinguna sem verður í lífi þess í kjölfarið. Á vinnustað mínum hef ég haft ótrúleg tækifæri til þess að boða boðskapinn um Jesú og gríp ég hvert tækifæri sem gefst. Ég geri engan greinarmun á því hvort ég er að ræða við róna, sprautufíkill eða forríkra menn. Allir þurfa að heyra um Jesú en það er ekki alveg sama hvernig maður ber sig að því að segja frá. Ég er þess fullviss að hver sáning í hjarta fólks skilar uppskeru, fyrr eða síðar.

Þegar ég lít yfir farinn veg sé ég að ég hef ekki alltaf hlýtt þegar það kemur að því að boða, ég þreytist ekki á að segja frá einu tilfelli þar sem mér fannst vera sagt við mig, að ég ætti að gera eitthvað, sem ég náði ekki að gera. Ég var staddur á biðstofu á opinberum stað og þar var ungur maður, sem ég hafið þekkt til síðan hann var ungur drengur og ég vissi að ýmislegt hafði gengið á, á stuttri ævi hans. Ég sá angist í augum hans og eftirfarandi kom í huga minn – farðu og talaðu við hann! Í því var kallað á mig inn til viðtals og þegar því var lokið og ég kom aftur fram í biðstofuna var ungi maðurinn kallaður inn, ég hafði úr tvennu að velja, að bíða eftir honum eða koma mér út í sólríkan sumardaginn. Ég valdi síðari kostinn. Mér til varnar er sú staðreynd að ég gat og get ekki séð inn í ókomna framtíð. Samt er reynsla mín af þessum atburði mér til ævarandi viðvörunar um að nota hvert tækifæri til þess að tala við fólk. Skömmu eftir viðveru mína á biðstofunni með unga manninum birtist dánartilkynning um hann og ég gat lesið á milli línanna í minningargreinunum að hann hafið tekið líf sitt. Þessi atburður hafði djúp áhrif á mig og er orsök þess að ég læt helst ekkert tækifæri mér úr hendi renna þegar kemur að því að tala við fólk, og gera mitt til þess að koma Guði að á einn eða annan hátt. Því ég hef fengið að njóta þess að sjá það undur, aftur og aftur hvernig líf fólks breytist þegar það tekur upplýsta ákvörðun um að taka við Jesú inn í líf sitt.

Fyrir u.þ.b. 25 árum síðan þegar ég var að hefja göngu mína með Guði, mætti ég á bílaplaninu fyrir utan kirkjuna mína, roskinni konu. Ég hafði séð hana einu sinni til tvisvar sinnum áður í kirkjunni, aldrei talað við hana en nú ávarpaði hún mig: „Kemur þú mikli veiðimaður“ og hún brosti til mín. Ég hef aldrei dýft fingri í saltan sjó og þaðan af síður veitt eitt né neitt svo ég skildi ekki hvað gamla konan var að meina en hún hefur séð í mér veiðimann, manna. Þú sem lest þetta dragðu fram veiðimanninn í þér þegar þér veitist slík tækifæri. Þau eru einstök.

Jónas Ragnar Halldórsson,
Antik og Listmunasali.

Svo segir Drottinn hersveitanna:
Hlustið ekki á orð spámannanna.
Þeir flytja yður boðskap
en þeir blekkja yður,
þeir flytja uppspunnar sýnir
og ekki af vörum Drottins.
Þeir segja sífellt við þá sem fyrirlíta orð Drottins:
„Þér hljótið heill.“
Og við hvern sem fylgir þverúð eigin hugar segja þeir:
„Engin ógæfa kemur yfir yður.“
En hver hefur staðið í ráði Drottins,
séð hann og heyrt orð hans?
Hver hefur hlýtt á orð hans og boðað það?

Reiði Drottins slotar ekki
fyrr en hann hefur framkvæmt og fullkomnað
fyrirætlanir hjarta síns.
Síðar meir munuð þér skilja það.
Ég sendi ekki þessa spámenn,
samt hlaupa þeir,
ég talaði ekki til þeirra,
samt spá þeir.

Þannig erum við, systkin,
í skuld, ekki við eigin hyggju
að við skyldum lúta henni því að ef þið gerið það munuð þið deyja. En ef þið látið anda Guðs deyða gjörðir sjálfshyggjunnar
munuð þið lifa. Allir sem leiðast af anda Guðs eru Guðs börn. Þið hafið ekki fengið anda sem hneppir í þrældóm og leiðir aftur til hræðslu. Þið hafið fengið þann anda sem gerir mann að barni Guðs. Í þeim anda áköllum við: „Abba, faðir.“ Sjálfur andinn vitnar með anda okkar að við erum Guðs börn. En ef við erum börn erum við líka erfingjar og það erfingjar Guðs en samarfar Krists því að við líðum með honum til þess að við verðum einnig vegsamleg með honum.

Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum en innra eru þeir gráðugir vargar. Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu en slæmt tré vonda. Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og því í eld kastað. Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá.

Ekki mun hver sá sem segir við mig: Drottinn, Drottinn, ganga inn í himnaríki heldur sá einn er gerir vilja föður míns sem er á himnum.

Margir munu segja við mig á þeim degi: Drottinn, Drottinn, höfum vér ekki í þínu nafni flutt orð Guðs, rekið út illa anda og gert mörg kraftaverk? Þá mun ég votta þetta: Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn.