Maður tekur eftir því við lestur Markúsarguðspjalls að þegar Jesús gerir kraftaverk þá biður hann fólk að þegja um það. Og þetta viðgengst nær hálft guðspjallið. Og þetta er skrítið! Af hverju má fólk ekki segja frá?

 

Fyrsta kraftaverk Jesú í Markúsarguðspjalli gerist í samkundunni í Kapernám. Þar maður með óhreinan anda sem æpir þegar hann sér Jesús: Hvað viltu okkur, Jesús frá Nasaret? Ert þú kominn að tortíma okkur? Ég veit hver þú ert, hinn heilagi Guðs.”

Jesús hastar á hann: “Þegi þú og farðu úr manninum.” Við það teygist maðurinn allur, óhreini andinn gólar og hverfur á braut. Allir í samkundunni eru slegnir yfir þessu og byrja um leið að tala um hver Jesús gæti verið.

 

Eftir þetta fyrsta kraftaverk heldur Jesús áfram að gera kraftaverk og biður hann fólk um að þegja um það. Vandamál Jesú frá fyrstu tíð er að allir þykjast vita hver hann er og hvað honum er ætlað að gera, lærisveinarnir, lýðurinn og við lífslok Jesú spyr Pontíus Pílatus leiðandi spurningar: “Ert þú konungur Gyðinga?” Jesús svarar: “Það eru þín orð.” Jafnvel óhreini andinn sem Jesús rak út í Kapernám segist vita hver hann er.

 

Allir eru mjög uppteknir að skilgreina Jesús, sér í hag auðvitað, en Jesús biður þá að þegja því hann vill skilgreina sig sjálfur, útskýra sjálfur hvað Kristur/Messías/frelsari merkir. Sem var reyndar þvert á væntingar fólks, sem bjóst við stríðskonungi, en Jesús fórnar sér á krossi.

 

Væntingar manns til fólks og málefna þurfa ekkert að vera á rökum reistar og fólk lætur raunveruleikann síst af öllu trufla væntingar sínar ef það hentar þeim ekki. Við sjáum það sem við viljum sjá!

 

Einu sinni var lítil stúlka með tvö epli í sitthvorri höndinni þegar móðir hennar kemur að henni og spyr ósköp ljúflega: “Má ég fá epli hjá þér?”

Stúlkan leit á móður sína eitt augnablik, tók svo bita úr öðru eplinu og svo annan bita úr hinu eplinu. Móðirinn fann hvernig brosið á vörum hennar fraus og hún var í vandræðum með að leyna vonbrigðum sínum.

Sú litla rétti móður sinni annað – íbitið – eplið og sagði: Hérna mamma, þetta epli er betra á bragðið.

 

Við sjáum það sem við viljum sjá! Jesús stóðst aldrei væntingar þeirra sem voru í kringum hann og enginn áttaði sig á því hvað hann boðaði um sjálfan sig fyrr en eftir dauða hans og upprisu. Þá loks skildu vinir hans og fylgjendur fullkomnlega hver hann var. En þú, lesandi góður, hvern segir þú Jesús vera og hverjar eru væntingar þínar til Jesú?

 

Sr. Aðalsteinn Þorvaldsson

Öllu er afmörkuð stundog sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma.
Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma,
að gróðursetja hefur sinn tíma og að rífa upp hið gróðursetta hefur sinn tíma,
að deyða hefur sinn tíma og að lækna hefur sinn tíma,
að rífa niður hefur sinn tíma og að byggja upp hefur sinn tíma,
að gráta hefur sinn tíma og að hlæja hefur sinn tíma,
að harma hefur sinn tíma og að dansa hefur sinn tíma,
að kasta steinum hefur sinn tíma og að tína saman steina hefur sinn tíma,
að faðmast hefur sinn tíma og að halda sér frá faðmlögum hefur sinn tíma,
að leita hefur sinn tíma og að týna hefur sinn tíma,
að geyma hefur sinn tíma og að fleygja hefur sinn tíma,
að rífa sundur hefur sinn tíma og að sauma saman hefur sinn tíma,
að þegja hefur sinn tíma og að tala hefur sinn tíma,
að elska hefur sinn tíma og að hata hefur sinn tíma,
stríð hefur sinn tíma og friður hefur sinn tíma.
Hvaða gagn hefur verkamaðurinn af öllu striti sínu?
Ég virti fyrir mér þá þraut sem Guð hefur fengið mönnunum að þreyta sig á. Allt hefur hann gert hagfellt á sínum tíma, jafnvel eilífðina hefur hann lagt í brjóst þeirra en maðurinn fær ekki skilið að fullu það verk sem Guð vinnur. Ég sá að ekkert hugnast þeim betur en að vera glaðir og njóta lífsins meðan það endist. En að matast, drekka og gleðjast af öllu erfiði sínu, einnig það er Guðs gjöf.

Það veit ég með fullri vissu í trúnni á Drottin Jesú að ekkert er vanheilagt í sjálfu sér nema þá þeim sem heldur eitthvað vanheilagt, honum er það vanheilagt. Ef bróðir þinn eða systir hryggist sökum þess sem þú etur, þá ertu kominn af kærleikans braut. Hrind ekki með mat þínum í glötun þeim manni sem Kristur dó fyrir.
Látið því ekki hið góða sem þið eigið verða fyrir lasti. Guðs ríki er ekki matur og drykkur heldur réttlæti, friður og fögnuður í heilögum anda. Hver sem þannig þjónar Kristi er Guði velþóknanlegur og í metum hjá mönnum.
Keppum þess vegna eftir því sem til friðar heyrir og eflir samfélagið.

Svo bar við að Jesús sat að borði[ í húsi hans. Margir tollheimtumenn og bersyndugir sátu þar með honum og lærisveinum hans en margir fylgdu honum. Fræðimenn af flokki farísea, sem sáu að hann samneytti tollheimtumönnum og bersyndugum, sögðu þá við lærisveina hans: „Hann etur með tollheimtumönnum og bersyndugum.“
Jesús heyrði þetta og svaraði þeim: „Ekki þurfa heilbrigðir læknis við heldur þeir sem sjúkir eru. Ég er ekki kominn til að kalla réttláta heldur syndara.“